miðvikudagur, desember 19, 2007

fimmtudagur, desember 13, 2007

Sorglegt

Ég hef svo sem ekki mikið fylgst með umræðunni í þjóðfélaginu upp á síðkastið um feminista en mér finnst samt að hvað það er að vera feministi hafi týnst í umræðunni. Hérna kemur smá skýring:

Feministi er sá sem vill jafnrétti, bæði fyrir konur og karla. Dæmi: Sömu laun fyrir sömu vinnu, fæðingarorlof fyrir bæði kyn o.s.frv.

Og ég held að allir vilji þetta. Þannig að í raun eru allir feministar. Allt annar handleggur eru svo kvenréttindakonur. Þær vilja sérstök kvenréttindi. Enn annar handleggur eru svo karlremburnar sem allir vita hvað er. En feministi er sá sem vill jafnrétti, jafnvægi.

laugardagur, desember 01, 2007

Brasilískt vax

Af hverju hafa stelpur svona mikinn áhuga á því að deila því með mér að þær fari reglulega í brasilískt vax?? Ég hef lent tvisvar í þessu á stuttum tíma. Ég hef afskaplega takmarkaðan áhuga á því að vita hvort þær færi í brasilískt eða ekki. Ekki það að ég sé eitthvað á móti því að fara í bresilískt vax, það er ekki það. Ég skil bara ekki af hverju það kemur mér við hvort manneskjan sem stendur á móti mér sé sköllótt að neðan eða ekki!

fimmtudagur, nóvember 22, 2007

Jólasveinagjafapakkalistinn minn :)

Það er komin ósk um að ég setji upp lista fyrir jólin. :) Og hérna kemur hann loksins.

  1. Ég er að safna silfri í upphlutinn minn. :) Ég er komin með eina doppu í beltið. Og loksins er ég búin að finna út hvar silfrið fæst, hjá Árna Höskuldssyni gullsmiði, Bergstaðastræti 4.
  2. Svo langar mig líka (auðvitað) í seinustu bókina af Harry Potter. Get ekki beeeeðið eftir að fá að klára söguna.
  3. Mig hefur líka alltaf langað til að eignast miðju myndina af Lord of the Rings í svona special edition útgáfu, margir diskar saman. Ég á nebbla númer eitt og þrjú en vantar miðjuna.
  4. Það sama er upp á teningnum með Harry Potter myndirnar. Ég á fyrstu þrjár myndirnar en vantar næstu tvær.
  5. Svo er það Garfield. Ég eeeelska Garfield. Ég á nokkrar bækum með honum en væri sko alveg til í að eiga miiiiklu fleiri! :)
  6. Ég væri líka alveg til í að eignast einhver skemmileg spil. T.d. Party og co. eða framhöldin af Catan.
  7. Svo er það nýjasta Pirates of the Caribean. Ég á hinar tvær og væri alveg til í að eiga þessa nýjustu líka.
  8. Svo eru það sokkamálin... Ég bara get ekki farið í vinnuna án þess að vera í sokkum í stíl við fötin mín. Og núna vantar mig alveg ferlega hlýja sokka sem eru ekki gráir eða hvítir. Nánast allir hlýjir sokkar sem ég á eru gráir eða hvítir en ef ég er t.d. í brúnum bol get ég ekki látið sjá mig í gráum sokkum! Það væri skandall! :þ Þannig að, bleikir ullasokkar væru alveg málið sko. :D
  9. Góðar bækur eru líka vel þegnar, enda er ég mikill lestrarhestur. Þá kemur fyrst upp í hugann "Um langan veg. Frásögn herdrengs." Örugglega mögnuð bók.
  10. Mig vantar líka í góðan skrifborðsstól. Þessi sem ég sit á núna er orðinn ansi lúinn og er alveg hræðilegur fyrir bakið!
  11. Sængurföt eru líka eitthvað sem maður á aldrei nóg af. Og ég eiginlega bara of lítið af! Ég er meira að segja farin að draga fram gömul sængurföt með barbí og ponyhesta myndum til að dekka skortinn... Ekki það að sængurföt með myndum séu slæm. Söngurföt með kisumyndum væru t.d. mjög flott. Eða Garfield-sængurföt! Það væri toppurinn! :)
  12. Svo eru það vettlingar. Ég veit ekki hvernig ég fer að þessu en ég bara virðist aldrei eiga nóg af vettlingum. Mér tekst annað hvort að týna þeim eða það kemur gat á þumalinn eða eitthvað svoleiðis.
  13. Ullarpeysa er líka eitthvað sem mig vantar sárlega. Fína svarta ullarpeysan sem amma prjónaði handa mér er búin, þ.e.a.s. hún eyddist upp vegna miiiiikillar notkunnar. Og núna er ég búin að hertaka ullarpeysuna hennar mömmu, mömmu til lítillar hrifningar. :þ

Ætli ég láti þetta ekki nægja í bili...? :)

mánudagur, nóvember 05, 2007

Barmmikil mjóna

Mér tókst í vor að létta mig um örfá kíló. Þau komu að vísu fljótt aftur en hvað um það. Ég man bara eftir því hvað það var pirrandi að finna engan mun á fötunum mínum. Allar buxur voru áfram jafn þröngar og magamálið það sama. Fuss og svei. Eini munurinn sem ég fann var að ég fyllti ekki lengur upp í brjóstarhaldarann minn... Algjörlega típískt! Eini staðurinn sem maður er þokkalega sáttur við að sé breiður, hann þarf endinlega að minnka fyrst!
Núna aftur á móti er þetta allt annað. Ég líka búin að missa örfá kíló síðan ég byrjaði á Herbalife en í þetta skipti fara þau af réttum stöðum. 10 cm bara yfir magann takk fyrir! En bara 1 cm yfir brjóstin. :) Algjörlega fullkomið! Bíðið þið bara, ég verð barmmikil mjóna á tónleikunum mínum í vor! :D

föstudagur, nóvember 02, 2007

Heilsuskýrla

Og allir líka að fylla út heilsuskýrslu. :D Mjög gaman.

http://www.heilsufrettir.is/siggarosa/healthapplication

þriðjudagur, október 30, 2007

Komin á fullt!

Þá er mín bara komin á fullt í Herbalife-viðskiptin! :) Allir að kíkja á nýju heimasíðuna mína! Rosalega flott! :D

http://www.heilsufrettir.is/siggarosa

laugardagur, október 13, 2007

"Hann er að kíkja á mig..."

Það er eins gott að ég er í megrun! Ég var að sækja litla krúttið hana Evu Katrínu á leikskólann í gær og hún horfði furðulostin á mig.
EVA: "Hvað ertu með í magnum?"
ÉG: "Bara mat."
EVA: "Hann er að kíkja á mig!"
ÉG: "Ha? Er maginn að kíkja á þig?"
EVA: "Já!"
Þetta gengur ekki lengur! Maginn er orðinn svo stór að hann er farinn að hrella börnin í kringum mig! :þ

föstudagur, október 12, 2007

Óskir...

Eins gott að passa sig á því hvað maður óskar sér... Í dag lenti ég í því að rúðupissið á bílnum mínum kláraðist. Og rúðurnar voru orðnar frekar kámugar. Þannig að ég hugsaði: "Ég vildi óska að það kæmi almennileg demba sem myndi hreinsa rúðurnar." Og mér varð sko sannarlega að ósk minni! Ég sá ekki út úr augum fyrir vatni...

sunnudagur, september 23, 2007

Sjálfstæður Herbalife dreifingaraðili

Ég er orðin sjálfstæður Herbalife dreifingaraðili. :) Og líst bara alveg ljómandi vel á! Enda var ég á Herbalife ráðstefnu í gær og þar komst ég svo sannarlega að því að Herbalife virkar! Ég hef aldrei á ævinni séð eins mikið af orkumiklu fólki saman komið! Enda fór helmingurinn af ráðstefnunni í að dansa og klappa og skemmta sér. :) Mjög gaman.

En fyrir ykkur sem ekki vitið þá er Herbalife hnitmiðuð næring, jafn að innan sem utan. Innri næringavörurnar eru fyrir þá sem þurfa að léttast, þyngjast, íþróttafólk eða bara fólk sem hefur áhuga á góðri næringu eða að bæta heilsuna. Sem sagt fyrir alla. Og það sama gildir um snyrtivörurnar; þær eru fyrir alla. :)

Allir sem vilja fríar prufur endinlega hafið samband. :) S: 6615838

miðvikudagur, september 12, 2007

Herbalife

Þeir sem vilja fríar prufur hafið bara samband. :D

Sími: 6615838

laugardagur, september 08, 2007

Dagskrá vetrarins

Óperukórinn í Reykjavík

Mozart Requiem
Björgvin Þ Valdimarsson - Heimsfrumflutningur
Beethoven Missa Solemnis með Sinfóníuhljómsveit Íslands og Askenazy
Carmina Burana - Reykjavík
Carmina Burana - Carnegie Hall New York!!! :D
Jón Ásgeirsson - Opera heimsfrumflutningur

Loksins fæ ég að syngja Carmina Burana! Og það í Carnegie Hall í New York! :D

föstudagur, september 07, 2007

Óperukórinn!

