laugardagur, desember 30, 2006
Yngist með aldrinum...
Þegar ég var krakki og unglingur var ég mjög barnaleg í útliti og alltaf talin yngri en ég var. Ég var meira að segja einu sinni spurð um skilríki þar sem aldurstakmarkið var 16 ára, en ég var 18 ára. Þannig að þegar ég byrjaði að drekka hvarflaði það aldrei að mér að prófa að fara í ríkið og kaupa mér áfengi. En á afmælisdaginn minn þegar ég varð tvítug stormaði ég stolt inn í ríkið og keypti mér bjór, tilbúin að rétta fram ökuskírteinið mitt. En viti menn, ég var ekki spurð um skilríki! Ég varð ekkert smá svekkt. Kannski ég hefði getað farið í ríkið miklu fyrr! En allavega, þessi næstum þrjú ár sem ég hef haft aldur til að fara í ríkið hef ég bara tvisvar verið spurð um skilríki. Og það var seinustu tvö skipti. Og ég sem er að verða 23 ára gömul! Ég hlýt að yngjast með aldrinum eða eitthvað svoleiðis... Furðulegt. Það verður spennandi að sjá hvort ég verð spurð um skilríki næst eða ekki. :)
sunnudagur, desember 24, 2006
fimmtudagur, desember 21, 2006
Ótrúlega erfiður dagur :(
Það var eiginlega seinasti dagurinn minn á leikskólanum í dag. Tæknilega séð hætti ég um áramótin en ég er í fríi alveg fram til 29. des. Og þá eru bara tvö börn á deildinni minni og enginn annar starfsmaður en ég þannig að sá dagur telst ekki með. Ég mætti með fullt af nammi og jólakort. Mér er bara búið að líða vel yfir að vera að hætta seinustu daga. Gaman að komast í jólafrí og svona. En svo var eins og það rynni upp fyrir ljós, seinnipartinn í dag að ég er virkilega að fara að hætta þarna. Og ég fór að kveðja alla krakkana. Sumir komu meira að segja með kveðjugjöf handa mér! Sum er ég búin að vera með frá því að þau voru eins og hálfs árs, í næstum þrjú ár! Svo var starfsfólkið kvatt og ekki var það auðveldara. Þau færðu mér líka kveðjugjöf. Það var sérstaklega erfitt að kveðja Hörpu sem er búin að vera deildarstjórinn minn nánst frá upphafi. Hún er einhver skemmtilegasta manneskja sem ég hef unni með. Og við erum búnar að fylgja börnunum saman. Þannig að þegar ég labbaði út þá voru tárin farin að renna. Ég gerði mér enga grein fyrir að þetta væri svona erfitt! Kíkið á þessa slóð. Þá sjáið þið hvað börnin MÍN eru skemmtileg. Þetta er gullkorn alveg frá því að þau byrjuðu á leikskólanum og til dagsins í dag.
http://gamli.leikskolar.is/leikskolar/displayer.asp?cat_id=402&module_id=210&element_id=11394
En ekki var allt búið enn. Þegar ég var sest inn í bíl hringdi Miðlun í mig og sagði að það gæti farið svo að ég fengi ekki vinnuna!!! Sem gefur mér heila FJÓRA virka daga til að finna mér nýja vinnu svo að ég verði ekki atvinnulaus um áramótin! Þá brotnaði ég eiginlega alveg og hágrét. Það er nógur spenningur og stress fyrir jólin þó að þetta allt saman þurfi ekki að bætast ofan á! Það er ekki gaman að eyða jólunum með kvíðahnút í maganum um hvort að ég sé að verða atvinnulaus eða ekki. :(
http://gamli.leikskolar.is/leikskolar/displayer.asp?cat_id=402&module_id=210&element_id=11394
En ekki var allt búið enn. Þegar ég var sest inn í bíl hringdi Miðlun í mig og sagði að það gæti farið svo að ég fengi ekki vinnuna!!! Sem gefur mér heila FJÓRA virka daga til að finna mér nýja vinnu svo að ég verði ekki atvinnulaus um áramótin! Þá brotnaði ég eiginlega alveg og hágrét. Það er nógur spenningur og stress fyrir jólin þó að þetta allt saman þurfi ekki að bætast ofan á! Það er ekki gaman að eyða jólunum með kvíðahnút í maganum um hvort að ég sé að verða atvinnulaus eða ekki. :(
sunnudagur, desember 17, 2006
Léleg þjónusta
Ég var í Kringlunni um daginn í mesta sakleysi. Og þá fór mig að svengja örlítið og ákvað að kíkja á bústbarinn og fá mér ávaxtabakka eins og svo oft áður. Ég labbaði rólega að miðastandinum til að ná mér í númer. Ég rétti fram höndina og er komin með puttana sitthvoru megin við miðann og var að fara að taka hann þegar kona ryðst fram fyrir mig og nánast slær á hendina á mér og rífur miðann af mér! Ég varð svo hissa á svona framferði hjá fullorðinni konu að ég missti algjörlega andlitið og starði bara á hana. Og hún keyrði nefið upp í loft og leit undan. Úff. Og hún var með stelpu með sér, kannski svona sex til átta ára gamla. Skemmtilegir siðir sem hún lærir, greyið. En jæja, ég, kurteisin uppmáluð að sjálfsögðu, tók bara næsta miða. Svo koma röðin að mér og ég labba að barnum og bið afgreiðslustúlkuna um ávaxtabakka. Stúlkan snýr sér að næstu afgreiðslustúlku og spyr hvort að þau afgreiði ennþá ávaxtabakka. Sú stúlka segir: "Já, já, það er ekkert mál.", og ríkur svo af stað að afgreiða næsta. Þá snýr afgreiðslustúlkan mín sér aftur að mér og segir: "Við erum hætt að afgreiða ávaxtabakka." Og ég missti aftur andlitið á fimm mínútum. Hún hlaut að gera sér grein fyrir að ég hafði heyrt allt sem hin afgreiðslustúlkan sagði. En svo virtist ekki vera. Hún allavega vísaði mér samviskulaust í burtu og afgreiddi næsta. Furðulegt.
