Framan á viðskiptablaðinu í dag er valdamesti maður í viðskiptalífinu í dag, samkvæmt skoðanakönnun. Nánar tiltekið, skoðanakönnun sem ég gerði! :) Þetta var sem sagt fyrsta verkefnið mitt í nýju vinnunni. Að hringja í helstu forstjóra og framkvæmdarstjóra í þjóðfélaginu og spyrja þá hvaða einstaklingur sé valdamestur að þeirra mati. Og þetta er útkoman. :) Forsíðufrétt á Viðskiptablaðinu og heil opna inn í líka. Ég get ekki verið annað en ánægð. :) Alltaf gaman að sjá að það sem maður gerir kemst í blöðin. Ekki það að nafnið mitt sé nefnt en það er aukaatriði. ;)
föstudagur, mars 30, 2007
mánudagur, mars 26, 2007
Kattholt
Ég fór í Kattholt í gærmorgun. Þannig er nefninlega mál með vexti að ég hringdi þangað um daginn til að gerast félagi í Kattavinafélagi Íslands. Í leiðinni spurði ég svo hvort það væri möguleiki að fá að koma sem sjálfsboðaliði og vinna. Ég bjóst svo sem ekkert endinlega við því að það væri hægt, að þau vildu fá óvant fólk inn til hjálpa. En annað kom á daginn! Ég var boðin velkomin og mætti í gærmorgun kl. 8 og vann til kl. 12. Og reynslan var afskaplega ánægjuleg en líka afskaplega erfið. Ég var náttla að sjálfsögðu látin þrífa kisukassana, enda mesta vinnan við það, en það var í sjálfu sér ekkert erfitt þó að lyktin væri ekki góð. Erfiðast var að horfa upp á allar þessar óskilakisur sem þurfa svooo á athyggli og ást að halda. Þær voru sofandi í mestu makindum í búrunum sínum en um leið og ég labbaði framhjá stukku þær á fætur. Þær mjálmuðu, nudduðu sér upp við búrin, stungu loppunum og trýninu út og reyndu að ná í mig. Og ef ég leit á þær og labbaði til þeirra byrjuðu þær að mala. Bara við það að einhver sýndi þeim smá athyggli. Svo voru auðvitað nokkrar veikar kisur líka sem var mjög erfitt að horfa upp á. Það var t.d. einn lítill kisustrákur sem vildi endinlega leika við mig. En þegar ég nálgaðist hann sá ég að hann var rosalega horaður og korraði í honum þegar hann andaði. Hann hafði ekki einu sinni getu til að þrífa sig! Mig langaði mest að taka hann með heim. En á móti þessum erfiðleikum kom auðvitað að ég sá fullt af kátum og heilbrigðum kisum í leik og starfi. Ég sá t.d. 10 ótrúlega krúttlega og sæta kettlinga! :) Og svo voru tvær kisur að breima og voru alveg að missa sig yfir fressköttunum sem voru lokaðir inni í búrunum. Mjög fyndið. :) Og síðan þegar ég var að fara var ein kisan búin að koma sér veeel fyrir á peysunni minni og ætlaði sko ekki að sleppa! :) Ég ætla sko pottþétt aftur þangað til að hjálpa til.
sunnudagur, mars 25, 2007
Carmina Burana
Ég hef aldrei á ævinni upplifað annað eins! Carmina Burana hefur alltaf heillað mig upp úr skónum en þetta var... ólýsanlegt! Ég hef farið á þrenna tónleika með þessu verki. Og alltaf skemmt mér sérstaklega vel. Fyrsta skiptið sem ég heyrði það var þegar Háskólakórinn og Vox Academica fluttu það. Annað skiptið var með Fílharmoníunni. Og núna í þriðja sinn í kvöld með Óperukórnum. Fyrstu tvö skiptin voru mjög flott og skemmtilegt. En samt væri hægt að taka þau tvö og leggja þau saman en samt kæmi það ekki í hálfkvist við það sem ég varð vitni að í kvöld. Enda er það ekki sambærilegt þar sem Óperukórinn er í raun atvinnukór. Þetta var svo kraftmikið og flott að ég er ennþá með gæsahúð! Og ekki spilltu Diddú, Bergþór og Þorgeir fyrir. Algjör snilld og hreinn klassi! Ég er í skýjunum! :)
föstudagur, mars 23, 2007
MISMUNUN!