Ég fór í inntökupróf fyrir Óperukórinn á miðvikudaginn. Og ég átti nú svo sem ekki von á því að komast inn í kórinn miðað við hvernig mér gekk. Ég söng eitt lag sem mér tókst ekki alveg að láta hljóma á neðra sviðinu þar sem ég var svo stressuð. Svo tók Garðar mig upp og lét mig syngja nokkrar söngæfingar og mér tókst það svona með herkjum. Svo spilaði hann nokkrar nótur og ég átti að syngja þær en auðvitað tókst það ekki. En mér til mikillar gleði fékk ég símtal seinni partinn í gær þar sem mér að tjáð að ég hefði fengið inngöngu í kórinn! :D Ég skil ekki alveg hvernig ég fer að þessu. Mér tekst alltaf að klúðra öllum prófum en samt næ ég alltaf. Eins og t.d. í tónheyrninni í vorprófinu mínu. Ég hef sjaldan klúðrað einhverju eins illa eins og þá en samt var ég ein af fáum í bekknum sem náði tónheyrninni! Furðulegt.

þriðjudagur, september 04, 2007

Ég FÆ frítt í strætó!

Hér með tilkynnist það með stolti að ég FÆ frítt í strætó! :D Ég hefði átt að fárast meira yfir þessu um daginn. En Garðar skólastjóri þurfti víst að hafa mikið fyrir að koma þessu í gegn en það hafðist á endanum. Ekki það að skólastjóri á náttla ekkert að þurfa að standa í svona löguðu, bara af því að fögin í hans skóla eru eitthvað aðeins öðruvísi en í öðrum skólum. En sem sagt, allir á Framhalds- og Háskólastigi fengu strætókort. :) Ég er mjög glöð og ég held að eigi barasta eftir að nýta mér kortið. :)

miðvikudagur, ágúst 22, 2007

Ég ER nemi!

Ég hef ótrúlega oft verið spurð hvort að ég ætli ekki að fara að drífa mig í skóla. Fólk virðist ekki skilja að ég ER í skóla, Söngskólanum í Reykjavík. En ég held að skilji af hverju þetta er svona, því fyrst sjálft menntamálaráðuneytið lítur ekki á námið mitt sem "alvöru nám" hvernig get ég þá ætlast til þess að samfélagið sjálft geri það?? Ég las í Fréttablaðinu í morgun að tónlistarnemar fá ekki frítt í strætó eins og aðrir nemar borgarinnar. Og ástæðan er sú að strætó og borgin fara eftir skilgreiningu menntamálaráðuneytisins á því hvað er framhaldsskóli og háskóli. Og Söngskólinn í Reykjavík og aðrir tónlistarskólar flokkast greinilega ekki undir þá skilgreiningu. Samt á þetta að vera nám á bæði framhalds- og háskólastigi og er meira að segja námslánahæft hjá LÍN! Ég spyr, hver er munurinn á t.d. tónlistarnámi og myndlistarnámi? Ég sé hvergi umfjöllun um það að t.d. Listaháskólinn fái ekki frítt í strætó... Ég legg til að Söngskólinn verði skírður Söngháskólinn. Þá er ekki hægt að neita því að hann sé háskóli... :þ

laugardagur, ágúst 11, 2007

fimmtudagur, ágúst 09, 2007

Tveimur tönnum fátækari...

Ég hef aldrei verið hrædd hjá tannlæknum - alveg þangað til um daginn. Enda hef ég aldrei þurft að láta gera neitt stórt við tennurnar mínar - alveg þangað til um daginn. Ég hef verið, eins og flestir á mínum aldrei, að taka endajaxla undanfarin ár. Og þeir hafa aldrei verið til vandræða - alveg þangað til um daginn. Þá tók einn jaxlinn upp á því að fara að angra mig og ég varð stokkbólgin og rosalega aum. Þannig að ég ákvað nú að láta kíkja á hann. Og ég var varla búin að opna munninn þegar tannlæknirinn sendi mig heim með stóran skammt af sýklalyfjum og sagði mér að ég yrði að koma aftur eftir 10 daga til að láta rífa úr mér tvo endajaxla! Í fyrstu fannst mér það nú svo sem ekkert mál. En þegar það fór að líða að tanntökunni fór stressið að gera vart við sig. En annars varð ég eiginlega ekkert hrædd, ekki fyrr en hann var búinn að deyfa mig. Þá einhvern veginn rann það upp fyrir mér að það var að fara að rífa úr mér tvo jaxla. Þannig að ég skalf og nötraði eins og hrísla og varð lafmóð eins og eftir maraþonhlaup! Ég eiginlega hálf skammaðist mín fyrir þetta en tannlæknar eru sjálfsagt vanir svona. Svo byrjaði hann að rífa. Og bara allt í einu var einn jaxl farinn. Og svo næsti. Og það var bara eiginlega ekekrt stórmál... Það eina sem var ógeðslegt var að heyra brestina sem bergmáluðu í höfðinu á mér... Frekar óhugnalegt...

miðvikudagur, júlí 25, 2007

föstudagur, júlí 13, 2007

Grikkland

Ég hringdi til Grikklands í morgun. Þetta lítur allt saman vel út. :) Ég vona bara að þetta gangi. :D

Smá útskýring: Ég fór á heimasíðu Alþjóðlegra ungmennaskipta um daginn. Og þá ákvað ég að láta langþráðan draum rætast. Þ.e.a.s. að fara til útlanda í eitt ár, breyta aðeins til. Þannig að ég dreif bara í þessu og sótti um verkefni á Grikklandi, um 50 km frá Aþenu. Verkefnið felst í því að hjálpa til á leikskóla frá kl. 8 - 14 á daginn. Og í staðinn fæ ég borgað farið út og heim, frítt fæði og húsnæði og vasapening í hverri viku. :) Ekki amalegt. Og svo á ég frí allar helgar og fæ 2 vikna frí yfir sumarið. Þannig að ef allt gengur eftir þá fer ég til Grikklands haustið 2008. :D

þriðjudagur, júlí 10, 2007

Kúluís

Hvernig stendur á því að mann langar alltaf til að borða neðstu kúluna í kúluísnum fyrst...?

Allir að krossa fingur!

Ég er búin að sækja um þetta fyrir haustið 2008... Svo er bara að vona að það gangi eftir! :)

http://ec.europa.eu/youth/program/sos/hei/hei_form_en.cfm?EID=34000123201

Hérna er þetta...

http://maps.google.com/maps?f=q&hl=en&geocode=&q=Vrahati+Greece&sll=42.293564,41.835938&sspn=58.380724,118.476563&ie=UTF8&ll=38.543869,22.955933&spn=1.954758,3.702393&t=h&z=8&iwloc=A&om=1

laugardagur, júlí 07, 2007

Varðeldur í stofunni

Við mamma gerðum góða tilraun um daginn til að kveikja í stofunni... Og úr varð varðeldur...

fimmtudagur, júlí 05, 2007

Ættarmót

Ég fór á ættarmót í Þrastarskógi um helgina. Það var mjög gaman enda alltaf gaman að hitta skemmtilega ættingja. :) Og ekki spillti veðrið fyrir; endalaus sól og blíða! Og að sjálfsögðu sat ég úti og baðaði mig í sólinni. Sem endaði svo með því að ég skaðbrann... :p

mánudagur, júní 25, 2007

Ljósmyndakeppni

Ég ákvað að taka þátt í ljósmyndasamkeppni Hans Petersen og mbl.is. Ekki það að ég eigi von á að komast langt en það er samt alltaf gaman að taka þátt. :)

Hérna eru myndirnar sem ég sendi inn:

http://www.mbl.is/mm/folk/ljosmyndasamkeppni/myndir.html?photogr_id=4739

laugardagur, júní 23, 2007

Úff

Ég fór aftur í Kattholt í morgun. Úff. Þetta var erfiðara núna en seinast. Kettlingarnir sem ég talaði um seinast voru orðnir ennþá veikari. Einn sá nánast ekkert því hann var með svo mikla sýkingu í augunum. Og annar var með blóðugt hor í nefinu. :( Og svo tók ein kisan upp á því að gjóta meðan ég var þarna! Ég fylgdist að sjálfsögðu spennt með en svo voru báðir kettlingarnir dánir. :( Sorglegt. En ég sá líka allir hinar kisurnar sem voru ekki veikar. Ég sá til dæmis eina algjöra rúsínu sem var nánast alveg blind með einhvers konar erfðagalli. Og hún var alltaf að reyna að tala við mig en steig alltaf ofan í vatnsdallinn sinn því hún sá auðvitað ekkert. Algjört krútt!

fimmtudagur, júní 21, 2007

Dæmisaga

SAGA 1:
Einu sinni var stelpa sem hét Sigga. Hún var að læra söng í Söngskólanum í Reykjavík. Þetta var frekar dýr skóli sem kostaði ca. 200.000 kr. á ári. En Sigga var bara með 1.200.000 kr. í laun á ári þannig að skólagjöldin voru 1/6 af laununum hennar. Hún ákvað því að snúa sér til stéttarfélagsins til að sjá hvort það gæti nú ekki hjálpað henni. Fyrst kíkti hún á netið og sá að VR borgaði 50 % af skólagjöldum. Ekki slæmt! Því næst hringdi hún til VR til að vera viss. Þar fékk hún það uppgefið að af því að hún var svo tekjulág átti hún bara rétt á 12.000 kr. styrk á ári til náms, þar sem námsstyrkir voru tekjutengdir.
SAGA 2:
Einu sinni var stelpa sem hét Rósa. Hún var að læra söng í Söngskólanum í Reykjavík. Þetta var frekar dýr skóli sem kostaði ca. 200.000 kr. á ári. Rósa var aftur á móti með 10.000.000 kr. í laun á ári. Hún átti því rétt á 100.000 kr. styrk á ári frá VR til náms en þar sem hún var svo tekjuhá þá munaði hana ekkert um þennan 200.000 kall. Þar af leiðandi nýtti hún sér ekki styrkinn.
BOÐASKAPUR:
VR græðir!

miðvikudagur, júní 20, 2007

VR mæ ees!

