mánudagur, júlí 03, 2006

Bikiní

Fyrir Barcelonaferðina ákvað ég að kaupa mér bikiní. Ég gat bara ekki hugsað mér að vera í sundbol á ströndinni! Svo langaði mig líka í smá lit á bumbuna. En jæja, mín fór á stjá og leitaði í helstu undirfatabúðum auk Hagkaupa og Debenhams. Og alls staðar mætti mér sama svarið! Þykkum konum er ekki ætlað að ganga í bikiní! Ég nota stærð 90 D en hvergi fann ég bikiníbrjóstarhaldara sem fór upp fyrir 85. Mér fannst þetta heldur súrt þar sem ég tel mig nú ekki vera neitt afburða feita þó að maður sé nú með eitthvað til að grípa í! En mér leið eins og hval innan um allar þessar horuðu 15 ára stelpur sem voru að afgreiða mig og litu á mig furðulostnar þegar ég bað um 90 D! Ég sá fyrir mér að ég yrði að láta mér sundbolinn duga og sætta mig við hvítan maga. En ákvað nú samt að gera seinustu tilraun og fór í Selenu. Ég fór þar inn heldur vonlítil og spurði um bikiníbrjóstarhaldara í 90 D. Afgreiðslukonan horfði á mig smá stund heldur furðuleg á svipinn. Jú, þau átti það til. Nú glaðnaði yfir minni og ég fór strax með djásnið inn í klefa til að máta. En viti menn, hann passaði engan veginn! Ég skyldi ekkert í þessu og fór að prófa mig áfram með hinar ýmsu stærðir en ekkert gekk. Það endaði með að afgreiðslukonan æddi inn í klefann hjá mér alls ófeimin og tilkynnti mér að ég væri sko bara alls ekkert í 90 D! Ég sagðist nú sko halda það enda allir brjóstarhaldararnir mínir í þeirri stærð. Hún þvertók fyrir það og kom með bikiníbrjóstarhaldara í stærð 75 E! Ég hélt að manneskjan væri að missa vitið! 75 er stærð fyrir 14 ára örþunnar og flatbrjósta stelpur, ekki fyrir 22 ára þrýstna og stórbrjósta konu! Ég myndi sko aldrei fylla upp í skálarnar eða geta hneppt honum að mér. En ég þorði ekki annað en að máta enda var afgreiðslukonan mjög ákveðin á svipinn. Augun ætluðu út úr höfðinu á mér þegar haldarinn passaði! 75 E! Það var þá! Stærri skálar og minna ummál!! Ég keypti settið með góðri samvisku og talsvert betra sjálfsálit. Enda var ég mjög glæsileg á ströndinni í Barcelona! :)

Engin ummæli: