miðvikudagur, maí 30, 2007

Börn

Ég hef afskaplega gaman af því að styrkja. Og ég vildi að ég hefði meira af peningum milli handanna til að styrkja góð málefni. En lang skemmtilegast finnst mér að styrkja börn. Eins og er styrki ég 3 börn. Eina stelpu frá El Salvador sem er 10 ára núna. Ég byrjaði að styrkja hana þegar hún var 8 ára. Ég hef sent henni litlar gafir og jólakort og hef fengið eitt kort frá henni sem var mjög gaman. Svo hef ég líka fengið tvær myndir af henni og eina mynd af allri fjölskyldunni hennar. Svo fæ ég líka reglulega upplýsingar um hana; hvað henni finnst gaman og hvernig henni gengur í skólanum. Og mér fannst þetta svo skemmtilegt að ég ákvað að bæta við öðru barni og svo enn öðru. Á föstudaginn fyrir Eurovision fékk ég svo senda mynd og upplýsingar um barn nr. 2. Það reyndist vera 15 ára stelpa frá Bosníu. Á laugardeginum horfði ég svo á Eurovision þar sem Bosnía keppti með stæl. Og ég gat ekki annað en velt fyrir öfgunum í þessu. Núna var ég að styrkja munaðarlaust barn í Bosníu sem ríkið sjálft hafði ekki efni á að halda uppi og varð fá utanaðkomandi hjálp, en samt borguðu þau fyrir undir söngkonu til að taka þátt í Eurovision... Ekki það að ég sjái eftir peningum sem fer í barnið enda ekki stór upphæð; aðeins 2300 kr. á mánuði. En ef litlar 2300 kr. á mánuði halda upp einu barni (matur, læknishjálp, skóli, heimili) hversu mörgum börnum gætu krónurnar sem fóru í söngkonuna haldið uppi...? Ekki það að það að taka þátt í Eurovision er sjálfsagt gott fyrir sjálfstraust þjóða, en samt... Þetta er pæling. En annars er ég ekki enn búin að fá mynd af þriðja barninu en ég veit að það er 7 ára strákur frá Indlandi. :) Ég mæli með þessu. Þetta er ótrúlega gefandi og skemmtilegt.

föstudagur, maí 25, 2007

Sprautur í hálsinn!

Ég fór til háls-, nef- og eyralæknis í gær þar sem ég er alltaf með einhvern kverkaskít. Ég settist grunlaus í stólinn og hann kíkti í hálsinn og spurði mig svo um einkenni. Ég svaraði að sjálfsögðu samviskusamlega; sárir stingir, þröngur háls, leiðir út í eyru, eins og að kyngja sandpappír. Þá þreyfaði hann sitthvoru megin á hálsinum á mér og tilkynnti mér að ég væri með harðsperrur í tungurótarvöðvunum eftir hálskirtlatökuna. Mér fannst það nú frekar skrítið þar sem ég fór í kirtlatökuna í haust. Geta harðsperrur endst svo lengi? Hann sagði að það gæti alveg verið og væri meira að segja bara frekar líklegt. Svo sagðist hann ætla að deyfa vöðvana og dró fram sprautu. Mér var nú ekki farið að lítast á blikuna. Ætlaði hann virkilega að sprauta í hálsinn á mér?? Það reyndist raunin og ég fékk eina sprautu sitthvoru megin. Þegar hann var búinn andaði ég léttar. Þetta var nú ekkert svo slæmt! En svo fór deyfingin að virka. Allur hálsinn dofnaði og það varð erfitt að kyngja. Svo dofnaði neðri vörun þannig að hún seig niður öðru megin. Mjög gaman. Ég labbaði út frekar þvoglumælt og lítandi út eins og hálfviti... Svo mætti ég í vinnuna og átti að fara að gera skoðanakönnun! Þið getið ímyndað ykkur hvernig það gekk... En það merkilega við þetta allt saman er að ég held bara að þetta hafi virkað! Ég var á kóræfingu frá kl. 17 og söng svo á tónleikum strax á eftir. Vanalega hefði ég verið orðin mjög þreytt í röddinni og frekar rám. En ég var bara í góðu standi! Ekkert rám eða neitt! Það væri æðislegt ef ég gæti loksins losnað við þennan fjandans kverkaskít í eitt skipti fyrir öll! Núna á ég bara eftir að fara í nokkur sprautuskipti í viðbót og vonandi verð ég þá orðin góð! :D JIBBÍ!!!