Tónleikar Skálholtskórsins
Í gær fór ég á tónleika með Skálholtskórnum, sem hún Kiddý frænka syngur í. Við amma skelltum okkur saman og skemmtum okkur alveg konunglega. :) Við grétum báðar yfir Ó, helga nótt. Enda syngur Diddú svoooo fallega. Hún er á heimsmælikvarða. :) Svo brunaði ég í bæinn og beint út að borða á Caruso með leikskólanum mínum. Það var æðislegt líka. Við fengum lax í forrétt, lamb í aðalrétt og svo fljótandi súkkulaðiköku í eftirrétt. :) Algjört lostæti.
föstudagur, desember 15, 2006
Hallelúja!
Ég var að koma heim af tónleikum Vox academica, hinum kórnum hans Tuma. Og ég er endurnærð á sál og líkama. :) Það er alltaf svo hressandi að fara á flotta tónleika. Þau fluttu fyrsta þáttinn í Messíasi og svo Hallelúja-kórinn úr öðrum þætti eftir Händel. Svo eftir hlé var Magnificat eftir Bach. Mér fannst Messías flottari en Magnificat, en ekkert toppaði Hallelúja-kórinn! Það eitt af flottustu verkum í heimi! :) Og það var bara mjög vel gert hjá kórnum og flottur hljómur. Sópransöngkonan sem var með þeim, Hallveig Rúnarsdóttir, var líka algjört æði! Hún söng í fyrsta lagi alveg rosalega fallega og svo túlkaði hún líka mjög vel. Mér fannst hún allan tímann vera að syngja sérstaklega fyrir mig. Og mömmu fannst það líka. Og það kalla ég góða túlkun! Mér fannst hún líka gefa mér hluta af sjálfri sér með söngnum og ég hefði nánst getað labbað upp að henni og heilsað eins og gamalli vinkonu, svo vel fannst mér ég þekkja hana á eftir tónleikana! :)
Kórstjórnandi
Jæja, þar kom að því! Míns bara orðin kórstjórnandi! :) Sólarkotskórinn undir stjórn Siggu Rósu. Hljómar vel. :) Og við erum búin að halda fyrstu tónleikana okkar við rífandi undirtektir. Ég á að vísu eftir að kenna þeim að horfa á stjórnandann, vera samtaka og syngja í sömu tóntegund en það kemur... ;) Þið getið hlustað á tvö lög sem kórinn flytur á þessum link:
http://gamli.leikskolar.is/leikskolar/displayer.asp?cat_id=402
Ef þið farið aðeins niður þá sjáið þið skrifað með rauðum stórum stöfum Jólatónleikar. Og þar er svo hægt að smella á (sjá meira) og líka (og meira) og þá koma upp upptökur af tónleikunum okkar. :)
http://gamli.leikskolar.is/leikskolar/displayer.asp?cat_id=402
Ef þið farið aðeins niður þá sjáið þið skrifað með rauðum stórum stöfum Jólatónleikar. Og þar er svo hægt að smella á (sjá meira) og líka (og meira) og þá koma upp upptökur af tónleikunum okkar. :)
fimmtudagur, desember 14, 2006
Jólatónleikar Söngskólans
Ég var að skríða heim af jólatónleikum Söngskólans. Og þetta voru snilldar tónleikar. Það er alltaf gaman að fara á svona léttari tónleika. Krakkarnir sungu ágætlega og það var mikið gantast og hlegið. Og ekki spillti það fyrir að þetta var allt samsöngur. Og ég þekkti nánast alla sem sungu. :) Þannig að, niðurstaðan er velheppnað kvöld.