Allir í kringum mig segja að VR sé frábært stéttarfélag. En það er bara ekki satt! Ég er alveg búin að komast að því að VR stéttarfélag er ríkramannafélag! Efling (sem ég hef nú ekki haft mikið álit á hingað til) er þúsund sinnum betra félag að þessu leiti. VR vill ekkert fyrir mig gera af því að ég er ekki með nógu há laun. Ég fæ nánast enga styrki eða neitt, af því að allt er tekjutengt hjá þeim. Þannig að þeir sem eru með há laun fá mest frá þeim. Þegar ég fer á þing (takið eftir þegar, ekki ef...) þá ætla ég að setja þau lög að maður geti valið í hvaða félag maður borgar! Þá fyrst kæmi smá samkeppni í þetta og félögin færu kannski aðeins að leggja sig fram við að næla sér í fólk!

mánudagur, júní 18, 2007

Ilmandi auga...

Ég er svo mikill snillingur stundum. Mér tókst áðan að sprauta ilmvatni beint upp í augað á mér! Og það var eiginlega alveg hræðilega vont. Og er enn. :(

föstudagur, júní 15, 2007

Klessukeyrsla

Á miðvikudaginn sat í mestu makindun, eins og svo oft áður, í vinnunni. Allt í einu heyrðust þessir líka svakalegu skruðningar og læti fyrir utan gluggan hjá mér. Ég hrökk í kút og hljóp út í glugga, algjörlega sannfærð um að einhver væri búinn að keyra bílinn minn í klessu. Sem betur fer (fyrir mig) reyndist það ekki vera raunin. Beint fyrir neðan gluggann minn hafði gamall karl á of stórum bíl tekist að keyra upp 40 cm háan kant og fella ljósastaur og grindverk í leiðinni. En sem betur fer slasaðist enginn. En það munaði ekki miklu því ljósastaurinn datt inn í hárgreiðslustofu sem var beint á móti (inn um hurðina sem var opin! Ótrúlegt!) og lenti við fæturnar á rakaranum! Og svo gömul kona var svona sirka hálfan metra frá ljósastaurnum þegar hann datt. Það er því ekki hægt að segja annað en að þetta hafi verið lán í óláni. En það skrýtna við þetta var samt að ég var skálfandi lengi á eftir... Við hljóðin fékk ég alveg sömu skelfingartilfinninguna og þegar það var keyrt aftan á mig. Kannski ég hafi orðið fyrir meiri áhrifum við aftanákeyrsluna en ég hélt...

þriðjudagur, júní 12, 2007

Mjúk vekjaraklukka

Ég á alveg pottþétt mýkstu vekjaraklukku í heimi. Það versta við hana er samt að hún virðist vera 10 mínutum of fljót og ekki viðlit að stilla hana... Þannig er nefninlega mál með vexti að á hverjum einasta morgni, nákvæmlega 10. mínutum ÁÐUR en ég ætla að vakna, heyrist stutt mjálm og svo mal og svo er byrjað að nudda sér upp við mig. Fyrst axlirnar, svo andlitið, svo fæ ég smá hárþvott og koddinn minn er þæfður. Og ef þetta dugar ekki til að vekja mig, sem það gerir nú yfirleitt, þá er farið á tærnar. Fyrst er nuddað sér upp við þær, svo sleiktar smá og á endanum, ef allt annað bregst, bitið í þær. Og það dugar undantekningaraust til að vekja mig, nákvæmlega 10 mínutum áður en ég ætla að vakna. Og ég bara veit ekki hvernig er hægt að stilla þessa blessuðu vekjaraklukku... Einhver ráð?

mánudagur, júní 11, 2007

Hræðilegar aðstæður!

Ég er eiginlega alveg miður mín. Ég var að fá skýrlu um 7 ára strákinn sem ég styrki á Indlandi. Hann býr í dalítaþorpi og er stéttleysingi og á í rauninni enga von um betri framtíð. Hann býr í moldarkofa með stráþaki og að sjálfsögðu er ekkert rafmagn, rennandi vatn eða salernisaðstaða. Þegar hann kom til abc var hann með malaríu, orma, gat ekki gengið í skóla því að hann þurfti að vinna og átti nánast engin föt. Hann átti ekki einu sinni teppi til að sofa með á veturna. En núna fær hann mat, læknishjálp, þarf ekki að vinna, fær að ganga í skóla og fær meira að segja hjálp við heimanám á kvöldin!. Og fjölskyldan hans fær styrk fyrir ábreiðum, skólagögnum, mat og hreinlætisvörum. Og allt þetta borga ég, með litlum 1950 kr. á mánuði! Ég hvet alla sem eiga 1950 kr. á mánuði (eiga það ekki allir...? Þetta er ekki einu sinni kassi af bjór... Eða ein leigubílaferð heim...) að láta verða að því að styrkja barn. Með skýrslunni fékk ég sent kort frá honum sjálfum þar sem hann þakkaði mér fyrir og teiknaði fallega mynd handa mér. Afskaplega sætt. :) Ef það nægir ekki til að bræða fólk hvað gerir það þá?
Hérna getið þið skoðað myndir frá dalítaþorpinu:

sunnudagur, júní 10, 2007

Meira af Kattholti

Ég fór í þriðja sinn í Kattholt í morgun. Og ég verð að viðurkenna að þetta skiptið var mun auðveldara en hin tvö. Og það var aðalega út af því að ég var eiginlega bara að sinna hótelkisunum en ekki óskilakisunum. Helsti munurinn á hótelkisum og óskilakisum er að hótelkisurnar eru lang flestar heilbrigðar og hressar. Margar óskilakisur eru að sjálfsögðu líka hressar og heilbrigðar en samt eru líka margar mjög veikar. Og það er alveg hræðilegt að horfa upp á það. Ég sá samt líka nokkrar veikar kisur núna eins og hin skiptin. T.d. sá ég 4 afskaplega veika kettlinga. :( Það var mjög sorglegt. Pínulítil kisubörn, of veik til að leika sér, of veik til að bara vera kettlingar. :( En ég sá líka aðrar kisur. Ég sá t.d. eina kisu sem opnaði alltaf munnin með reglulegu millibili, greinilega að reyna að mjálma, en ekkert hljóð kom. Þegar ég fór að skoða hana nánar sá ég að hausinn á henni skalft, svona eins og á gömlu fólki. Ég fór að spyrjast fyrir um hana og þá kom skýringin. Hún var hvorki meira né minna en 23 ára gömul, jafn gömul mér! :) Hún var afskaplega elskuleg gömul kisa en þurfti að sjálfsögðu smá sérþjónustu, eins og stappaðan mat og svoleiðis. Ég vona að Kisi verði við jafn góða heilsu og hún þegar hann verður 23 ára... :p

laugardagur, júní 09, 2007

Oj bjakk!

Af hverju get ég ekki bara fengið venjulega hálsbólgu eins og allir aðrir? Þar sem ég get bara labbað út í næsta apótek og keypt mér strepsils og verið orðin góð eftir viku? Ég er ennþá í þessum sprautum í hálsinn í hverri viku. Og það hefur nú svo sem vanist. En núna seinast hitti læknirinn eitthvað illa... Og í fyrsta lagi blæddi meira heldur en vanalega. Og í öðru lagi fékk ég stærðarinnar kúlu á hálsinum! Þetta var seinasta þriðjudag og nú er laugardagur og ég er ennþá með kúlu! Þegar ég lít til hliðar finn ég þrýsting á hálsinn. Og ég er líka með stærðar marblett. Ég finn svo sem ekkert brjálæðislega til en þetta er bara svo ógeðslegt! Að vera með kúlu á hálsinum! Og ef ég ýti á hana verður erfitt að anda... Oj bjakk!!! Ég heimta venjulega hálsbólgu næst, takk!

föstudagur, júní 01, 2007

miðvikudagur, maí 30, 2007

Börn

Ég hef afskaplega gaman af því að styrkja. Og ég vildi að ég hefði meira af peningum milli handanna til að styrkja góð málefni. En lang skemmtilegast finnst mér að styrkja börn. Eins og er styrki ég 3 börn. Eina stelpu frá El Salvador sem er 10 ára núna. Ég byrjaði að styrkja hana þegar hún var 8 ára. Ég hef sent henni litlar gafir og jólakort og hef fengið eitt kort frá henni sem var mjög gaman. Svo hef ég líka fengið tvær myndir af henni og eina mynd af allri fjölskyldunni hennar. Svo fæ ég líka reglulega upplýsingar um hana; hvað henni finnst gaman og hvernig henni gengur í skólanum. Og mér fannst þetta svo skemmtilegt að ég ákvað að bæta við öðru barni og svo enn öðru. Á föstudaginn fyrir Eurovision fékk ég svo senda mynd og upplýsingar um barn nr. 2. Það reyndist vera 15 ára stelpa frá Bosníu. Á laugardeginum horfði ég svo á Eurovision þar sem Bosnía keppti með stæl. Og ég gat ekki annað en velt fyrir öfgunum í þessu. Núna var ég að styrkja munaðarlaust barn í Bosníu sem ríkið sjálft hafði ekki efni á að halda uppi og varð fá utanaðkomandi hjálp, en samt borguðu þau fyrir undir söngkonu til að taka þátt í Eurovision... Ekki það að ég sjái eftir peningum sem fer í barnið enda ekki stór upphæð; aðeins 2300 kr. á mánuði. En ef litlar 2300 kr. á mánuði halda upp einu barni (matur, læknishjálp, skóli, heimili) hversu mörgum börnum gætu krónurnar sem fóru í söngkonuna haldið uppi...? Ekki það að það að taka þátt í Eurovision er sjálfsagt gott fyrir sjálfstraust þjóða, en samt... Þetta er pæling. En annars er ég ekki enn búin að fá mynd af þriðja barninu en ég veit að það er 7 ára strákur frá Indlandi. :) Ég mæli með þessu. Þetta er ótrúlega gefandi og skemmtilegt.

föstudagur, maí 25, 2007

Sprautur í hálsinn!