Ef það er eitthvað sem ég þoli ekki er það mismunun. Allavega ekki þegar ég verð fyrir henni... Þannig er mál með vexti að ég fór á fund um daginn um söngnám erlendis. Og þar mætti Landsbankinn galvaskur að kynna fyrir okkur lánamöguleika. Og þar tilkynnti hann okkur blákalt að ef við ætluðum að fá lán fyrir skólagjöldum (LÍN dekkar bara framfærslu) þyrftum við veð! Ég spurði af hverju væri ekki nóg að fá uppáskrift fasteignaeiganda þá svaraði hann að AF ÞVÍ AÐ við værum söngnemendur þyrftum við veð. Þannig að ef ég væri að fara í eitthvað annað nám erlendis en söngnám þyrfti ég ekki veð! Mér finnst þetta virkilega ósanngjarnt! Og þar fyrir utan er ekkert grín að fá veð! Það er helst hjá foreldrum sem hægt er að nálgast svoleiðis. Og þá þurfa foreldrar manns að eiga fasteign sem er ekki veðsett í topp. Ég hélt að allir veðsettu húsið sitt í topp við kaupin á húsinu... Þannig að veð er ekki beint auðvelt að fást við. Svo var annað atriði sem ég uppgötvaði um daginn. Ég hringdi í stéttarfélagið mitt til að kanna hvað ég ætti rétt á háum styrk vegna skólans og þar var mér tilkynnt að greiðslur úr fræðslusjóð væru tekjutegndar. Sem er í raun fáránlegt! Segjum t.d. að ég fái 1000 kr. á mánuði í fræðslusjóð miðað við 100.000 kr. í laun. Þannig að eftir ár á ég rétt á 12.000 kr. styrk til mennturnar. En segjum svo að manneskjan sem situr við hliðina á mér skólanum í nákvæmlega eins námi sé t.d. með 1.000.000 kr. í mánaðarlaun og fær þar af leiðandi 10.000 kr. á mánuði í fræðslusjóð og á þá eftir ár rétt á 120.000 kr. styrk til náms! Þannig að þeir sem eru með lægstu launin og þurfta mest á styrknum að halda fá lægsta styrkinn en þeir sem eru með hæstu launin og þurfa minnst á styrknum að halda fá hæsta styrkinn! Ég bara skil ekki réttlætið í þessu!
laugardagur, mars 17, 2007
Nýja vinnan
Ég barasta held að ég sé hrifin af nýju vinnunni minni. Meira að segja mjög hrifin. Dagurinn gengur nokkur vegin svona fyrir sig: Ég mæti kl. 9. Svo klukkan svona 9:10 erum við byrjaðar að hringja. Svo hjá þeim sem reykja er reykpása milli svona 9:50 til 10:00. Svo er kaffi milli kl. 10:30 og 11:00. Síðan er önnur 10 mín. reykpása, svona um 11:30. Svo er matur frá svona ca. 11:55 til 13:05. Þriðja reykpásan er svo um kl. 13:30 til 13:40. Kaffi númer tvö er svo kl. 14:30 til 15:00. Svo er unnið til 16:00. Sem sagt, borgað fyrir 7 tíma vinnu en ca 4 tímar unnir... Mjög flott. :) Svo virðist mér bara vera að ganga mjög vel í vinnunni. Ég er til dæmis búin að fara á einn fund sem fulltrúi fyrirtækisins og úthringisérfræðingur. Og þar var ég titluð af sölustjóranum afkastamesti úthringjari landsins. Ekki amalegt. Og síðast en ekki síst, fékk ég lánaðan Santa Fe jeppa, nánast beint úr kassanum. Verst var að ég þurfti að skila honum daginn eftir en samt... Ég hef aldrei lent í því áður að umboðið láni mér nýjan flottan bíl í sólahring bara af því að ég er að vinna hjá einhverju fyrirtæki... Gaman að þessu. :)
fimmtudagur, mars 15, 2007
Strætó
Ég er ein af þeim sem hleypi alltaf strætó ef ég mögulega get. Og hneyklast alltaf á þeim sem hleypa ekki strætó. En samt stundum verður maður bara að kvarta yfir strætó. Um daginn var ég í mesta sakleysi, eins og svo oft áður, að keyra niður Miklubrautina. Keyrir þá ekki strætó upp að hliðinni á mér og á sama tíma gefur hann stefnuljós og beygir inn á mína akrein! Og ef ekki hefði verið fyrir snör og skörp viðbrögð mín (ég sveigði umhugsunarlaust inn á næstu akrein og var bara heppin að enginn bíll var þar) hefði strætó keyrt á mig! Og ég hefði orðið að klessu. Á meðan ég sat með dúndrandi hjartslátt undir stýri og blótandi strætó í sand og ösku var ég staðráðin í að hringja og kvarta. En svo lét ég aldrei verða að því... Veit ekki af hverju...