miðvikudagur, desember 13, 2006
Jólagleði
Í skólanum mínum eru söngdeildir fyrir hvert stig. Þær eru hugsaðar sem æfing í að syngja fyrir framan fólk. Þegar ég var í grunnnámi þá söng ég í grunndeild. Það var erfiðast í fyrsta skiptið en svo söng ég í hvert skipti eftir það. Árið eftir, í miðdeildinni breyttist deildin svolítið. Þá fengum við allskonar hjálpartæki (t.d. bolta, sippibönd og tennisspaða svo eitthvað sé nefnt) til að hjálpa okkur við að túlka og syngja. Þá var líka erfitt að syngja í fyrstu skiptin en það var samt fjótt að koma. Á þessu ári hef ég verið í ljóða- og aríudeild sem er fyrir framhalds- og háskólanemendur. Og hafði aldrei sungið þar (vegna veikinda og kirtlatöku) fyrr en í gær. Og ég var búin að kvíða fyrir því frá því fyrir helgi. En ég lét mig hafa það og söng einfalt jólalag. Og mér fannst það hræðilega illa sungið þar sem ég er að drepast úr kvefi og röddin mín vildi bara ekki hlýða! Þannig að, til að breiða yfir lélega söngtækni og mjög mjóróma söng, reyndi ég bara að brosa sem mest og taka létt á þessu. Garðar Cortes var að hlusta og ég vonaði bara að hann ræki mig ekki út fyrir lélegan söng. En það gerðist sko aldeilis ekki! Hann horfði á mig smá stund og sagði svo: "Mikið ofboðslega var þetta fallegt. Ég fékk alveg svona..." (setti hönd á hjartastað). "Takk fyrir að búa til jól fyrir mig." Svo sagði hann að þetta væri túlkunin sem hann væri alltaf að biðja "stóru krakkana" (þau sem eru komin lengra en ég) um að gera. Og að gleðin hefði skinið af mér. Eins og gefur að skilja var ég algjörlega í skýjunum á eftir! :D Ekki amalegt að fá svona hrós frá föður óperunnar á Íslandi. ;)
miðvikudagur, desember 06, 2006
Jól jól jól jól...
Jæja, hvernig væri nú að jólabarnið sjálft setti jólagjafalistann sinn á netið?? :p
- Silfur í upphlutinn minn verðandi... :p Ég er komin með eina doppu í beltið. :) En ég á eftir að finna út hjá hvaða gullsmiði silfrið sem ég er að safna fæst.
- Mig hefur alltaf langað til að eignast seinustu tvær myndirnar af Lord of the Rings í svona sérstakri útgáfu, svona margir diskar saman. En ég á bara númer eitt.
- Það sama er upp á teningnum með Harry Potter myndirnar. Ég á fyrstu tvær myndirnar en vantar næstu tvær. Ég á allar bækurnar og væri alveg til í að eiga allar myndirnar. ;)
- Ég er jólabarn dauðans og á BARA fjögur pör af jólasokkum! Það dugar engan veginn og mig vantar sárlega fleiri.
- Catan er líka eitthvað sem ég ætla mér að eignast. Eitt skemmtilegasta spil sem ég hef prófað.
- Garfield bækurnar. Ég á bara eina en mig langar í allar. ;) Ég get ekki sofnað á kvöldin án þess að glugga aðeins í hann Garfield vin minn. (Hann er í svo miklu uppáhaldi hjá mér að Kisi er búinn að fá aukanafnið Garfield, og heitir því Þengill Hnoðri Garfield SigguRósuson, kallaður Kisi...)
- Snyrtidót er líka alltaf vel þegið. Og þá er Origins í sérstöku uppáhaldi en annars er ég opin fyrir öllu. :)
- Eragon og Öldungurinn. Ég er búin að lesa Eragon. Snilldarbók. Og mig bráðlangar að komast í næstu sem fyrst.
- Singstar Legends er líka ofarlega á lista.
- Svo hef ég líka alltaf verið hrifin af Lush snyrtivörunum.
- Pirates of the Caribean, Dead Men´s Chest. Ég á mynd númer eitt og langar ferlega í mynd númer tvö.
- Artemis Fowl, nýjustu bókina. Á allar hinar og langar í þessa nýju líka.
- Náttbuxur. Svona síðar, mjúkar og þæginlegar náttbuxur.
- Spilið Partý og co. Það er geðveikt skemmtilegt.
- Bíómyndin Garfield 2, a tail of two kitties. Eins og ég sagði, ég elska Garfield.
