mánudagur, janúar 29, 2007

Grillið

Við mamma fórum á Grillið á Hótel Sögu á laugardaginn. Það var algjört æði! Ég átti gjafabréf frá því að ég var á Dominos. Ég fékk humar í forrétt, lamb í aðalrétt, súkkulaði fondú í eftirrétt. Mamma fékk sér dádýrasteik og svo eftirrétt sem var kveikt í. Mjög flott. Og náttla vín með. Svo fórum við að reikna og komust að því að við vorum ekki komnar upp í gjafabréfið. Þannig að ég dæli meira víni og kaffi í mömmu og fékk mér sjálf annan eftirrétt. :) Ávaxtaís. Mjög gott. Þannig að kvöldið var algjör draumur í dós! :)

Eftirmaturinn hennar mömmu

þriðjudagur, janúar 23, 2007

Söguleg stund og aumingja Ísland??

Í gær gerðist sögulegur atburður í vinnunnu minni. Mér tókst að klára á 4 tímum og 49 mín.! :) Í tilefni að þessum merkis atburði ætla ég að lýsa starfinu mínu aðeins. Ég hef lent í alls kyns raunum og... já, aðalega raunum. Í fyrsta lagi valdi ég mér besta tímann til að stunda blaðaútburð. Mesti snjór í 13 ár! Frábært! Kerran er alveg nógu þung fyrir... Svo hef ég líka fengið að prófa öll veður held ég bara. Rigning, glerhálka, brjálað frost og svo auðvitað skafrenningurinn um daginn. Svo eru það hundarnir. Ég er farin að skilja þennan brandara með hunda og póstinn... Ein beit mig um daginn!!! Ég var ekkert smá móðguð! Ég var bara í mestu makindum að koma labbandi með blaðið að húsinu. Kemur hundurinn þá ekki bara á urrandi siglingu og hoppar upp og bítur mig! Piff! Svo er annar sem urrar alltaf á mig. Það var eiginlega ekki fyrr en í gær að ég sannfærðist um að þetta var hundur. Hann gefur nefninlega frá sér furðulegstu hljóð, svona sambland af ljóni og risaeðlu... Ekki mjög kræsilegt. En í gær hafði hann fyrir því að gelta einu sinni á mig. Það var eiginlega hálfgerður léttir að vita að þetta væri örugglega hundur því ég var farin að ímynda mér alls kyns skrímsli... Enda ekki annað hægt miðað við hljóðin! Þá verð ég nú að segja að kisunar eru talsvert viðmótsþýðari. :) Það er til dæmis ein sem bíður alltaf eftir mér í glugganum þegar ég kem með blaðið. :) Og svo er önnur sem er annað hvort ekki alveg viss um hvar hún á heima eða vill gerast blaðberi. Hún labbar nákvæmlega sömuleið og ég. Frá einu húsi í það næsta, út alla götuna. Furðulegt. Svo er eitt sem ég átta mig ekki alveg á... Á einu húsinu sem ég er að bera út í er skilti. Frekar stór, upplýst skilti. Og hefur öruglegga kostað sitt. Og á því stendur sá merki boðskapur: "Aumingja Ísland". ????? Hver er tilgangurinn með að eyða peningum í svoleiðis? Ég skil það ekki. Og hafa þetta við útidyrahurðina sína... Og upplýst í þokkabót! Furðuleg.

mánudagur, janúar 22, 2007

Örblogg

Ég fór út að borða á Humarhúsið á miðvikudaginn, í tilefni að afmælinu hennar mömmu. Og ég fékk besta humar sem ég hef nokkurn tíma smakkað! Hann bráðnaði upp í manni. :) Mamma fékk sér nautasteik. Svo fengum við okkur súkkulaðiköku í eftirrétt og mamma pantaði dýrasta grandið á matseðlinum! En samt borguðum við bara 500 kr.... ;)
Á fimmtudaginn fór ég svo á Footloose. Það var alveg rosalega gaman! :) Sjaldan skemmt mér eins vel í leikhúsi. Halla Vilhjálmsdóttir er líka algjör snilldarleikkona! Ótrúlega flink. Og leikmyndin var líka mjög flott, enda hönnuð af Móeiði frænku. ;)
Um helgina var ég í æfingabúðum í Skáholti. Þær standa alltaf fyrir sínu. :)
En jæja, meira seinna.

þriðjudagur, janúar 09, 2007

Nátthrafn

Ég er ekki atvinnulaus lengur. Ég var það nú svo sem ekki lengi svo sem. Þrír dagar eru samt alltaf þrír dagar. En allavega, ég er sem sagt formlega orðin blaðberi! Ég þarf að sækja blöðin út í Garðabæ kl. 01:30 á nóttinni og vera byrjuð að bera út kl. 02:00 og búin fyrir kl. 07:00 á morgnanna. Mér hefur ekki ennþá tekist að klára fyrir sjö en það kemur vonandi. Enda er ég bara búin að bera út í þrjár nætur. Þetta er samt ekkert smá magn af blöðum! 522 stykki! En þetta er alveg ágætlega borgað. 190.000 kr. á mánuði. Betra en á leikskólanum... Og þetta er bara á virkum nóttum! Þess vegna ákvað ég að prófa þetta, allavega í einn mánuð. Ekki verður það verra ef nokkur kíló fara í leiðinni... ;)