sunnudagur, desember 21, 2008

Grikkland

Það er allt of langt síðan ég bloggaði seinast. :þ Það hefur ýmislegt gerst síðan í ferðinni minni til Thessaloníkí. Fyrir það fyrsta þá fór Gaia heim til Ítalíu 30. nóvember. Og ég verð að segja að húsið er hálf tómlegt án hennar. Hún er ótrúlega sterkur karakter og hún setti svip sinn á húsið. En ég ætla mér að heimsækja hana einhvern tíma til Ítalíu, en það verður samt aldrei eins.


We miss you Gaia!

Í öðru lagi þá er ég komin með aukavinnu á hóteli í litlu fjallaþorpi í ca. 30 mín. fjarlægð. :) Fyrsta vinnuhelgin mín var um seinustu helgi. Ég var aðalega að þrífa herbergi og vaska upp. Ég er að vinna með einni grískri konu, einni búlgarskri og tveimur albanískum. :þ Fjölþjóðlegt vinnuumhverfi, sem væri allt í lagi ef einhver myndi tala ensku eða grísku! Búlgarska konan og önnur albaníska stelpan tala bara smá grísku en hin albaníska konan talar enga grísku!! Og enginn þeirra talar ensku. Þannig að samskiptin fara aðalega fram með handapati og sýnikennslu en það virkar. ;) Kaupið er frekar lélegt en það er víst eðlilegt hérna, 25 evrur á dag fyrir 8 - 9 tíma vinnu... :þ En í staðinn er ég með fría gistingu og frían mat. :) Á þessu hóteli eru aðalega grískir ferðamenn sem koma yfir jól og áramót því að á veturna er oft snjór í fjöllunum. Því miður er enginn snjór núna en það kemur kannski. :þ En já, þar sem það er eiginlega high-season hjá þeim yfir jól og áramót samþykkti ég að vinna frá 24 desember til 6 janúar, bæði yfir jól og áramót. Og ég verð að segja mér finnst það bara allt í lagi. :þ Ég er búin að vera með sama fólkinu nánast upp á hvern einasta dag í rúma 3 mánuði og það verður bara ágætt að fá smá frí, vera smá útaf fyrir mig. :þ Og þetta er svaka flott hótel með frábæru útsýni. :)

Í þriðja lagi upplifði ég stærsta þrumuveður sem ég hef á ævinni upplifað! (Hmmm... Þessi setning hljómar furðulega...) :þ Ég hef aldrei séð svona margar eldingar og svona mikla rigningu! Húsið skalf (í alvöru talað, rúmið mitt hristist og gluggarnar skulfu...) í verstu þrumunum. Og eldingarnar komu svo ört! Stundum 3 í einu og svo liðu kannski 5 sek. og þá kom næsta og svo koll af kolli. Ein þruman var svo nálægt húsinu að það var eins og einhver hefði skotið af fallbyssu inni í herberginu mínu. :þ Frekar óhugnalegt en samt pínu gaman, svona eftir á. ;)

Og í fjórða lagi hefur Grikkland verið logandi í óeirðum upp á síðkastið. Hér í Xylokastro erum við nokkuð örugg en okkur er ráðlagt að fara alls ekki til Aþenu eða Patra og helst ekkert út fyrir bæinn. :þ En ég held samt að þetta sé að róast núna. Það fyndnasta er samt að stelpurnar eru mest svekktar yfir því að báðar H&M búðirnar í Aþenu voru brenndar þannig að það verður engin jólaútsala þar. xD


Og í fimmta lagi hef ég verið veik seinustu vikuna, með snert af lungnabólgu. :( Ekkert sérstaklega gaman en ég held samt að ég sé að koma til. :)

sunnudagur, nóvember 09, 2008

Ferðalag og halloween party!