- Ég er ennþá að drepast í hálsinum eftir þessa bölvuðu aftanákeyrslu. Þannig að heilsukoddi væri vel þeginn.
Ég man ekki meira í augnablikinu, en ég bæti við ef ég man eftir einhverju sérstöku. :) Annars er líka alltaf gaman að láta koma sér á óvart. :) Og þá er hægt að hafa í huga að ég elska kisur (enda ekki annað hægt með aðal krúttið í geiranum á heimilinu), ég er að læra söng og ég elska glimmer... Skemmtileg samsetning. ;)
þriðjudagur, desember 05, 2006
Auglýsingar og aftur auglýsingar...
Ég var, í mesta sakleysi, að horfa á X-factor seinasta föstudag. Á stöð 2, sem ég borga offjár fyrir í hverjum mánuði. Og þau ætluðu aldrei að komast í gegnum þáttinn fyrir auglýsingum! Ekki misskilja mig, auglýsingar á MILLI þátta er fínt. Pissupása fyrir litlar blöðrur... En á 5 mín. fresti endalausar auglýsingar og aftur auglýsingar! Ég er sko ekkert að borga fyrir að horfa á auglýsingar, heldur X-factor! Þetta er ekki einu sinni hentugt fyrir mjög blöðru litla því það getur enginn verið með svona litla blöðru!
laugardagur, desember 02, 2006
Furðuleg atvik
Ég lenti í furðulegu atviku um daginn í Kringlunni fyrir utan Byggt og búið. Ég var að skoða lyklakippur sem voru fyrir utan búðina og settist á hækjur mér. Svo var ég allt í einu var við það að standurinn með kippunum var að færast í burtu frá mér! Ég leit upp og horfði beint í augun á afgreiðslustúlkunni sem algjörlega samviskulaust dró standinn frá mér og inn í búðina! Og ég sat eftir eins og auli á hækjum mér að skoða ekki neitt! Aldrei lent í verri þjónustu, held ég. Ég ætla allavega ekki að kaupa svona lyklakippu, þó að þær séu voða sætar. :)
Annað sem ég lenti í um daginn. Ég festist upp á hraðahindrun. Aftur! Í fyrra skiptir var ég á lansernum gamla og hann bara einfaldlega dreif ekki upp á hraðahindrunina. En núna um daginn var ég á fína litla sæta pólónum mínum. En ég komst samt ekki upp á hraðahindrunina! Í þetta sinnið var það hálka. Litli sæti limegræni bílinn minn spólaði bara með framhjólin upp á. Og ég þurfti að láta hann renna aftur á bak og taka tilhlaup. Og nota bene, þetta er sama hraðahindrunin sem lanserinn gamli festist upp á! Þannig að, ef þið eigið lélegan bíl eða það er hálka þá skuluð þið forðast hraðahindrunina efst á Hraunsási ef þið viljið ekki festast þar...
Annað sem ég lenti í um daginn. Ég festist upp á hraðahindrun. Aftur! Í fyrra skiptir var ég á lansernum gamla og hann bara einfaldlega dreif ekki upp á hraðahindrunina. En núna um daginn var ég á fína litla sæta pólónum mínum. En ég komst samt ekki upp á hraðahindrunina! Í þetta sinnið var það hálka. Litli sæti limegræni bílinn minn spólaði bara með framhjólin upp á. Og ég þurfti að láta hann renna aftur á bak og taka tilhlaup. Og nota bene, þetta er sama hraðahindrunin sem lanserinn gamli festist upp á! Þannig að, ef þið eigið lélegan bíl eða það er hálka þá skuluð þið forðast hraðahindrunina efst á Hraunsási ef þið viljið ekki festast þar...
Handþvottur
Ég fór á Nings um daginn sem er í sjálfu sér ekki frásögu færandi nema fyrir það að ég fór á klósettið. Sem er í sjálfu sér ekki frásögu færandi heldur nema fyrir það að þegar ég þvoði mér um hendurnar fannst mér það óvenju þæginlegt. Ég var eitthvað svo slök í öxlunum og allt svo passlegt eitthvað. Þá uppgötvaði ég að vaskurinn var óvenju langt niðri miðað við aðra vaska. Og þar af leiðandi passaði hann mér miklu betur við mína hæð. :) Venjuleg vaskahæð hentar mér engan veginn því þá þarf ég að lyfta öxlunum upp að eyrum sem skapar meiri vöðvabólgu og vanlíðan. Mér finnst að vaskar ættu að vera stillanlegir fyrir hátt og smátt fólk... Því auðvitað er ekki gott heldur að þurfa að beygja sig niður. Þegar ég verð stór ætla ég að finna upp stillanlega vaska... :p
Gerast áskrifandi að:
Færslur (Atom)