Ég fór til háls-, nef- og eyralæknis í gær þar sem ég er alltaf með einhvern kverkaskít. Ég settist grunlaus í stólinn og hann kíkti í hálsinn og spurði mig svo um einkenni. Ég svaraði að sjálfsögðu samviskusamlega; sárir stingir, þröngur háls, leiðir út í eyru, eins og að kyngja sandpappír. Þá þreyfaði hann sitthvoru megin á hálsinum á mér og tilkynnti mér að ég væri með harðsperrur í tungurótarvöðvunum eftir hálskirtlatökuna. Mér fannst það nú frekar skrítið þar sem ég fór í kirtlatökuna í haust. Geta harðsperrur endst svo lengi? Hann sagði að það gæti alveg verið og væri meira að segja bara frekar líklegt. Svo sagðist hann ætla að deyfa vöðvana og dró fram sprautu. Mér var nú ekki farið að lítast á blikuna. Ætlaði hann virkilega að sprauta í hálsinn á mér?? Það reyndist raunin og ég fékk eina sprautu sitthvoru megin. Þegar hann var búinn andaði ég léttar. Þetta var nú ekkert svo slæmt! En svo fór deyfingin að virka. Allur hálsinn dofnaði og það varð erfitt að kyngja. Svo dofnaði neðri vörun þannig að hún seig niður öðru megin. Mjög gaman. Ég labbaði út frekar þvoglumælt og lítandi út eins og hálfviti... Svo mætti ég í vinnuna og átti að fara að gera skoðanakönnun! Þið getið ímyndað ykkur hvernig það gekk... En það merkilega við þetta allt saman er að ég held bara að þetta hafi virkað! Ég var á kóræfingu frá kl. 17 og söng svo á tónleikum strax á eftir. Vanalega hefði ég verið orðin mjög þreytt í röddinni og frekar rám. En ég var bara í góðu standi! Ekkert rám eða neitt! Það væri æðislegt ef ég gæti loksins losnað við þennan fjandans kverkaskít í eitt skipti fyrir öll! Núna á ég bara eftir að fara í nokkur sprautuskipti í viðbót og vonandi verð ég þá orðin góð! :D JIBBÍ!!!

þriðjudagur, maí 22, 2007

Fréttablaðið

Núna erum við mamma búnar að búa á sama stað í 2,5 ár. Og alltaf höfum við fengið fréttablaðið heim að dyrum, í hvaða veðri sem er og þrátt fyrir ómokaða stiga. Alveg þangað til upp á síðkastið. Þegar ég var ekki búin að fá fréttablaðið í meira en viku hringdi ég til þeirra til að minna á mig. Ég byrjaði ósköp kurteislega og bað þá vinsamlegast um að minna blaðberann á að bera blaðið til mín og gaf góða lýsingu á aðgenginu. Símastúlkan spurði þá hvort ég væri með póstkassa eða lúgu. Og ég svaraði því neitandi. Þá sagði hún frekar stutt í spuna að það væri ástæðan fyrir því að ég fengi ekki blaðið.
ÉG: "Nú? Eru það einhverjar nýjar reglur?"
SÍMADAMAN: "Nei. Þetta hefur alltaf verið svona."
ÉG: "En ég hef alltaf fengið fréttablaðið. Blaðberinn setti það bara á húninn."
SÍMADAMAN: "Það gæti fokið burt."
ÉG: "Það er nánast alltaf logn fyrir utan hurðina hjá mér."
SÍMADAMAN frekar pirruð: "Svona eru bara reglurnar!"
ÉG: "Ég var nú að bera út fréttablaðið sjálf og kannast ekkert við þessar reglur."
SÍMADAMAN: "Blaðið verður að fara ofan í eitthvað!"
ÉG: "Má stinga því inn um gluggann sem er við hliðina á hurðinni? Hann er alltaf opinn."
SÍMADAMAN: "Nei."
ÉG: "Hvað get ég þá gert ef ég vil fá blaðið?"
SÍMADAMAN: "Þú getur set poka á húninn."
Þögn.
ÉG: "Ertu ekki að grínast í mér? Má blaðið fara í poka á húninum en ekki á húninn sjálfan?"
SÍMADAMAN: "Þetta má samt ekki vera bónuspoki eða eitthvað svoleiðis. Það verður að vera taupoki."
Eftir þetta athygglisverða samtal setti ég út poka. En ekkert fréttablað kom. Ég hringdi að sjálfsögðu aftur til að kvarta og þá loksins fékk ég skýringu á blaðaleysinu. Skýringin var einfaldlega sú að blaðberinn í mínu hverfi er hættur! Núna fæ ég sem sagt bara fréttablaðið um helgar því þá er annar blaðberi. En ég þori samt ekki annað en að hafa pokann á húninum til öryggis...

Kisamyndir

Komnar nýjar myndir af Kisa! :)

http://kisi.dyraland.is/

mánudagur, maí 21, 2007

Frábærir tónleikar! :)


Allir að láta sjá sig! :)

Brrr...

Það er snjór úti! Ætli yfirvöld séu með leyfi fyrir þessi???

þriðjudagur, maí 15, 2007

Þjónustan í BT

Ég keypti mér utanáliggjandi harðan disk hjá BT um daginn. Nema hvað, ég setti hann í samband við tölvuna en ekkert gerðist! Ég skoðaði allar snúrur og las leiðbeiningarnar í þaula en ég gat ekki séð að ég væri að gera neitt vitlaust. Ég hringdi því í BT en ég gat ekki með nokkru móti fengið samband. Ég reyndi að hringja þrisvar sinnum og beið í símanum í 10 mín. í hvert skipti. Á endanum náði ég þá í gegn en einu svörin sem ég fékk var að hringja í annað fyrirtæki sem sér um tölvuviðgerðir! Þá spurði ég hvort ég þyrfti að borga fyrir viðgerð á splunkunýjum hörðum disk en þá varð fátt um svör. Nú var farið að síga verulega í mína en ég ákvað nú samt að prófa að hringja í þetta blessaða fyrirtæki sem símastrákurinn benti mér á. Þar var mér tilkynnt að það þyrfti að stilla diskinn á einhvern sérstakan hátt en að það væri afskaplega flókið og engan veginn hægt að gera í gegnum síma. Ég ætti því bara að koma með diskinn niður eftir og láta þá stilla hann. Þegar hér var komið við sögu fannst mér þetta farið að verða frekar furðulegt. Það bara gat ekki verið svona flókið að kaupa sér utanáliggjandi harðan disk! Ég hringdi því aftur í BT og lenti í þetta skiptið á sæmilega kurteisri símastúlku sem gaf mér samband við viðgerðardeildina. Þar svaraði einhver tölvustrákur sem ég átti afar skemmtilegt samtal við sem hljóðaði einhvern veginn svona:
ÉG: "Ég var að kaupa hjá ykkur utanáliggjandi harðan disk en tölvan mín virðist ekki finna hann."
HANN (frekar áhugalaus): "Er hann í sambandi við rafmagn."
ÉG: "Já, hann er í sambandi."
HANN: "Og er hann í sambandi við tölvuna?"
ÉG: "Já."
HANN:"Og er kveikt á honum?"
ÉG: "Já."
HANN (ennþá áhugalaus): "Ef þetta er allt í lagi á hann bara að poppa upp á skjánum."
ÉG: "Það gerist ekkert."
HANN: "Er örugglega kveikt á honum? Það er svona lítill takki aftan á honum sem stendur I og O og hann á að vera á I."
ÉG: "Já, hann er á I. Og það er blátt ljós framan á honum og ég heyri í honum vinna."
HANN: "Nú! Og hann er örugglega í sambandi við tölvuna?"
ÉG: "Já. Við USB tengið."
Og núna fór drengurinn loksins að sýna áhuga og bað mig að gera fullt af flóknum hlutum til að reyna að finna út úr þessu. Og hann komst að lokum að niðurstöðu!
HANN: “Tölvan virðist ekki finna diskinn.”
Merkilegt! Nákvæmlega sama og ég byrjaði samtalið á! Svo sagði hann mér að koma bara með hann niður í BT og þeir myndu kíkja á hann. Og ég gerði það að sjálfsögðu. En þegar ég mætti þangað tók ekki mikið betra við. Ég labbaði að einum afgreiðslustráknum og sagði honum hvað að ég var með. Og hann leit á mig og glotti! Beint framan í opið geðið á mér! En hann tók samt diskinn (ennþá glottandi!!!) og sagðist ætla að kíkja á þetta. En þegar hann fór að skoða þetta aðeins betur kom í ljós að þetta var framleiðslugalli! Þá þurrkaðist glottið loksins framan úr honum! Piff! Ég fékk að sjálfsögðu annan disk og hann virkar eins og í sögu. Ég er alveg sannfærð um að ef ég væri karlkyns fengi ég ekki svona viðbrögð! Ég er kannski ekkert tölvuséní en ég veit alveg nóg samt sem áður. En ég skil líka alveg að þessir tölvustrákar hljóta að fá fullt af símtölum frá fólki sem veit ekkert um tölvur en að glotta fram í mig án þess einu sinni að líta á diskinn fannst mér nú frekar fúlt! Ef ég hefði verið nördalegur strákur er ég viss um að ég hefði verið tekin alvarlega frá upphafi.

