mánudagur, apríl 30, 2007

Vitleysingurinn ég

Ég var í mesta sakleysi að keyra nýja fína bílinn minn um daginn. Allt í einu tók ég eftir því að bílinn var farinn að ganga furðulega. Ég einbeitti mér samstundis að ganginum til að reyna að finna út hvað þetta gæti eiginlega verið en þá hætti það. Ég var hugsi smá stund en hætti svo að velta mér upp úr þessu. Þetta var örugglega bara tilviljun. Stuttu seinna var bílinn aftur farinn að ganga furðulega! Ég einbeitti mér strax aftur að ganginum og lækkaði í útvarpinu í leiðinni til að heyra betur. En eins og hendi væri veifað hættu furðulegheitin! Stórfurðulegt! Það var ekki fyrr en í þriðja sinnið sem þetta endurtók sig að ég uppgötvaði hvað var að gerast. Vitleysingurinn ég var að slá taktinn á bensíngjöfinni!!! Svona getur tónlistin leikið mann grátt... :p

þriðjudagur, apríl 24, 2007

Rafmagn

Ég er með alveg ferlega vöðvabólgu. Og ég búin að reyna ýmislegt til að losna við hana... T.d. hljóðbylgjur. Ekki get ég sagt að þær bylgjur hafi verið hávaðasamar. Þær voru eiginlega bara alveg hljóðlátar... Er það ekki dálítið furðulegt að ekkert heyrist í hljóðbylgjum...? Svo hef ég líka prófað stuttbylgjur. Og leysigeisla... Og núna seinast í morgun, rafmagn! Það var eiginlega frekar skrýtið... Ég fékk tvær plötur á sitthvora öxlina og svo var straumi hleypt á. Fyrst fann ég bara smá kítl undir plötunum en svo fór ég að finna kítl alveg fram í hendur og upp í höfuð... Furðulegt. Ég sem hélt að rafmagn væri hættulegt...

föstudagur, apríl 20, 2007

Pennar

Ég er búin að selja 415 penna. Ég vissi ekki að fólk væri svona hrifið af pennum...

þriðjudagur, apríl 17, 2007

Týndur leðurjakki! :(

Aðalfundur kórsins míns var haldinn á föstudaginn á Hressó. Sem er í sjálfu sér ekki í frásögu færandi nema fyrir það að bjórinn var frír. Sem er í sjálfu sér ekki heldur í frásögu færandi nema fyrir það að ég drakk talsvert af honum. Við skulum allavega orða það þannig að ég hafi drukkið alveg nóg. En ég komst allavega heil heim og (að ég hélt) með allt mitt með mér. En annað kom á daginn. Ég vaknaði daginn eftir við vondan draum þar sem mamma öskraði: "Hvaða leðurjakki er þetta???" Ég rauk fram og sá leðurjakka, en alls ekki minn leðurjakka. Þessi var svartur og þunnur. Og hann var mjög víður á mig og hnésíður! Og til að toppa allt saman var hann angandi af rakspíra! Minn jakki er aftur á móti brúnn og þykkur. Og hann er frekar þröngur á mig og mittissíður. Og hann angar sko ekki af rakspíra! Ég gæti ekki hafa fundið jakka sem var ólíkari mínum til að taka með heim. Það eina sem þeir eiga sameiginlegt er að vera leðurjakkar. Hvað var eiginlega í bjórnum...?
Allavega, FUNDARLAUNUM er heitið!!! Hans er sárt saknað! :(

fimmtudagur, apríl 12, 2007

Smáfréttir

Hvernig væri nú að koma með smáfréttir, svona eins og smáskyr eða smáskilaboð...


  • Ég fór aftur í Kattholt um daginn. Og á meðan ég var þar þá fékk litli sæti horaði kisustrákurinn nýtt heimili! :) Aldeilis flott. En svo kom meindýraeyðirinn með læðu og þrjá pínulitla kettlinga. Það var ekki eins gaman en þeir voru nú samt óttalega krúttlegir.
  • Ég held að ég sé að verða einum of vön fjarstýringum... Ég er þrisvar búin að reyna að opna útihurðina með fjarstýringunni af bílnum...
  • Ég fór í sneiðmyndatöku á þriðjudaginn. Stórfurðulegt. Aldrei farið í svoleiðis áður. Plantað á einhvern bekk, stranglega bannað að hreyfa mig og svo er manni rúllað fram og til baka á meðan tækið snýst um mann. Ég hafði það allavega á tilfinningunni að það væri eitthvað inn í þessum hring sem snérist... Veit sossem ekkert hvort það er rétt. En allavega, ekkert fannst og ekkert vantaði og það er fyrir öllu. ;)
  • Ég er orðin húkkt á Aveyond. Fínn leikur.
  • Hvað er málið með jeppa á ló prófæl?? Ég hélt að jeppar væru til að jeppast á, ekki til að sýna sig á...