Ég er svo að segja nýkomin heim úr viku ferðalagi um Grikkland. :) Það var mjög gaman. Ég fór með Lauru (frá Þýskalandi). Okkur var boðið í sjálfboðaliðapartý til Volos, sem er á austurströnd mið-Grikklands. Við ætluðum að fara snemma á föstudagsmorgninum 31 október en svo fréttum við að planið væri að hafa Halloween partý um kvöldið í húsinu okkar þannig að við frestuðum ferðinni um einn dag. :þ Hérna eru nokkrar myndir frá partýinu.

Ég var norn. :)

Gaia var Amy Whinehouse.

Simon var kona. :þ

Elli var Helena frá Tróju.

Og Laura var bitch. :þ

Við þurftum svo að vakna kl. 04:00 til að ná lestinni til Aþenu þannig að það tók því ekki að fara að sofa og við fórum beint úr partýinu í lestina. :þ Og við vorum hálf skrautlegar verð ég að segja, þó að við höfðum þvegið af okkur málninguna. ;) En það var bara gaman. :þ

Ég frekar þreytt í lestinni á leið til Larissa. Fyrstu þrjá tímana þurftum við að sitja á gólfinu. Ekkert sérstaklega þæginlegt.

En þessum degi eyddum við eiginlega bara í lestum. Fyrst 2 tímar frá Xylokastro til Aþenu, svo 5 tímar frá Aþenu til Larissa og svo 1 tími frá Larissa til Volos. Þegar við komum til Volos byrjaði svo næsta partý. :þ Þannig að þegar ég fór að sofa aðfaranótt sunnudags var ég búin að vera vakandi frá því á föstudagsmorgun. :þ Ég held að ég hafi aldrei farið í svona mörg partý áður á bara 2 mánuðum. Það er nánast partý um hverja helgi í íbúðinni okkar. Og þar sem við erum svo mörg þurfum við ekki einu sinni að bjóða fólki til að halda partý, við getum bara búið til partý sjálf. :þ Mjög hentugt. Það er ótrúlega gaman að búa með svona mörgum. Alltaf nóg um að vera. :) En já, á sunnudaginn gerðum við ekki neitt þar sem við vorum uppteknar við að vera þunnar. :þ En á mánudeginum fórum við til Meteora, sem er á miðju mið-Grikklandi. Og það var algjörlega stórkostlegt! Myndirnar ná engan veginn tilfinningunni að vera þarna en ég set samt nokkrar inn. :þ

Megalo Meteora (stóra Meteora). Þetta er stærsta og elsta klaustrið þarna, frá ca. 1450, byggt á hæsta klettinum (næstum 500 metra hár!!).
Útsýnið frá Megalo Meteora yfir til næsta klausturs.

Þetta fundum við inn í klaustrinu.... Þarna enda sem sagt munkarnir... :þ

Útsýnið yfir Kalabaka, lítið þorp fyrir neðan Meteora.

Tilfinningin að vera þarna uppi var stórkostleg. Við vorum þarna mjög snemma um morguninn þannig að túristarnir voru ekki komnir ennþá. Og kyrrðin var algjörlega himnesk. :) Það var hægt að finna heilagleikan í þessu öllu saman. En svo tveimur tímum seinna komu rúturnar í tugatali með fuuuullt af ferðamönnum og það spillti kyrrðinni. En já, Meteora var algjörlega toppurinn á ferðinni. :) Frá Meteora fórum við svo til Thessaloníki, sem er næst stærsta borg Grikklands (á eftir Aþenu auðvitað :þ ). Það er gaman að hafa komið þangað en ég verð að viðurkenna að Thessaloníki er ekkert sérstaklega spes borg. :þ Ég held að ég fari ekki þangað aftur. Enda tekur það mig 9 tíma setu í lest að komast þangað frá Xylokastro... Frekar langt. Við gistum þrjár nætur hjá tveimur stelpum sem við hittum á ráðstefnunni í Aþenu.

Hvíti turninn, kennimerki Thessaloníki. Inn í turninum er safn og útsýnið frá toppnum er mjög fallegt.

Ég fann þetta á ískápnum í íbúðinni hjá stelpunum! :D Ég var ekkert smá hissa! Þessi segull var þarna þegar þær komu í íbúðina þannig að það hefur greinilega einhver frá Íslandi verið þarna. ;)
Aðfaranótt föstudags tókum við svo næturlestina heim til Xylokastro.