mánudagur, maí 14, 2007

Gasgrill

Við mæðgurnar keyptum okkur þetta fína gasgrill í seinustu viku. :) Og ég held bara að við höfum grillað öll kvöld síðan... Verst bara hvað ég er ferlega hrædd við gas. Ég þori varla að kveikja á grillinu sjálf og ég spyr mömmu örugglega svona 10 sinnum hvort hún hafi nú ekki örugglega skrúfað fyrir gasið... Ég hlýt að venjast þessu... :p

miðvikudagur, maí 09, 2007

Blóðprufa

Ég fór til ofnæmislæknis í gær til að láta grennslast fyrir um hvort að ég sé með pensilínofnæmi eftir allt pensilínátið seinasta sumar. Og fyrsta skrefið var blóðprufa. Ég settist hin rólegasta í stólinn enda ekkert sérstaklega hrædd við sprautur. Svo var bandið hert um handlegginn og beðið. Og beðið. Og beðið. Og ég sat með lokuð augun og beið eftir stunginni. Svo fór hjúkrunarfræðingurinn að pota og lemja laust í handlegginn á mér. Þá ákvað ég nú að hætta á að opna augun og kíkja á hvað hún var eiginlega að gera. Hún leit afsakandi á mig og sagðist vera að leita að góðri æð. Svo virtist sem að hún finndi eina góða en hún var ekki á venjulega staðnum heldur en á hliðinni á handleggnum á mér! "Þetta verður aðeins sára því þetta er hérna á hliðinni." sagði hún svo hin rólegasta og stakk mig. Og ég fann nú svo sem engan brjálaðan mun. Það er alltaf vont að láta stinga sig með nál! En jæja, svo var byrjað að tappa af mér. Þegar hún var komin á þriðja glas var mér ekki farið að lítast á blikuna. Var ekki nóg að fá eitt?? Eftir fimmta glasið var mig farið að svima ansi mikið og sem betur fer stoppaði hún þá. Fimm glös takk fyrir! Ég veit það ekki, kannski er þetta ekkert mikið enda hef ég svo sem enga svakalega reynslu af blóðprufum en mér fannst þetta bara alveg nóg fyrir stutta manneskju eins og mig. Ég var allavega hálf tuskuleg það sem eftir var dagsins. Fyrst á eftir varð ég svakalega þyrst og lafmóð á þessari stuttu leið út í bíl. Ætli það sé svona lítið blóð í mér að ég megi ekki við blóðprufu? Hjúkrunarfræðingurinn átti allavega í erfiðleikum með að finna sæmilega æð... Piff! Ég ætti kannski að leggjast í grænar baunir...

þriðjudagur, maí 08, 2007

Tónleikar

Ég fór á tónleika á sunnudaginn hjá Vox academica sem var að flytja Ein Deautsches Requiem eftir Brahms. Ég ætlaði að vera mætt um kl. 15:30 en endaði á að vera mætt 10 mín. í fjögur. Ég sá fyrir mér að ég þyrfti að sitja aftast fyrir aftan einhvern svakalega stóran karl. Sú reyndist nú sem betur fer ekki raunin. Fremsti bekkur var tómur og ég plantaði mér að sjálfsögðu þar. Fremsti bekkur er nú kannski ekki beint talinn vera besti bekkurinn en í þetta skipti kom það ekki að sök. Ég sá alveg ljómandi vel allt sem ég vildi sjá og hljómsveitin og kórinn blönduðust bara vel þrátt fyrir að ég sæti nánast í fangingu á sellóleikurunum. :) Verkið var mjög flott (Brahms er alltaf flottur!) og ég skemmti mér alveg ljómandi vel. Ekki skemmdu Diddú og Kristinn Sigmunds fyrir heldur. En rosalega er Kristinn stór! Á alla kanta! Tumi og Diddú hefðu komist saman fyrir inn í honum! :)

mánudagur, maí 07, 2007

Sigurstranglegt Ísland

Ótrúlegt hvernig fréttamönnum tekst alltaf að finna að minnsta kosti einn Eurovision aðdáanda sem segir að Ísland sé með sigurstranglegasta lagið. Og svo höfum við ekki einu sinni komist upp úr forkeppninni hingað til!

laugardagur, maí 05, 2007

Búin!!!

Guði sé lof! Ég er búin í prófum!!! :) Ég var að klára söngprófið mitt í gær. Sönghlutinn gekk bara vel held ég. Ég gat allavega sungið í gegnum öll lögin mín sjö á þess að stoppa. :p Hinn hlutinn gekk ekki eins vel... Og það fyndna er að ég hafði miklu meiri áhyggjur af lögunum mínum heldur en tónheyrnarhlutanum af því að hingað til hefur tónheyrnin verið mér frekar auðveld. Það sem ég gerði ekki ráð fyrir var stressið. Hausinn á mér lokaðist gjörsamlega! Prófdómarinn lét mig fá eitt lag sem ég átti að syngja. Og gaf mér hljóminn og tóninn sem ég byrjaði á og svo fékk ég hálfa mínútu til að lesa yfir lagið áður en ég átti að syngja það. Og á þessari hálfi mínúti tókst mér ekki einu sinni að finna út í hvaða tóntegund lagið var! Samt var lagið í E-dúr sem maður lærir þegar maður er í 2. stigi... Þarf af leiðandi gat ég sungið fyrsta tóninn í laginu (sem prófdómarinn var búin að gefa mér) og svo ekkert meir. Næst spilaði hann fyrir mig tveggja radda laglínu og ég átti að syngja efri röddina. Og mér tókst að sjálfsögðu að klúðra því. Svo spilaði hann fyrir mig laglínu og spurði mig svo hvort endirinn hefði verið hálfendir eða aðalendir sem er nú yfirleitt frekar auðvelt að heyra. En nei, ég gat ekki svarað því. Og svo spurði hann mig hvort laglínan hefði verið í moll eða dúr, sem er líka mjög auðvelt að heyra, en mér tókst samt ekki að svara því. Því næst spilaði prófdómarinn stutt verk og spurði mig frá hvaða tímabili verkið var og viti menn! Loksins gat mín svarað rétt! Jibbí! Eitt rétt svar! Þá spurði hann mig í hvaða takti verkið var og ég gat að sjálfsögðu ekki fundið það út. Samt var það í 6/8 sem er nú ekkert erfitt að heyra. Svo lét hann mig klappa hrynmynd. Sem allir get! En mér tókst það samt ekki! Úff! Síðast fékk ég svo annað lag sem ég átti að syngja. Og það var sama upp á teningnum þar. Ég gat bara ekki fundið tóntegundina og þess vegna komu bara fyrstu tónarnir. Ég vona bara að þessi hluti af prófinu gildi ekki mikið... Þetta er samt svo svekkjandi af því að ég veit að ég get gert þetta allt saman. Ég get meira að segja gert þetta mjög vel! Ætli þetta flokkist ekki undir prófkvíða?

mánudagur, apríl 30, 2007

Vitleysingurinn ég

Ég var í mesta sakleysi að keyra nýja fína bílinn minn um daginn. Allt í einu tók ég eftir því að bílinn var farinn að ganga furðulega. Ég einbeitti mér samstundis að ganginum til að reyna að finna út hvað þetta gæti eiginlega verið en þá hætti það. Ég var hugsi smá stund en hætti svo að velta mér upp úr þessu. Þetta var örugglega bara tilviljun. Stuttu seinna var bílinn aftur farinn að ganga furðulega! Ég einbeitti mér strax aftur að ganginum og lækkaði í útvarpinu í leiðinni til að heyra betur. En eins og hendi væri veifað hættu furðulegheitin! Stórfurðulegt! Það var ekki fyrr en í þriðja sinnið sem þetta endurtók sig að ég uppgötvaði hvað var að gerast. Vitleysingurinn ég var að slá taktinn á bensíngjöfinni!!! Svona getur tónlistin leikið mann grátt... :p

þriðjudagur, apríl 24, 2007

Rafmagn

Ég er með alveg ferlega vöðvabólgu. Og ég búin að reyna ýmislegt til að losna við hana... T.d. hljóðbylgjur. Ekki get ég sagt að þær bylgjur hafi verið hávaðasamar. Þær voru eiginlega bara alveg hljóðlátar... Er það ekki dálítið furðulegt að ekkert heyrist í hljóðbylgjum...? Svo hef ég líka prófað stuttbylgjur. Og leysigeisla... Og núna seinast í morgun, rafmagn! Það var eiginlega frekar skrýtið... Ég fékk tvær plötur á sitthvora öxlina og svo var straumi hleypt á. Fyrst fann ég bara smá kítl undir plötunum en svo fór ég að finna kítl alveg fram í hendur og upp í höfuð... Furðulegt. Ég sem hélt að rafmagn væri hættulegt...

föstudagur, apríl 20, 2007

Pennar

Ég er búin að selja 415 penna. Ég vissi ekki að fólk væri svona hrifið af pennum...

