mánudagur, júlí 31, 2006

Hringferð um landið

Jæja, þá er sumarfríinu mínu lokið. Ég nennti svooo ekki að fara í vinnuna í morgun. En þar endaði ég nú samt. :(

En ég gerði nú alveg fullt í fríinu! :) Ég fór hringinn. Mjög gaman. Ég fór með ömmu, afa, mömmu og Þengli. (Ekki kisu-Þengli heldur frænda-Þengli...). Við byrjuðum á því að bruna á Klaustur þar sem við tjölduðum og grilluðum. Daginn eftir fórum við á jeppanum hans Þengils inn í Laka. Það var stórkostleg ferð. Mér leið að vísu eins og málningu í málninghristara á köflum en það var bara gaman. Það er mjög mikil náttúrufegurð þarna. Stórfurðulegt landslag. Minnir doldið á Veiðivötn, enda bæði svæðin hamfarasvæði. Þetta er víst stærsta gos á jörðinni á sögulegum tíma. Olli meðal annars móðuharðindunum; dauða 80 % fjár, 70 % hesta, 50 % kúa og 20 % landsmanna. Þvílík hraunbreiða! Hún liggur til allra átta eins langt og augað eygir! Við lentum að vísu í þoku þannig að útsýnið var ekki alveg nógu gott en við gátum nú samt talið þónokkra gíga. Svo skoðuðum við einn sem var áþekkur Ljótapolli. En það merkilegasta fannst mér samt að ég er afkomandi eldprestsins sem messaði á Klaustri þegar hraunið kom rennandi úr sitthvorri áttinni í átt að Klaustri. Og þar stoppaði hraunið, hvort sem það var fyrir tilstilla prestsins eða einhvers annars. :p Og það er hægt að sjá á landakorti hvernig hraunið kemur úr sitthvorri áttinni í átt að Klaustri. Mjög fróðlegt. Daginn eftir Laka fórum við svo á Egilsstaði og hittum Jón Garðar, Nínu, Helga og Pétur. Þau buðu okkur í mat og þar borðuðum við dýrindis læri. Svo fórum við að skoða Skriðuklaustur þar sem fornleifabækurnar fundust í mánuðinum. :) Það var líka mjög gaman. Við gátum skoðað ofan í opna gröfina og séð hauskúpu og allt! Spúúkí!! :p Svo var brunað á Mývatn og svo heim. Fínasta ferð! =)

Jæja, ætli þetta sé ekki komið gott. Ég er búin að vera meira og minna netlaust seinustu tvær vikurnar. Ég var vön að fara á netið í vinnunnu en svo fór ég í sumarfrí. Þá ætlaði ég að fara á netið heima en komst að því að það vantaði módem í nýju fínu tölvuna mína! Mín ætlaði sko að fara að rífa sig en þeir í Bt sögðu að það hefur ekki verið módem í borðtölvum í eitt og hálft ár, bara netkort fyrir ADSL. Það er ekki gert ráð fyrir að fólk sé með svona gamaldags innhringi netþjónustu... ;p

þriðjudagur, júlí 11, 2006

Ný tölva!!!! :)

Ég keypti mér tölvu í gær!!!!!! Ég er svo glöð!!!! :D Það var virkilega virkilega virkilega komin tími til að endurnýja hjá mér. Seinast keypti ég mér tölvu fyrir fermingarpeningana mína.... Fyrir 8 árum.... Uss suss! Þvílíkur munur á þessari nýju og gömlu fornaldarvélinni! Og ég er með flatskjá, þráðlausa mús, þráðlaust lyklaborð og ljósmyndaprentara!!! Himnaríki!!!! =)

mánudagur, júlí 03, 2006

Bikiní

Fyrir Barcelonaferðina ákvað ég að kaupa mér bikiní. Ég gat bara ekki hugsað mér að vera í sundbol á ströndinni! Svo langaði mig líka í smá lit á bumbuna. En jæja, mín fór á stjá og leitaði í helstu undirfatabúðum auk Hagkaupa og Debenhams. Og alls staðar mætti mér sama svarið! Þykkum konum er ekki ætlað að ganga í bikiní! Ég nota stærð 90 D en hvergi fann ég bikiníbrjóstarhaldara sem fór upp fyrir 85. Mér fannst þetta heldur súrt þar sem ég tel mig nú ekki vera neitt afburða feita þó að maður sé nú með eitthvað til að grípa í! En mér leið eins og hval innan um allar þessar horuðu 15 ára stelpur sem voru að afgreiða mig og litu á mig furðulostnar þegar ég bað um 90 D! Ég sá fyrir mér að ég yrði að láta mér sundbolinn duga og sætta mig við hvítan maga. En ákvað nú samt að gera seinustu tilraun og fór í Selenu. Ég fór þar inn heldur vonlítil og spurði um bikiníbrjóstarhaldara í 90 D. Afgreiðslukonan horfði á mig smá stund heldur furðuleg á svipinn. Jú, þau átti það til. Nú glaðnaði yfir minni og ég fór strax með djásnið inn í klefa til að máta. En viti menn, hann passaði engan veginn! Ég skyldi ekkert í þessu og fór að prófa mig áfram með hinar ýmsu stærðir en ekkert gekk. Það endaði með að afgreiðslukonan æddi inn í klefann hjá mér alls ófeimin og tilkynnti mér að ég væri sko bara alls ekkert í 90 D! Ég sagðist nú sko halda það enda allir brjóstarhaldararnir mínir í þeirri stærð. Hún þvertók fyrir það og kom með bikiníbrjóstarhaldara í stærð 75 E! Ég hélt að manneskjan væri að missa vitið! 75 er stærð fyrir 14 ára örþunnar og flatbrjósta stelpur, ekki fyrir 22 ára þrýstna og stórbrjósta konu! Ég myndi sko aldrei fylla upp í skálarnar eða geta hneppt honum að mér. En ég þorði ekki annað en að máta enda var afgreiðslukonan mjög ákveðin á svipinn. Augun ætluðu út úr höfðinu á mér þegar haldarinn passaði! 75 E! Það var þá! Stærri skálar og minna ummál!! Ég keypti settið með góðri samvisku og talsvert betra sjálfsálit. Enda var ég mjög glæsileg á ströndinni í Barcelona! :)