þriðjudagur, ágúst 26, 2008

Örlar á kvíða

Ég verð nú að viðurkenna það, að það er farið að örla á smá spennutengdum kvíða fyrir Grikklandsförinni. Ég kvíði samt ekki mest fyrir að koma mér inn í menninguna eða málið, eða að vera ein svona lengi í ókunnugu landi fjarri fjölskyldunni. Það er hluti ef kvíðanum, auðvitað, en það sem ég kvíði mest fyrir er að koma mér frá flugvellinum í Aþenu og til Xylokastro. Það hljómar asnalega en þannig er það nú samt. Ég lendi kl. 02:35 um nóttina í Aþenu og ætti að vera komin út um kl. 03:00. Þá tekur við bið í klukkutíma (um miðja nótt, alein og með ferðatöskur...) eftir almennings strætó (ekki svona flybus, heldur bara venjulegur strætó) sem ég á að taka. Sú strætóferð tekur ca. 1,5 klst og tekur mig niður í miðbæ Aþenu (8 milljón manna borg!) á aðalstrætóstöðina. Þar tek ég svo rútu kl. 05:40 til Xylokastro, og sú ferð tekur ca. 2 klst. En sem sagt, ég verð alein niður í miðbæ í ókunnugri 8 milljón manna borg á laugardagsnóttu, með ferðatöskur og fartölvu undir hendinni. Getur einhver láð mér að vera svolítið kvíðin?? Ég sem er hrædd við að vera ein með veskið mitt niður í miðbæ Reykjavíkur! Ekki það að ég lifði það svo sem af að labba alein heim í New York um miðja laugardagsnótt... Varla er Aþena hættulegri en New York?

mánudagur, ágúst 25, 2008

Flug...

Ok þetta er ekki alveg það sem ég þurfti á að halda þegar ég er að fara að fljúga til Grikklands... Tvö skæð flugslys með stuttu millibili. Ekki það að það eru miklu meiri líkur á því að lenda í bílslysi, en það sem er svo óhugnalegt við flugslys er að ef maður lendir í þannig eru svo ótrúlega litlar líkur á því að lifa af.

fimmtudagur, ágúst 21, 2008

Tveir helaumir...

Ég var í blóðprufu í morgun, bara svona til að tékka hvort ég sé ekki við hesta heilsu áður en ég fer út til Grikkklands. Ég settist (svona næstum) slök í stólinn og konan batt um handlegginn á mér og herti að.
BIÐ...
KONAN: "Hmmm..." Potar í handlegginn á mér.
BIÐ...
Heldur áfram að pota í mig.
Þegar hérna var komið var ég eiginlega farin að bíða eftir stungunni. Hvað tók eiginlega svona langan tíma?! Loksins lætur hún svo verða að því og stingur.
KONAN: "Hmm..." Juggar nálinni fram og til baka, til hliðanna og stingur dýpra og svo dýpra...
Hérna var ég örugglega orðin græn í framan.
KONAN: "Nei, ekkert."
Hvernig er hægt að stinga mig með nál og finna ekkert blóð???
Konan snýr sér svo að hinum handleggnum á mér. Og þar endurtekur hún rútínuna. Bindur um hann, herðir að, bíður..., potar, bíður..., potar meira, hmm-ar, og finnur svo (LOKSINS) nothæfa æð einhver staðar á hliðinni á handleggnum!
Og eftir sit ég með tvo helauma handleggi.

föstudagur, ágúst 15, 2008

Flugið mitt

Jahá. Flugið mitt til Grikklands er frekar spes.

6. september:
Kl. 7:55 - Flýg til Amsterdam með Icelandair
---> Lengd flugs: 3 klst.
---> Lendi kl. 12:55 á Schiphol að staðartíma

Bið: 3 klst. og 30 mín.

Kl. 16:25 - Flýg til London með British Airways
---> Lengd flugs: 1 klst. og 15 mín.
---> Lendi kl. 16:40 á Heathrow að staðartíma

Bið 4 klst. og 15 mín.

Kl. 20:55 - Flýg til Aþenu með British Airways
---> Lengd flugs: 3 klst. og 40 mín.
---> Lendi kl. 02:35 að staðartíma

Og svo er eftir að koma sér til Xylokastro sem er 100 km frá Aþenu.

miðvikudagur, ágúst 13, 2008

Gott að eiga góða að

Eins og kannski flestir hafa áttað sig er ég á leið til Grikklands í byrjun september. Og ég sá fram á að ég þyrfti að kaupa mér fartölvu fyrir ferðina þar sem það er eiginlega ómögulegt að vera fartölvulaus úti, og gamla fartölvan mín er orðin 8 ára gömul og virkar varla lengur... Og mér var nú svona varla farið að lítast á blikuna með að þurfa að kaupa mér tölvu þar sem þær eru nú ekki beint ódýrar og það hefur harnað í ári hjá mér í ár eins og flestum öðrum íslendingum. Og ég vildi helst geta haft smá varasjóð úti ef eitthvað skildi nú koma upp á. En ég sá fram á að þurfa að eyða seinustu krónunni minni í að kaupa skítsæmilega ódýra fartölvu sem ég gæti komist á netið á og sett myndir inn á en ekki mikið meira. En það endaði nú heldur betur ekki þannig. Við mamma fórum nefninlega upp í Hóla um helgina með Rósu frænku og eftir matinn, kemur Rósa þá ekki með stóran skærbleikan pakka handa mér. Ég vissi ekki hvað á mig stóð veðrið. Ennþá alveg furðulostin las ég á kortið og þá kom í ljós að pakkinn var frá stórfjölskyldunni minni. Þegar ég sá öll nöfnin þá fór mig nú að gruna að þetta gæti verið eitthvað stórt en var samt engu nær um hvað þetta var. Svo reif ég bleika pappírinn utan af. Þá kom í ljós pappakassi með hvítum strikamerkjum á. Og þá fór mig að gruna að þetta gæti verið fartölva en ég hugsaði með mér að það bara gæti ekki verið! En það reyndist nú samt sem áður vera fartölva! Glæsileg glansandi alvöru dell fartölva! Miiiiklu flottari tölva en allar tölvurnar sem ég var búin að skoða! Ég grét af gleði! Núna get ég tekið með mér (ótrúlega flotta) fartölvu út OG varasjóð ef eitthvað skildi koma upp á! :D Það er víst ekki hægt að segja annan en það að það er gott að eiga góða að. :)
Takk ÆÐISLEGA fyrir mig! :D

Nýr litur

Ég ákvað að breyta um lit á blogginu í tilefni af því að ég er að fara til Grikklands. Er blátt ekki alveg upplagt? Eins og sjórinn sem ég kem til með að baða mig í daginn út og daginn inn. :D