þriðjudagur, maí 22, 2007

Fréttablaðið

Núna erum við mamma búnar að búa á sama stað í 2,5 ár. Og alltaf höfum við fengið fréttablaðið heim að dyrum, í hvaða veðri sem er og þrátt fyrir ómokaða stiga. Alveg þangað til upp á síðkastið. Þegar ég var ekki búin að fá fréttablaðið í meira en viku hringdi ég til þeirra til að minna á mig. Ég byrjaði ósköp kurteislega og bað þá vinsamlegast um að minna blaðberann á að bera blaðið til mín og gaf góða lýsingu á aðgenginu. Símastúlkan spurði þá hvort ég væri með póstkassa eða lúgu. Og ég svaraði því neitandi. Þá sagði hún frekar stutt í spuna að það væri ástæðan fyrir því að ég fengi ekki blaðið.
ÉG: "Nú? Eru það einhverjar nýjar reglur?"
SÍMADAMAN: "Nei. Þetta hefur alltaf verið svona."
ÉG: "En ég hef alltaf fengið fréttablaðið. Blaðberinn setti það bara á húninn."
SÍMADAMAN: "Það gæti fokið burt."
ÉG: "Það er nánast alltaf logn fyrir utan hurðina hjá mér."
SÍMADAMAN frekar pirruð: "Svona eru bara reglurnar!"
ÉG: "Ég var nú að bera út fréttablaðið sjálf og kannast ekkert við þessar reglur."
SÍMADAMAN: "Blaðið verður að fara ofan í eitthvað!"
ÉG: "Má stinga því inn um gluggann sem er við hliðina á hurðinni? Hann er alltaf opinn."
SÍMADAMAN: "Nei."
ÉG: "Hvað get ég þá gert ef ég vil fá blaðið?"
SÍMADAMAN: "Þú getur set poka á húninn."
Þögn.
ÉG: "Ertu ekki að grínast í mér? Má blaðið fara í poka á húninum en ekki á húninn sjálfan?"
SÍMADAMAN: "Þetta má samt ekki vera bónuspoki eða eitthvað svoleiðis. Það verður að vera taupoki."
Eftir þetta athygglisverða samtal setti ég út poka. En ekkert fréttablað kom. Ég hringdi að sjálfsögðu aftur til að kvarta og þá loksins fékk ég skýringu á blaðaleysinu. Skýringin var einfaldlega sú að blaðberinn í mínu hverfi er hættur! Núna fæ ég sem sagt bara fréttablaðið um helgar því þá er annar blaðberi. En ég þori samt ekki annað en að hafa pokann á húninum til öryggis...

Kisamyndir

Komnar nýjar myndir af Kisa! :)

http://kisi.dyraland.is/

mánudagur, maí 21, 2007

Frábærir tónleikar! :)


Allir að láta sjá sig! :)

Brrr...

Það er snjór úti! Ætli yfirvöld séu með leyfi fyrir þessi???