þriðjudagur, október 21, 2008

Íslenska kvöldið!

Á sunnudaginn hélt ég íslenskt kvöld fyrir sambýlisfólkið mitt. :) Og það tókst bara ágætlega! :D Ég eldaði kjötsúpu með íslenskum súpujurtum og það tókst bara vel, sérstaklega ef það er haft í huga að ég var að elda kjötsúpu í fyrsta skipti... :þ Hún bragðast ekki alveg eins vel og hjá pabba eða mömmu en samt, það var íslenskt bragð af henni og það var nóg. :) Síðan bauð ég þeim að smakka harðfisk í eftirmat og þá varð uppi fótur og fit! xD En þau fengust samt öll til að smakka og þá fannst þeim hann ekkert svo voðalega slæmur. ;) En svona til að bæta fyrir harðfiskinn bauð ég líka upp á síríus rjómasúkkulaði og það sló að sjálfsögðu í gegn. :) Síðan kenndi ég þeim „Sá ég spóa“ og við sungum það í keðjusöng. Í lokinn horfðum við svo á Mýrina. Og þegar þau sáu aðalpersónuna borða svið fannst þeim harðfiskurinn bara ágætur!! xD Hérna eru nokkrar myndir.
Ég að elda.
Súpan komin á borðið. :)
Gaia og Harriina. Þær klæddu sig upp í fánalitunum í tilefni dagsins. :)
Brugðið á leik með fánann. :) Laura og Harrina.
Laura að smakka harðfisk. :þ

Og svona skreytti ég stofnuna, með póstkortum frá Íslandi. :)Sem sagt, vel heppnað og skemmtilegt kvöld. :) Bestu kveðjur frá Grikklandi!!

Aþena

Jæja, ég er sem sagt komin heim frá Aþenu. Ég get ekki sagt að ég hafi séð mikið af borginni því ég var nánast á hótelinu allan tímann því við byrjuðum kl. 9:30 og unnum langt fram á kvöld. Það var doldið strembið en samt ótrúlega gaman. Hérna koma nokkrar myndir.

Þessa byggingu fundum við þegar við vorum að leita að McDonalds. :þ Ég hef ekki hugmynd um hvað þetta er en byggingin er flott enga síður.
Þessa gaura fundum við líka í þegar við vorum á leið á McDonalds. Þeir standa þarna í einn klukkutíma í senn og svo eru vaktaskipti. Og í hvert skipti er alveg svaka athöfn, lítur næstum út eins og dans. :þ

Þetta var á klósettinu okkar á hótelberberginu...

Þetta var útsýnið af þaki hótelsins.

Akrapólis að nóttu til. :)

Á föstudeginum fórum við svo á aðal safnið í Aþenu. Það er stórt og hefði þurft allavega heilan dag til að skoða en við fengum bara 3 klukkutíma þannig að aumingja leiðsögumaðurinn þurfti nánast að hlaupa með okkur í gegnum safnið. :þ Hérna koma nokkrar myndir frá safninu
Þetta eru „bara“ 9000 ára gamlir hlutir!!
Líkgríma úr gulli Fleigrúnir - Fyrsta ritmálið!!


Tvær bronsstyttur. Hvernig er hægt að búa til svona nákvæmar styttur?? Þú getur séð æðarnar og rifbeinin á hestinum!

Eins þessi stytta. Það er eins og hann sé lifandi!

laugardagur, október 04, 2008

Aþena!