þriðjudagur, mars 13, 2007
Kisi kominn með heimasíðu! :)
Jæja, þá er hann Kisi kominn með heimasíðu. :) Og ég er búin að setja inn fuuuullt af myndum. Endinlega kíkið! Slóðin er hérna: http://kisi.dyraland.is og líka hérna til hægri undir Sætasti Kisi í heimi. :)
föstudagur, mars 09, 2007
Bíllinn lifnar við
Bíllinn minn er smám saman að lifna við. Þannig er nebbla mál með vexti að hann var látinn standa óhreyfður í eitt ár, greyið. Gleymdur og aleinn í einhverju skoti á einhverri bílasölu, þar sem enginn sá hann. Og ég er viss um að hann féll í þunglyndi. Hann var allavega ekki nema hálfur bíll þegar ég fékk hann, miðað við núna. Ekkert ljós inn í honum og rúðuþurrkan í afturrúðunni virkaði ekki. En svo eftir nokkra daga á vegunum byrjaði drunginn að leka af honum. Fyrst byrjaði ljósið inn í honum að virka aftur. Og núna er það þannig að um leið og ég drep á bílnum kveikir hann ljósið. Ég þarf ekki einu sinni að opna hurðina. Svo hökkti afturrúðuþurrkan í gang allt í einu einn daginn. Núna er hún orðin þannig að hún fer sjálf í gang ef það rignir! Um daginn fór hún alveg sjálf af stað og ég bara gat ekki slökkt á henni aftur, fyrr en rigningin hætti. Greinilegt að bílnum fannst mikilvægt að ég sæi út um afturrúðuna. Og núna upp á síðkastið hefur hann tekið upp á því að pípa á mig við minnsta tilefni. Þetta byrjaði mjög sakleysislega. Pípti þegar ég gleymdi að slökkva ljósin. Mjög gott. Svo pípir hann í hvert skipti sem hurð er opnuð. Og ekki nóg með það, heldur tilkynnir hann á útvarpsskjánum hvaða hurð er opin: "LEFT FRONT DOOR OPEN!" Og svo pípir hann þegar hann er svangur. Og þegar ég gleymi lyklunum í. Og þegar ég gleymi að setja á mig belti. Og þegar farþeginn í sætinu við hliðina á mér gleymir að setja á sig belti... Þannig að það er ekki hægt að segja annað en að bílinn minn sé smám saman að lifna við. Ég er viss um að hann verður farinn að tala eftir tvo mánuði og stýra sjálfur eftir ár. Ég hlakka til! :)
fimmtudagur, mars 08, 2007
Vitvélar??
Jæja, þá er mín farin að vinna hjá Miðlun. Þótt fyrr hefði verið segi ég nú bara. Ég er í alls konar söluverkefnum og skoðanakönnunum og þar af leiðandi er ég alltaf í símanum. Það getur verið þreytandi en mér líkar það að mestu vel. Og þar sem ég er í símanum nánast allan daginn er alveg gefið að ég lendi allavega á nokkrum furðufuglum. En furðulegasta furðufuglinum (ef fugl skyldi kalla) lenti ég á áðan. Það var hvorki meira né minna en vitvél! Ekki símsvari eða neitt svoleiðis, heldur vitvél sem heimtaði að ég talaði við sig! Og ekki nóg með það, þegar ég hikaði við að svara (enda hafði ég aldrei talað við vitvél áður), talaði hún við mig eins og ég væri barn! Ég ákvað því að reyna og sagði hátt og skýrt: "Framkvæmdarstjóri!" og bjóst svo sem ekki við miklum viðbrögðum. En hún skildi mig! Og gaf mér meira að segja samband við framkvæmdarstjóra... Furðulegt... Vitvél sem talar niður til manns... Það held ég nú... Er þetta framtíðin???
miðvikudagur, mars 07, 2007
þriðjudagur, mars 06, 2007
Njálgur á pítsu???