þriðjudagur, maí 15, 2007

Þjónustan í BT

Ég keypti mér utanáliggjandi harðan disk hjá BT um daginn. Nema hvað, ég setti hann í samband við tölvuna en ekkert gerðist! Ég skoðaði allar snúrur og las leiðbeiningarnar í þaula en ég gat ekki séð að ég væri að gera neitt vitlaust. Ég hringdi því í BT en ég gat ekki með nokkru móti fengið samband. Ég reyndi að hringja þrisvar sinnum og beið í símanum í 10 mín. í hvert skipti. Á endanum náði ég þá í gegn en einu svörin sem ég fékk var að hringja í annað fyrirtæki sem sér um tölvuviðgerðir! Þá spurði ég hvort ég þyrfti að borga fyrir viðgerð á splunkunýjum hörðum disk en þá varð fátt um svör. Nú var farið að síga verulega í mína en ég ákvað nú samt að prófa að hringja í þetta blessaða fyrirtæki sem símastrákurinn benti mér á. Þar var mér tilkynnt að það þyrfti að stilla diskinn á einhvern sérstakan hátt en að það væri afskaplega flókið og engan veginn hægt að gera í gegnum síma. Ég ætti því bara að koma með diskinn niður eftir og láta þá stilla hann. Þegar hér var komið við sögu fannst mér þetta farið að verða frekar furðulegt. Það bara gat ekki verið svona flókið að kaupa sér utanáliggjandi harðan disk! Ég hringdi því aftur í BT og lenti í þetta skiptið á sæmilega kurteisri símastúlku sem gaf mér samband við viðgerðardeildina. Þar svaraði einhver tölvustrákur sem ég átti afar skemmtilegt samtal við sem hljóðaði einhvern veginn svona:
ÉG: "Ég var að kaupa hjá ykkur utanáliggjandi harðan disk en tölvan mín virðist ekki finna hann."
HANN (frekar áhugalaus): "Er hann í sambandi við rafmagn."
ÉG: "Já, hann er í sambandi."
HANN: "Og er hann í sambandi við tölvuna?"
ÉG: "Já."
HANN:"Og er kveikt á honum?"
ÉG: "Já."
HANN (ennþá áhugalaus): "Ef þetta er allt í lagi á hann bara að poppa upp á skjánum."
ÉG: "Það gerist ekkert."
HANN: "Er örugglega kveikt á honum? Það er svona lítill takki aftan á honum sem stendur I og O og hann á að vera á I."
ÉG: "Já, hann er á I. Og það er blátt ljós framan á honum og ég heyri í honum vinna."
HANN: "Nú! Og hann er örugglega í sambandi við tölvuna?"
ÉG: "Já. Við USB tengið."
Og núna fór drengurinn loksins að sýna áhuga og bað mig að gera fullt af flóknum hlutum til að reyna að finna út úr þessu. Og hann komst að lokum að niðurstöðu!
HANN: “Tölvan virðist ekki finna diskinn.”
Merkilegt! Nákvæmlega sama og ég byrjaði samtalið á! Svo sagði hann mér að koma bara með hann niður í BT og þeir myndu kíkja á hann. Og ég gerði það að sjálfsögðu. En þegar ég mætti þangað tók ekki mikið betra við. Ég labbaði að einum afgreiðslustráknum og sagði honum hvað að ég var með. Og hann leit á mig og glotti! Beint framan í opið geðið á mér! En hann tók samt diskinn (ennþá glottandi!!!) og sagðist ætla að kíkja á þetta. En þegar hann fór að skoða þetta aðeins betur kom í ljós að þetta var framleiðslugalli! Þá þurrkaðist glottið loksins framan úr honum! Piff! Ég fékk að sjálfsögðu annan disk og hann virkar eins og í sögu. Ég er alveg sannfærð um að ef ég væri karlkyns fengi ég ekki svona viðbrögð! Ég er kannski ekkert tölvuséní en ég veit alveg nóg samt sem áður. En ég skil líka alveg að þessir tölvustrákar hljóta að fá fullt af símtölum frá fólki sem veit ekkert um tölvur en að glotta fram í mig án þess einu sinni að líta á diskinn fannst mér nú frekar fúlt! Ef ég hefði verið nördalegur strákur er ég viss um að ég hefði verið tekin alvarlega frá upphafi.

mánudagur, maí 14, 2007

Gasgrill

Við mæðgurnar keyptum okkur þetta fína gasgrill í seinustu viku. :) Og ég held bara að við höfum grillað öll kvöld síðan... Verst bara hvað ég er ferlega hrædd við gas. Ég þori varla að kveikja á grillinu sjálf og ég spyr mömmu örugglega svona 10 sinnum hvort hún hafi nú ekki örugglega skrúfað fyrir gasið... Ég hlýt að venjast þessu... :p

miðvikudagur, maí 09, 2007

Blóðprufa

Ég fór til ofnæmislæknis í gær til að láta grennslast fyrir um hvort að ég sé með pensilínofnæmi eftir allt pensilínátið seinasta sumar. Og fyrsta skrefið var blóðprufa. Ég settist hin rólegasta í stólinn enda ekkert sérstaklega hrædd við sprautur. Svo var bandið hert um handlegginn og beðið. Og beðið. Og beðið. Og ég sat með lokuð augun og beið eftir stunginni. Svo fór hjúkrunarfræðingurinn að pota og lemja laust í handlegginn á mér. Þá ákvað ég nú að hætta á að opna augun og kíkja á hvað hún var eiginlega að gera. Hún leit afsakandi á mig og sagðist vera að leita að góðri æð. Svo virtist sem að hún finndi eina góða en hún var ekki á venjulega staðnum heldur en á hliðinni á handleggnum á mér! "Þetta verður aðeins sára því þetta er hérna á hliðinni." sagði hún svo hin rólegasta og stakk mig. Og ég fann nú svo sem engan brjálaðan mun. Það er alltaf vont að láta stinga sig með nál! En jæja, svo var byrjað að tappa af mér. Þegar hún var komin á þriðja glas var mér ekki farið að lítast á blikuna. Var ekki nóg að fá eitt?? Eftir fimmta glasið var mig farið að svima ansi mikið og sem betur fer stoppaði hún þá. Fimm glös takk fyrir! Ég veit það ekki, kannski er þetta ekkert mikið enda hef ég svo sem enga svakalega reynslu af blóðprufum en mér fannst þetta bara alveg nóg fyrir stutta manneskju eins og mig. Ég var allavega hálf tuskuleg það sem eftir var dagsins. Fyrst á eftir varð ég svakalega þyrst og lafmóð á þessari stuttu leið út í bíl. Ætli það sé svona lítið blóð í mér að ég megi ekki við blóðprufu? Hjúkrunarfræðingurinn átti allavega í erfiðleikum með að finna sæmilega æð... Piff! Ég ætti kannski að leggjast í grænar baunir...