þriðjudagur, apríl 17, 2007

Týndur leðurjakki! :(

Aðalfundur kórsins míns var haldinn á föstudaginn á Hressó. Sem er í sjálfu sér ekki í frásögu færandi nema fyrir það að bjórinn var frír. Sem er í sjálfu sér ekki heldur í frásögu færandi nema fyrir það að ég drakk talsvert af honum. Við skulum allavega orða það þannig að ég hafi drukkið alveg nóg. En ég komst allavega heil heim og (að ég hélt) með allt mitt með mér. En annað kom á daginn. Ég vaknaði daginn eftir við vondan draum þar sem mamma öskraði: "Hvaða leðurjakki er þetta???" Ég rauk fram og sá leðurjakka, en alls ekki minn leðurjakka. Þessi var svartur og þunnur. Og hann var mjög víður á mig og hnésíður! Og til að toppa allt saman var hann angandi af rakspíra! Minn jakki er aftur á móti brúnn og þykkur. Og hann er frekar þröngur á mig og mittissíður. Og hann angar sko ekki af rakspíra! Ég gæti ekki hafa fundið jakka sem var ólíkari mínum til að taka með heim. Það eina sem þeir eiga sameiginlegt er að vera leðurjakkar. Hvað var eiginlega í bjórnum...?
Allavega, FUNDARLAUNUM er heitið!!! Hans er sárt saknað! :(

fimmtudagur, apríl 12, 2007

Smáfréttir

Hvernig væri nú að koma með smáfréttir, svona eins og smáskyr eða smáskilaboð...


  • Ég fór aftur í Kattholt um daginn. Og á meðan ég var þar þá fékk litli sæti horaði kisustrákurinn nýtt heimili! :) Aldeilis flott. En svo kom meindýraeyðirinn með læðu og þrjá pínulitla kettlinga. Það var ekki eins gaman en þeir voru nú samt óttalega krúttlegir.
  • Ég held að ég sé að verða einum of vön fjarstýringum... Ég er þrisvar búin að reyna að opna útihurðina með fjarstýringunni af bílnum...
  • Ég fór í sneiðmyndatöku á þriðjudaginn. Stórfurðulegt. Aldrei farið í svoleiðis áður. Plantað á einhvern bekk, stranglega bannað að hreyfa mig og svo er manni rúllað fram og til baka á meðan tækið snýst um mann. Ég hafði það allavega á tilfinningunni að það væri eitthvað inn í þessum hring sem snérist... Veit sossem ekkert hvort það er rétt. En allavega, ekkert fannst og ekkert vantaði og það er fyrir öllu. ;)
  • Ég er orðin húkkt á Aveyond. Fínn leikur.
  • Hvað er málið með jeppa á ló prófæl?? Ég hélt að jeppar væru til að jeppast á, ekki til að sýna sig á...

föstudagur, mars 30, 2007

Viðskiptablaðið í dag

Framan á viðskiptablaðinu í dag er valdamesti maður í viðskiptalífinu í dag, samkvæmt skoðanakönnun. Nánar tiltekið, skoðanakönnun sem ég gerði! :) Þetta var sem sagt fyrsta verkefnið mitt í nýju vinnunni. Að hringja í helstu forstjóra og framkvæmdarstjóra í þjóðfélaginu og spyrja þá hvaða einstaklingur sé valdamestur að þeirra mati. Og þetta er útkoman. :) Forsíðufrétt á Viðskiptablaðinu og heil opna inn í líka. Ég get ekki verið annað en ánægð. :) Alltaf gaman að sjá að það sem maður gerir kemst í blöðin. Ekki það að nafnið mitt sé nefnt en það er aukaatriði. ;)

mánudagur, mars 26, 2007

Kattholt

Ég fór í Kattholt í gærmorgun. Þannig er nefninlega mál með vexti að ég hringdi þangað um daginn til að gerast félagi í Kattavinafélagi Íslands. Í leiðinni spurði ég svo hvort það væri möguleiki að fá að koma sem sjálfsboðaliði og vinna. Ég bjóst svo sem ekkert endinlega við því að það væri hægt, að þau vildu fá óvant fólk inn til hjálpa. En annað kom á daginn! Ég var boðin velkomin og mætti í gærmorgun kl. 8 og vann til kl. 12. Og reynslan var afskaplega ánægjuleg en líka afskaplega erfið. Ég var náttla að sjálfsögðu látin þrífa kisukassana, enda mesta vinnan við það, en það var í sjálfu sér ekkert erfitt þó að lyktin væri ekki góð. Erfiðast var að horfa upp á allar þessar óskilakisur sem þurfa svooo á athyggli og ást að halda. Þær voru sofandi í mestu makindum í búrunum sínum en um leið og ég labbaði framhjá stukku þær á fætur. Þær mjálmuðu, nudduðu sér upp við búrin, stungu loppunum og trýninu út og reyndu að ná í mig. Og ef ég leit á þær og labbaði til þeirra byrjuðu þær að mala. Bara við það að einhver sýndi þeim smá athyggli. Svo voru auðvitað nokkrar veikar kisur líka sem var mjög erfitt að horfa upp á. Það var t.d. einn lítill kisustrákur sem vildi endinlega leika við mig. En þegar ég nálgaðist hann sá ég að hann var rosalega horaður og korraði í honum þegar hann andaði. Hann hafði ekki einu sinni getu til að þrífa sig! Mig langaði mest að taka hann með heim. En á móti þessum erfiðleikum kom auðvitað að ég sá fullt af kátum og heilbrigðum kisum í leik og starfi. Ég sá t.d. 10 ótrúlega krúttlega og sæta kettlinga! :) Og svo voru tvær kisur að breima og voru alveg að missa sig yfir fressköttunum sem voru lokaðir inni í búrunum. Mjög fyndið. :) Og síðan þegar ég var að fara var ein kisan búin að koma sér veeel fyrir á peysunni minni og ætlaði sko ekki að sleppa! :) Ég ætla sko pottþétt aftur þangað til að hjálpa til.

sunnudagur, mars 25, 2007

Carmina Burana

Ég hef aldrei á ævinni upplifað annað eins! Carmina Burana hefur alltaf heillað mig upp úr skónum en þetta var... ólýsanlegt! Ég hef farið á þrenna tónleika með þessu verki. Og alltaf skemmt mér sérstaklega vel. Fyrsta skiptið sem ég heyrði það var þegar Háskólakórinn og Vox Academica fluttu það. Annað skiptið var með Fílharmoníunni. Og núna í þriðja sinn í kvöld með Óperukórnum. Fyrstu tvö skiptin voru mjög flott og skemmtilegt. En samt væri hægt að taka þau tvö og leggja þau saman en samt kæmi það ekki í hálfkvist við það sem ég varð vitni að í kvöld. Enda er það ekki sambærilegt þar sem Óperukórinn er í raun atvinnukór. Þetta var svo kraftmikið og flott að ég er ennþá með gæsahúð! Og ekki spilltu Diddú, Bergþór og Þorgeir fyrir. Algjör snilld og hreinn klassi! Ég er í skýjunum! :)

föstudagur, mars 23, 2007

MISMUNUN!

Ef það er eitthvað sem ég þoli ekki er það mismunun. Allavega ekki þegar ég verð fyrir henni... Þannig er mál með vexti að ég fór á fund um daginn um söngnám erlendis. Og þar mætti Landsbankinn galvaskur að kynna fyrir okkur lánamöguleika. Og þar tilkynnti hann okkur blákalt að ef við ætluðum að fá lán fyrir skólagjöldum (LÍN dekkar bara framfærslu) þyrftum við veð! Ég spurði af hverju væri ekki nóg að fá uppáskrift fasteignaeiganda þá svaraði hann að AF ÞVÍ AÐ við værum söngnemendur þyrftum við veð. Þannig að ef ég væri að fara í eitthvað annað nám erlendis en söngnám þyrfti ég ekki veð! Mér finnst þetta virkilega ósanngjarnt! Og þar fyrir utan er ekkert grín að fá veð! Það er helst hjá foreldrum sem hægt er að nálgast svoleiðis. Og þá þurfa foreldrar manns að eiga fasteign sem er ekki veðsett í topp. Ég hélt að allir veðsettu húsið sitt í topp við kaupin á húsinu... Þannig að veð er ekki beint auðvelt að fást við. Svo var annað atriði sem ég uppgötvaði um daginn. Ég hringdi í stéttarfélagið mitt til að kanna hvað ég ætti rétt á háum styrk vegna skólans og þar var mér tilkynnt að greiðslur úr fræðslusjóð væru tekjutegndar. Sem er í raun fáránlegt! Segjum t.d. að ég fái 1000 kr. á mánuði í fræðslusjóð miðað við 100.000 kr. í laun. Þannig að eftir ár á ég rétt á 12.000 kr. styrk til mennturnar. En segjum svo að manneskjan sem situr við hliðina á mér skólanum í nákvæmlega eins námi sé t.d. með 1.000.000 kr. í mánaðarlaun og fær þar af leiðandi 10.000 kr. á mánuði í fræðslusjóð og á þá eftir ár rétt á 120.000 kr. styrk til náms! Þannig að þeir sem eru með lægstu launin og þurfta mest á styrknum að halda fá lægsta styrkinn en þeir sem eru með hæstu launin og þurfa minnst á styrknum að halda fá hæsta styrkinn! Ég bara skil ekki réttlætið í þessu!