Ég er á leið til Aþenu á mánudaginn ásamt öllum öðrum sjálfboðaliðum á Grikklandi sem eru nýkomnir eins og ég. :D Við verðum 60 manns saman á ráðstefnu í heila viku. Við gistum á fjögurra stjörnu hóteli (ókeypis), fáum frían mat í öll mál (hlaðborð!) og fáum fylgdarmann um Aþenu að skoða bæði Akrapólis og söfn! Ég er farin að hlakka geðveikt til. :) Þetta verður örugglega svaka fjör. Ég set örugglega inn fullt af myndum þegar ég kem aftur. :D Aþena hér kem ég!

sunnudagur, september 28, 2008

Fleiri myndir

Ég ákvað að setja inn svolítið fleiri myndir. :)


Þetta er rétturinn sem ég bjó til í fyrsta eldamennskutímanum. Hann heitir Dakos og er frá Krít. Það er afskaplega einfallt að búa hann til og hann er ótrúlega bragðgóður. :) Það eina sem þú þarft er (mjööög) hart brauð, rifnir tómatar, rifinn fetaostur, olía og oregano, í þessari röð og þú ert kominn með Dakos. :)

Þetta er í vinnunni minni. Þessi tvo er systkini, Ðímetra (8 ára) og Alexandros (7 ára). Og þau tóku sig til og bjuggu til íslenska fánann og gríska fánann og gáfu mér þá! :D Og þau föndruðu þetta heima hjá sér og komu svo með þetta í miðstöðina daginn eftir. :) Ótrúlega sætt af þeim.


Þetta eru Ellí (frá Austurríki) og Harriina (frá Finnlandi). Mér finnst þessi mynd bara svo flott þannig að ég bara varð að hafa hana með líka. ;)

Okkur leiddist í gær og ákvaðum því að búa okkur til andlitsmaska úr jógúrti og hunangi. :þ


Og þetta er Agnes (frá Austurríki). Þessi sem er að setja maskann á hana er Theothora (frá Þýskalandi en mamma hennar er grísk þannig að hún er sú eina í íbúðinni sem talar almennilega grísku) :þ

Patra

Um seinustu helgi fórum við til Patra sem er ca. 200 km til vesturs. Við tókum lest þangað þannig að það tók okkur ekki nema tæpa tvo tíma að komast þangað. Patra er þriðja stærsta borg Grikklands (stærsta borgin á Peloponnese skaganum). En þrátt fyrir það fannst mér hún virka frekar lítil. En við fundum samt nokkra áhugaverða staði til að skoða.

Fyrst fundum við lítið leikhús í gamaldags grískum stíl (þó að það sé upphaflega byggt af rómverjum). Það var flott en hljómurinn var ekki eins og ég hafði búist við samt. Ég prófaði að standa í miðjunni og syngja eitt lag en Agnes og Simon (sem voru með mér) heyrðu voðalega lítið í mér. Ég hlakka til að sjá stóra gamla gríska leikhúsið þar sem hljómburðurinn á að vera algjörlega stórkostlegur. :)

Eitt var samt sérstaklega merkilegt við þetta leikhús var að það var ennþá í notkun! Það er ennþá verið að setja upp leikrit þarna. :) Mig langar einhvern tíma að fara á þannig leiksýningu. :þ

Næst fundum við virki í miðri borginni. Ekki eins flott og virkið sem ég skoðaði seinast upp á fjallinu en allt í lagi samt. :)

Útsýnið var líka flott þaðan.
Við fundum líka þessa styttu á litlu torgi þar sem við stoppuðum til að reyna að finna út hvar við værum. Og ein dúfan hafði fundið þennan líka fína svefnstað á hausnum á styttunni! xD

Næst fundum við stórkostlega kirkju!
Kirkjan var líka rosalega falleg að innan, allt í gulli og skreytingum. Og allir sem komu þarna inn kysstu allt! Allar myndirnar, styttur, allt saman. Ótrúlega furðulegt. Allt var útatað í kossaförum! :þAllt virkaði voðalega heilagt. Fyrir utan að það var allt fullt af dúfum þarna inni! Kannski dúfur séu heilagar hérna eins og kýr á Indlandi...
Næst borðuðum við á þessu kaffihúsi. (Já, vitinn er kaffihús!) Það á að vera fallegasta kaffihúsið í Patra. Kaffihúsið sjálft var í sjálfu sér ekkert spes en útsýnið var mjög flott yfir sjóinn.