þriðjudagur, maí 08, 2007

Tónleikar

Ég fór á tónleika á sunnudaginn hjá Vox academica sem var að flytja Ein Deautsches Requiem eftir Brahms. Ég ætlaði að vera mætt um kl. 15:30 en endaði á að vera mætt 10 mín. í fjögur. Ég sá fyrir mér að ég þyrfti að sitja aftast fyrir aftan einhvern svakalega stóran karl. Sú reyndist nú sem betur fer ekki raunin. Fremsti bekkur var tómur og ég plantaði mér að sjálfsögðu þar. Fremsti bekkur er nú kannski ekki beint talinn vera besti bekkurinn en í þetta skipti kom það ekki að sök. Ég sá alveg ljómandi vel allt sem ég vildi sjá og hljómsveitin og kórinn blönduðust bara vel þrátt fyrir að ég sæti nánast í fangingu á sellóleikurunum. :) Verkið var mjög flott (Brahms er alltaf flottur!) og ég skemmti mér alveg ljómandi vel. Ekki skemmdu Diddú og Kristinn Sigmunds fyrir heldur. En rosalega er Kristinn stór! Á alla kanta! Tumi og Diddú hefðu komist saman fyrir inn í honum! :)

mánudagur, maí 07, 2007

Sigurstranglegt Ísland

Ótrúlegt hvernig fréttamönnum tekst alltaf að finna að minnsta kosti einn Eurovision aðdáanda sem segir að Ísland sé með sigurstranglegasta lagið. Og svo höfum við ekki einu sinni komist upp úr forkeppninni hingað til!

laugardagur, maí 05, 2007

Búin!!!

Guði sé lof! Ég er búin í prófum!!! :) Ég var að klára söngprófið mitt í gær. Sönghlutinn gekk bara vel held ég. Ég gat allavega sungið í gegnum öll lögin mín sjö á þess að stoppa. :p Hinn hlutinn gekk ekki eins vel... Og það fyndna er að ég hafði miklu meiri áhyggjur af lögunum mínum heldur en tónheyrnarhlutanum af því að hingað til hefur tónheyrnin verið mér frekar auðveld. Það sem ég gerði ekki ráð fyrir var stressið. Hausinn á mér lokaðist gjörsamlega! Prófdómarinn lét mig fá eitt lag sem ég átti að syngja. Og gaf mér hljóminn og tóninn sem ég byrjaði á og svo fékk ég hálfa mínútu til að lesa yfir lagið áður en ég átti að syngja það. Og á þessari hálfi mínúti tókst mér ekki einu sinni að finna út í hvaða tóntegund lagið var! Samt var lagið í E-dúr sem maður lærir þegar maður er í 2. stigi... Þarf af leiðandi gat ég sungið fyrsta tóninn í laginu (sem prófdómarinn var búin að gefa mér) og svo ekkert meir. Næst spilaði hann fyrir mig tveggja radda laglínu og ég átti að syngja efri röddina. Og mér tókst að sjálfsögðu að klúðra því. Svo spilaði hann fyrir mig laglínu og spurði mig svo hvort endirinn hefði verið hálfendir eða aðalendir sem er nú yfirleitt frekar auðvelt að heyra. En nei, ég gat ekki svarað því. Og svo spurði hann mig hvort laglínan hefði verið í moll eða dúr, sem er líka mjög auðvelt að heyra, en mér tókst samt ekki að svara því. Því næst spilaði prófdómarinn stutt verk og spurði mig frá hvaða tímabili verkið var og viti menn! Loksins gat mín svarað rétt! Jibbí! Eitt rétt svar! Þá spurði hann mig í hvaða takti verkið var og ég gat að sjálfsögðu ekki fundið það út. Samt var það í 6/8 sem er nú ekkert erfitt að heyra. Svo lét hann mig klappa hrynmynd. Sem allir get! En mér tókst það samt ekki! Úff! Síðast fékk ég svo annað lag sem ég átti að syngja. Og það var sama upp á teningnum þar. Ég gat bara ekki fundið tóntegundina og þess vegna komu bara fyrstu tónarnir. Ég vona bara að þessi hluti af prófinu gildi ekki mikið... Þetta er samt svo svekkjandi af því að ég veit að ég get gert þetta allt saman. Ég get meira að segja gert þetta mjög vel! Ætli þetta flokkist ekki undir prófkvíða?