laugardagur, mars 17, 2007

Nýja vinnan

Ég barasta held að ég sé hrifin af nýju vinnunni minni. Meira að segja mjög hrifin. Dagurinn gengur nokkur vegin svona fyrir sig: Ég mæti kl. 9. Svo klukkan svona 9:10 erum við byrjaðar að hringja. Svo hjá þeim sem reykja er reykpása milli svona 9:50 til 10:00. Svo er kaffi milli kl. 10:30 og 11:00. Síðan er önnur 10 mín. reykpása, svona um 11:30. Svo er matur frá svona ca. 11:55 til 13:05. Þriðja reykpásan er svo um kl. 13:30 til 13:40. Kaffi númer tvö er svo kl. 14:30 til 15:00. Svo er unnið til 16:00. Sem sagt, borgað fyrir 7 tíma vinnu en ca 4 tímar unnir... Mjög flott. :) Svo virðist mér bara vera að ganga mjög vel í vinnunni. Ég er til dæmis búin að fara á einn fund sem fulltrúi fyrirtækisins og úthringisérfræðingur. Og þar var ég titluð af sölustjóranum afkastamesti úthringjari landsins. Ekki amalegt. Og síðast en ekki síst, fékk ég lánaðan Santa Fe jeppa, nánast beint úr kassanum. Verst var að ég þurfti að skila honum daginn eftir en samt... Ég hef aldrei lent í því áður að umboðið láni mér nýjan flottan bíl í sólahring bara af því að ég er að vinna hjá einhverju fyrirtæki... Gaman að þessu. :)

fimmtudagur, mars 15, 2007

Strætó

Ég er ein af þeim sem hleypi alltaf strætó ef ég mögulega get. Og hneyklast alltaf á þeim sem hleypa ekki strætó. En samt stundum verður maður bara að kvarta yfir strætó. Um daginn var ég í mesta sakleysi, eins og svo oft áður, að keyra niður Miklubrautina. Keyrir þá ekki strætó upp að hliðinni á mér og á sama tíma gefur hann stefnuljós og beygir inn á mína akrein! Og ef ekki hefði verið fyrir snör og skörp viðbrögð mín (ég sveigði umhugsunarlaust inn á næstu akrein og var bara heppin að enginn bíll var þar) hefði strætó keyrt á mig! Og ég hefði orðið að klessu. Á meðan ég sat með dúndrandi hjartslátt undir stýri og blótandi strætó í sand og ösku var ég staðráðin í að hringja og kvarta. En svo lét ég aldrei verða að því... Veit ekki af hverju...

þriðjudagur, mars 13, 2007

Kisi kominn með heimasíðu! :)

Jæja, þá er hann Kisi kominn með heimasíðu. :) Og ég er búin að setja inn fuuuullt af myndum. Endinlega kíkið! Slóðin er hérna: http://kisi.dyraland.is og líka hérna til hægri undir Sætasti Kisi í heimi. :)

föstudagur, mars 09, 2007

Bíllinn lifnar við

Bíllinn minn er smám saman að lifna við. Þannig er nebbla mál með vexti að hann var látinn standa óhreyfður í eitt ár, greyið. Gleymdur og aleinn í einhverju skoti á einhverri bílasölu, þar sem enginn sá hann. Og ég er viss um að hann féll í þunglyndi. Hann var allavega ekki nema hálfur bíll þegar ég fékk hann, miðað við núna. Ekkert ljós inn í honum og rúðuþurrkan í afturrúðunni virkaði ekki. En svo eftir nokkra daga á vegunum byrjaði drunginn að leka af honum. Fyrst byrjaði ljósið inn í honum að virka aftur. Og núna er það þannig að um leið og ég drep á bílnum kveikir hann ljósið. Ég þarf ekki einu sinni að opna hurðina. Svo hökkti afturrúðuþurrkan í gang allt í einu einn daginn. Núna er hún orðin þannig að hún fer sjálf í gang ef það rignir! Um daginn fór hún alveg sjálf af stað og ég bara gat ekki slökkt á henni aftur, fyrr en rigningin hætti. Greinilegt að bílnum fannst mikilvægt að ég sæi út um afturrúðuna. Og núna upp á síðkastið hefur hann tekið upp á því að pípa á mig við minnsta tilefni. Þetta byrjaði mjög sakleysislega. Pípti þegar ég gleymdi að slökkva ljósin. Mjög gott. Svo pípir hann í hvert skipti sem hurð er opnuð. Og ekki nóg með það, heldur tilkynnir hann á útvarpsskjánum hvaða hurð er opin: "LEFT FRONT DOOR OPEN!" Og svo pípir hann þegar hann er svangur. Og þegar ég gleymi lyklunum í. Og þegar ég gleymi að setja á mig belti. Og þegar farþeginn í sætinu við hliðina á mér gleymir að setja á sig belti... Þannig að það er ekki hægt að segja annað en að bílinn minn sé smám saman að lifna við. Ég er viss um að hann verður farinn að tala eftir tvo mánuði og stýra sjálfur eftir ár. Ég hlakka til! :)

fimmtudagur, mars 08, 2007

Vitvélar??

Jæja, þá er mín farin að vinna hjá Miðlun. Þótt fyrr hefði verið segi ég nú bara. Ég er í alls konar söluverkefnum og skoðanakönnunum og þar af leiðandi er ég alltaf í símanum. Það getur verið þreytandi en mér líkar það að mestu vel. Og þar sem ég er í símanum nánast allan daginn er alveg gefið að ég lendi allavega á nokkrum furðufuglum. En furðulegasta furðufuglinum (ef fugl skyldi kalla) lenti ég á áðan. Það var hvorki meira né minna en vitvél! Ekki símsvari eða neitt svoleiðis, heldur vitvél sem heimtaði að ég talaði við sig! Og ekki nóg með það, þegar ég hikaði við að svara (enda hafði ég aldrei talað við vitvél áður), talaði hún við mig eins og ég væri barn! Ég ákvað því að reyna og sagði hátt og skýrt: "Framkvæmdarstjóri!" og bjóst svo sem ekki við miklum viðbrögðum. En hún skildi mig! Og gaf mér meira að segja samband við framkvæmdarstjóra... Furðulegt... Vitvél sem talar niður til manns... Það held ég nú... Er þetta framtíðin???

miðvikudagur, mars 07, 2007

Pæling...

Önnur auglýsing. Ameríkan stæl æl æl æl... Skemmtilegt bergmál...

þriðjudagur, mars 06, 2007

Njálgur á pítsu???

Ég var í mesta sakleysi að horfa á sjónvarpið um daginn, eins og svo oft áður. Þá fór svengdin að segja til sín og ég fór að velta fyrir mér hvað ég gæti nú fengið mér að borða. Ætti ég að panta eitthvað eða bara elda sjálf...? Kemur þá ekki bara, alveg upp úr þurru, Domino´s auglýsing í sjónvarpinu. Sem er nú svo sem ekkert óvenjulegt þar sem það fyrirtæki auglýsir ekki beint lítið. Nema hvað, þar kom þessi blessaði búktalari og dúkkan hans fyrir, sem ég hef í raun aldrei skilið. En það er nú svo sem allt í lagi. Ég þarf ekki að skilja allar auglýsingar. En þá versnaði í því. Maðurinn stóð við afgreiðsluborð Domino´s og klóraði sér í rassinum... Og dúkkan gaf í skin að hann væri með njálg... Og ég hætti snarlega við að panta mat og ákvað að elda sjálf. Það er algjörlega ofar mínum skilningi hvernig rassaklór og njálgur getur verið hagstætt fyrir pítsufyrirtæki! Eða er ég kannski bara ekki að fatta plottið??

mánudagur, mars 05, 2007

Sjávarkjallarinn

Við mamma fórum á Sjávarkjallarann um helgina. Við áttum, kemur á óvart, gjafabréf. Meira að segja tvö! Ég átti eitt fyrir 2 x exotic menu og mamma 10.000 kr. Exotic menu reyndist innihalda forrétt, aðalrétt og eftirrétt þannig að við áttum 10.000 kallinn eftir bara til að drekka fyrir. :) Þannig að mamma pantaði sér dýrasta merlot rauðvínið og ég pantaði mér bjór og hvítvín. Svo byrjaði maturinn að streyma til okkar. Fyrst fengum við smakk frá eldhúsinu sem reyndist vera reyktur áll. Mér fannst hann ekki góður (en ég smakkaði þó) en mamma fékkst ekki til að smakka. Svo fengum við forréttina. Fyst kom chillihumar, mjöööög góður. Svo var lynghæna. Hún var ekkert smá lítil! Við þurftum nánst að leita að kjötinu, en góð var hún, það litla sem við fundum allavega. Síðan var djúpsteiktur krabbi í einhvers konar orlideigi. Og ég fann eiginlega ekkert kjöt á honum heldur, en ég held að það hafi bara verið kunnáttuleysi... Síðan fengum við héralundir, hráar, í einhvers konar súsí. Mjög spes, en ekki vont. Þá var komið að aðalréttinum. Við fengum saltfisk sem var mjög góður, bleikju sem var ennþá betri, rauðsprettu sem var líka mjög góð og svo skötusel sem var ekkert spes. Og svo var auðvitað rúsínuna í pylsuendanum, andabringu! Algjört sælgæti! Í eftirrétt fengum við tvenns konar krapís, karmellusúkkulaðibúðing, súkkulaðikrembrúlei með grænu sprengidóti (svona sem bubblar upp í manni) og einhvern furðulegan ávöxt sem var kallaður drottning ávaxtanna. Þetta lítur út fyrir að vera mikið en þetta tók samt ekki langan tíma... Frá fyrsta rétti til hins síðasta var um einn og hálfur tími. En jæja, þegar hér var komið við sögu áttum við ennþá eftir af gjafabréfinu hennar mömmu, þannig að það var ekkert annað að gera ein að setjast í setustofuna og leggjast í kokteilalistann. Mamma fékk sér kaffi og grand en ég fékk mér móhídó og svo ferskjuskot. Og fyrir þetta allt saman borguðum við 250 kr. :)

fimmtudagur, mars 01, 2007

14°C!!!