Ég var í mesta sakleysi að horfa á sjónvarpið um daginn, eins og svo oft áður. Þá fór svengdin að segja til sín og ég fór að velta fyrir mér hvað ég gæti nú fengið mér að borða. Ætti ég að panta eitthvað eða bara elda sjálf...? Kemur þá ekki bara, alveg upp úr þurru, Domino´s auglýsing í sjónvarpinu. Sem er nú svo sem ekkert óvenjulegt þar sem það fyrirtæki auglýsir ekki beint lítið. Nema hvað, þar kom þessi blessaði búktalari og dúkkan hans fyrir, sem ég hef í raun aldrei skilið. En það er nú svo sem allt í lagi. Ég þarf ekki að skilja allar auglýsingar. En þá versnaði í því. Maðurinn stóð við afgreiðsluborð Domino´s og klóraði sér í rassinum... Og dúkkan gaf í skin að hann væri með njálg... Og ég hætti snarlega við að panta mat og ákvað að elda sjálf. Það er algjörlega ofar mínum skilningi hvernig rassaklór og njálgur getur verið hagstætt fyrir pítsufyrirtæki! Eða er ég kannski bara ekki að fatta plottið??
mánudagur, mars 05, 2007
Sjávarkjallarinn
Við mamma fórum á Sjávarkjallarann um helgina. Við áttum, kemur á óvart, gjafabréf. Meira að segja tvö! Ég átti eitt fyrir 2 x exotic menu og mamma 10.000 kr. Exotic menu reyndist innihalda forrétt, aðalrétt og eftirrétt þannig að við áttum 10.000 kallinn eftir bara til að drekka fyrir. :) Þannig að mamma pantaði sér dýrasta merlot rauðvínið og ég pantaði mér bjór og hvítvín. Svo byrjaði maturinn að streyma til okkar. Fyrst fengum við smakk frá eldhúsinu sem reyndist vera reyktur áll. Mér fannst hann ekki góður (en ég smakkaði þó) en mamma fékkst ekki til að smakka. Svo fengum við forréttina. Fyst kom chillihumar, mjöööög góður. Svo var lynghæna. Hún var ekkert smá lítil! Við þurftum nánst að leita að kjötinu, en góð var hún, það litla sem við fundum allavega. Síðan var djúpsteiktur krabbi í einhvers konar orlideigi. Og ég fann eiginlega ekkert kjöt á honum heldur, en ég held að það hafi bara verið kunnáttuleysi... Síðan fengum við héralundir, hráar, í einhvers konar súsí. Mjög spes, en ekki vont. Þá var komið að aðalréttinum. Við fengum saltfisk sem var mjög góður, bleikju sem var ennþá betri, rauðsprettu sem var líka mjög góð og svo skötusel sem var ekkert spes. Og svo var auðvitað rúsínuna í pylsuendanum, andabringu! Algjört sælgæti! Í eftirrétt fengum við tvenns konar krapís, karmellusúkkulaðibúðing, súkkulaðikrembrúlei með grænu sprengidóti (svona sem bubblar upp í manni) og einhvern furðulegan ávöxt sem var kallaður drottning ávaxtanna. Þetta lítur út fyrir að vera mikið en þetta tók samt ekki langan tíma... Frá fyrsta rétti til hins síðasta var um einn og hálfur tími. En jæja, þegar hér var komið við sögu áttum við ennþá eftir af gjafabréfinu hennar mömmu, þannig að það var ekkert annað að gera ein að setjast í setustofuna og leggjast í kokteilalistann. Mamma fékk sér kaffi og grand en ég fékk mér móhídó og svo ferskjuskot. Og fyrir þetta allt saman borguðum við 250 kr. :)
fimmtudagur, mars 01, 2007
14°C!!!
14°C!!! Hvorki meira né minna! Það eru 14°C í rúminu mínu akkúrat núna! Brrrr.... Kalt... Hér með tilkynnist að rúmið mitt verður fært á heitari stað í mjög náinni framtíð og svo verður sett upp hillu þar sem rúmið er núna. Þar er þá hægt að geyma það sem kemst ekki fyrir í ísskápnum, án þess að það skemmist!
Gerast áskrifandi að:
Færslur (Atom)