14°C!!! Hvorki meira né minna! Það eru 14°C í rúminu mínu akkúrat núna! Brrrr.... Kalt... Hér með tilkynnist að rúmið mitt verður fært á heitari stað í mjög náinni framtíð og svo verður sett upp hillu þar sem rúmið er núna. Þar er þá hægt að geyma það sem kemst ekki fyrir í ísskápnum, án þess að það skemmist!

mánudagur, febrúar 26, 2007

Árshátíð Háskólakórsins

Ég var á árshátíð Háskólakórsins núna á laugardaginn og þar var stuð, eins og sjá má... ;)

laugardagur, febrúar 17, 2007

Hitastig

Ég er búin að vera að kvarta yfir hitastiginu í íbúðinni okkar núna lengi. Og þá aðalega í rúminu mínu. Það er nefninlega alveg ótrúlega kalt í rúminu mínu! Það er kalt inn í öllu svefnherberginu en alveg sérstaklega kalt í rúminu mínu. Mamma er mikið búin að hneykslast á mér, enda sef ég oft kappklædd. Og þá meina ég kappklædd, í buxum, síðerma bol, hlýjum sokkum og með vettlinga og húfu. Og flísteppi og stundum tvær sængur. Og svo sefur Kisi alltaf hjá mér líka, og hann er nú ágætis hitagjafi. En samt vakna ég með ískalt nef! Ég var því orðin forvitin að vita hvort það gæti verið að ég væri virkilega bara svona mikil kuldaskræfa eða hvort það væri einfaldlega svona kalt í rúminu mínu. Ég tók mig því til og mældi hitann víðsvegar um íbúðina. Hitinn reyndist vera í hærra lagi alls staðar, nema náttla í svefnherberginu mínu. Hitinn í stofunni var á milli 22 - 23°C. Í gamla herberginu mínu, sem mér fannst hitinn vera alveg passlegur, reyndist hitinn vera rúmar 24°C, hvorki meira né minna! Í svefnherberginu mínu var aftur á móti 19°C. Og í rúminu mínu ekki nema 17°C!!! Og þetta var þegar hitinn úti var um 4°C. Það er alltaf kaldara í rúminu mínu ef það er kalt úti. Þannig að ég ætla að mæla hitann aftur, næst þegar það kemur 10°C frost. Og ég er viss um að það kemur í ljós við þá mælingu að það er ekki að ástæðulausu sem ég sef kappklædd!

laugardagur, febrúar 10, 2007

...

Mér finnst að hæstiréttur ætti að taka sér þetta til fyrirmyndar...

http://www.mbl.is/mm/frettir/erlent/frett.html?nid=1252711

föstudagur, febrúar 09, 2007

Ljón á veginum!

Ég á ljón á veginum! 2004 árgerð, keyrður 33.000 km! Silfurlitaður! Geðveikt flottur! Peugeut 206!!!! :D Ég er rosa ánægð. Og ég þurfti nánast ekki að gera neitt! Pabbi bara kom í bæinn einn föstudaginn og sagði mér að gamli læmgræni pólóinn minn væri farinn að bila of mikið og ég að þyrfti nýjan. Þannig að við drifum okkur hið snarasta á næstu bílasölu til að skoða runó klíó sem pabbi hafði séð á netinu. Það reyndist vera lítil rauð títla. Meira að segja pínu lítil rauð títla. En þá rak pabbi augun í þetta líka fína ljón, nánast við hliðina á títlunni! Við fengum að prófa hann líka. Og hann uppfyllti allar mínar kröfur, þ.e.a.s. hann var flottur á litinn og með geislaspilara! Þetta eru aðalkostirnir sem ég sé við bíla. Þess vegna var gott að hafa pabba með... Það fyrsta sem hann gerði var að tékka á bókinni sem fylgdi bílnum til að athuga hvort allt væri ekki örugglega í lagi. Svo var tékkað hvort þetta væri nokkuð tjónabíll, hvaða eigendur höfðu verið að bílnum og þar fram eftir götunum. Mér skilst að þetta skipti allt saman miklu máli... En ljónið mitt stóðst þetta allt saman og við fengum að keyra heim saman! :) Nú á ég orðið tvö ljón! Eitt sem kúrir sig ofan á sænginni minni á nóttinni (og lánar mér náðsamlegast smá horn af henni) og annað sem fylgir mér trúfast hvert sem ég fer á daginn! Ekki amalegt! :) (Og þess má geta að pabbi útvegaði mér bæði ljónin...) Og svo tók pabbi bara gamla læmgræna pólóskrjóðinn og ætlar að selja hann fyrir mig. :) Sem sagt, ég þurfti nánast ekkert að gera en að skrifa undir. Það er gott að eiga góðan pabba. :D

mánudagur, janúar 29, 2007

Grillið

Við mamma fórum á Grillið á Hótel Sögu á laugardaginn. Það var algjört æði! Ég átti gjafabréf frá því að ég var á Dominos. Ég fékk humar í forrétt, lamb í aðalrétt, súkkulaði fondú í eftirrétt. Mamma fékk sér dádýrasteik og svo eftirrétt sem var kveikt í. Mjög flott. Og náttla vín með. Svo fórum við að reikna og komust að því að við vorum ekki komnar upp í gjafabréfið. Þannig að ég dæli meira víni og kaffi í mömmu og fékk mér sjálf annan eftirrétt. :) Ávaxtaís. Mjög gott. Þannig að kvöldið var algjör draumur í dós! :)

Eftirmaturinn hennar mömmu

þriðjudagur, janúar 23, 2007

Söguleg stund og aumingja Ísland??

Í gær gerðist sögulegur atburður í vinnunnu minni. Mér tókst að klára á 4 tímum og 49 mín.! :) Í tilefni að þessum merkis atburði ætla ég að lýsa starfinu mínu aðeins. Ég hef lent í alls kyns raunum og... já, aðalega raunum. Í fyrsta lagi valdi ég mér besta tímann til að stunda blaðaútburð. Mesti snjór í 13 ár! Frábært! Kerran er alveg nógu þung fyrir... Svo hef ég líka fengið að prófa öll veður held ég bara. Rigning, glerhálka, brjálað frost og svo auðvitað skafrenningurinn um daginn. Svo eru það hundarnir. Ég er farin að skilja þennan brandara með hunda og póstinn... Ein beit mig um daginn!!! Ég var ekkert smá móðguð! Ég var bara í mestu makindum að koma labbandi með blaðið að húsinu. Kemur hundurinn þá ekki bara á urrandi siglingu og hoppar upp og bítur mig! Piff! Svo er annar sem urrar alltaf á mig. Það var eiginlega ekki fyrr en í gær að ég sannfærðist um að þetta var hundur. Hann gefur nefninlega frá sér furðulegstu hljóð, svona sambland af ljóni og risaeðlu... Ekki mjög kræsilegt. En í gær hafði hann fyrir því að gelta einu sinni á mig. Það var eiginlega hálfgerður léttir að vita að þetta væri örugglega hundur því ég var farin að ímynda mér alls kyns skrímsli... Enda ekki annað hægt miðað við hljóðin! Þá verð ég nú að segja að kisunar eru talsvert viðmótsþýðari. :) Það er til dæmis ein sem bíður alltaf eftir mér í glugganum þegar ég kem með blaðið. :) Og svo er önnur sem er annað hvort ekki alveg viss um hvar hún á heima eða vill gerast blaðberi. Hún labbar nákvæmlega sömuleið og ég. Frá einu húsi í það næsta, út alla götuna. Furðulegt. Svo er eitt sem ég átta mig ekki alveg á... Á einu húsinu sem ég er að bera út í er skilti. Frekar stór, upplýst skilti. Og hefur öruglegga kostað sitt. Og á því stendur sá merki boðskapur: "Aumingja Ísland". ????? Hver er tilgangurinn með að eyða peningum í svoleiðis? Ég skil það ekki. Og hafa þetta við útidyrahurðina sína... Og upplýst í þokkabót! Furðuleg.

mánudagur, janúar 22, 2007

Örblogg

Ég fór út að borða á Humarhúsið á miðvikudaginn, í tilefni að afmælinu hennar mömmu. Og ég fékk besta humar sem ég hef nokkurn tíma smakkað! Hann bráðnaði upp í manni. :) Mamma fékk sér nautasteik. Svo fengum við okkur súkkulaðiköku í eftirrétt og mamma pantaði dýrasta grandið á matseðlinum! En samt borguðum við bara 500 kr.... ;)
Á fimmtudaginn fór ég svo á Footloose. Það var alveg rosalega gaman! :) Sjaldan skemmt mér eins vel í leikhúsi. Halla Vilhjálmsdóttir er líka algjör snilldarleikkona! Ótrúlega flink. Og leikmyndin var líka mjög flott, enda hönnuð af Móeiði frænku. ;)
Um helgina var ég í æfingabúðum í Skáholti. Þær standa alltaf fyrir sínu. :)
En jæja, meira seinna.

þriðjudagur, janúar 09, 2007

Nátthrafn

Ég er ekki atvinnulaus lengur. Ég var það nú svo sem ekki lengi svo sem. Þrír dagar eru samt alltaf þrír dagar. En allavega, ég er sem sagt formlega orðin blaðberi! Ég þarf að sækja blöðin út í Garðabæ kl. 01:30 á nóttinni og vera byrjuð að bera út kl. 02:00 og búin fyrir kl. 07:00 á morgnanna. Mér hefur ekki ennþá tekist að klára fyrir sjö en það kemur vonandi. Enda er ég bara búin að bera út í þrjár nætur. Þetta er samt ekkert smá magn af blöðum! 522 stykki! En þetta er alveg ágætlega borgað. 190.000 kr. á mánuði. Betra en á leikskólanum... Og þetta er bara á virkum nóttum! Þess vegna ákvað ég að prófa þetta, allavega í einn mánuð. Ekki verður það verra ef nokkur kíló fara í leiðinni... ;)