föstudagur, september 16, 2011

Nýtt líf

Ég ætlaði mér aldrei að láta þetta blogg deyja út. Ég hef afskaplega gaman af því að skrifa og mér var alltaf að detta eitthvað skemmtilegt í hug sem hefði verið gaman að blogga um. Vandamálið var bara að mér fannst ekkert af því passa beint á eftir minningunni um Kisa.
Ég fékk Kisa þegar ég var 14 ára og hann var fyrsti kisinn sem ég átti alein og sjálf. Ég man enn hvernig það atvikaðist að ég fékk hann. Ég hafði verið með ömmu Siggu í dýragarðinum í Slakka þar sem við hittum þessa líka yndislegu kettlinga. Alla leiðina heim æfði ég ræðuna sem ég ætlaði að lesa fyrir mömmu. Innihaldið var eitthvað á þá leið að þar sem við vorum bara tvær og hún oft í burtu á kvöldin og næturnar þyrfti ég nauðsynlega á félagskap að halda því það væri svo einmannalegt að vera ein heima. Ég skyldi svo sjá um allt sambandi umhirðu á kettinum, hreinsa sandinn, gefa honum að borða og allt það, ef hún gæti bara aðstoðað mig með fjárhagslegu hliðina þar sem ég, fátækur grunnskólanemi ætti í erfiðleikum með að fjármagna innkaup á kattamat og sand þar sem ég hefði bókstaflega engar tekjur. Eitthvað af þessu virðist hafa virkað því mamma samþykkti kettling til prufu eina helgi. :) Svo rann helginn upp og pabbi kom með 4 mánaða loðinn og ótrúlega krúttlegan kettling í pappakassa. Og það fyrsta sem sá stutti gerði þegar hann kom á framtíðarheimilið sitt var að finna besta staðinn í sófanum og sofna. Þar með bræddi hann mömmu endanlega og hann fékk að vera áfram. Hann fékk það virðulega nafn Þengill Hnoðri SigguRósuson en var aldrei kallaður annað en Kisi. Hann bjó svo hjá mér allt til æviloka. En núna eru liðinn meira en 2 ár frá því að hann dó og því finnst mér tímabært að endurvekja þetta blogg. En hvað passar á eftir dauðsfalli? Hvað annað en nýtt líf? :)
Ég var gjörsamlega niðurbrotinn þegar Kisi dó og ætlaði mér að taka góðan tíma í að syrgja. Raunin varð þó önnur. Ég vissi svo sem að Kisi myndi ekki lifa að eilífu og við mamma voru með plan í kisumálum þegar hann myndi falla frá. Því Kisi var mjög mikill einfari hvað aðra ketti varðaði. Ég reyndi einu sinni að taka að mér kettling en Kisa fannst það alveg afleitt og lagðist bókstaflega í þunglyndi. Eftir tvo mánuði varð ég svo að láta kettlinginn frá mér því ég gat ekki horft upp á Kisa greyið svona niðurbrotinn. Það tók hann langan tíma að jafna sig á þessari reynslu en á endanum steig hann upp úr dvalanum og varði gamli góði Kisi á ný. Eftir það reyndi ég ekki að taka að mér fleiri kisur. Í staðinn gerðum við plan. Okkur hafði alla tíð dreymt um að geta sýnt Kisa því hann var rosalega fallegur köttur en hann var svo hræddur í bíl og hjá dýralækninum að við ákváðum að leggja það ekki á hann. Í planinu fólst sem sagt að fá sér hreinræktaða kisu sem við myndum sýna og svo húskött til að halda þessum hreinræktaða í félagsskap. Við höfðum báðar verið fastagestir á kattasýningum Kynjakatta og þar féllum við fyrir Maine Coon kisum, ljónslegum og stórum. Ætlunin var því að fá sér þannig kisu.
Aðeins mánuði eftir að Kisi dó var ég orðin algjörlega viðþolslaus. Það vantaði eitthvað í líf mitt! Þarna komst ég að því að ég þrífst ekki kisulaus. Ég fór því að leita á netinu að kettlingi í heimilisleit. Ég fann fljótlega einn sem mér fannst alveg rosalega sætur og við mamma fórum að skoða. Og aðeins klukkutíma seinna vorum við komnar heim með rauðan og hvítan loðbolta sem fékk nafnið Askur. :) Hann var bara 8 vikna og var því afskaplega lítill en alveg ótrúlega kelinn! Og ég get alveg viðurkennt það að ég held að hann hafi bjargað geðheilsunni minni, því Kisi var fyrsta gæludýr mitt og þar með fyrsta gæludýrið sem ég missti og það var mér mjög erfitt, en allt varð miklu auðveldara eftir að Askur kom á heimilið. Hann var eins og smyrl á sárin.
Næst á dagskrá var svo að finna hreinræktaða kisu til að kaupa. Ég skellti mér því aftur á netið. Þar rakst ég á eitt það krúttlegasta í heimi, Ragdoll kettlinga! Núna voru góð ráð dýr! Ætlunin var bara að fá sér tvo ketti en ég gat ómögulega gert upp á milli Ragdoll eða Maine Coon! Eftir miklar umræður á heimilinu varð niðurstaðan sú að þrír kettir væru ekkert svo mikið meira en tveir og við lögðum inn pöntun fyrir tveimur kettlingum. :)
Í janúar stækkaði svo fjölskyldan okkar svo um munaði þegar Húmi og Draupnir bættust við með tveggja vikna millibili. Í fyrstu var ég ótrúlega taugaveikluð yfir því að leiða saman kettlinga og Ask sem var sko ekkert 8 vikna kríli lengur. Eftir nokkra daga af endalausum hlaupum um íbúðina til að passa krílin slakaði ég loks á og sá að þetta yrði í góðu lagi. Enda var Askur ótrúlega góður við þá, fannst þeir bara ótrúlega spennandi og vildi þefa mikið af þeim, oft við lítinn fögnuð litlu krílanna. Í dag er Askur ekki lengur stærstur en allir eru sem betur fer góðir vinir og kúra oft saman.

þriðjudagur, ágúst 11, 2009

Í minningu Kisa

Eftirmáli
Hér hvílir Þengill.
Hans er sárt saknað.
Af konunglegu norsku skógar
kattarkyni.
Saddur lífdaga.

Samið af Siggu Rósu "langömmu"

sunnudagur, júní 14, 2009

Árshátíð Gleðikórsins

Í gær var ég á árshátíð Gleðikórsins sem var alveg ótrúlega skemmtilegt. Það var mjög gaman að hitta aftur gömlu kórfélagana mína. Það var borðað, drukkið, farið í leiki og að sjálfsögðu sungið. :) Það versta er að ég virðist missa allt sem heitir tóneyra og tónheyrn um leið og ég er komin í glas. Ég fattaði það iðulega ekki fyrr en lagið var búið að ég var að syngja kolvitlausa línu eða rödd. En ég söng enga að síður hástöfum og skemmti mér konunglega. :) Ég verð bara að vona að aðrir hafi verið komnir það vel í glas að þeir heyrðu það ekki. ;) En allavega, ég skemmti mér mjög vel og ég hlakka til að mæta á fleiri Gleðikórsviðburði í framtíðinni. Takk fyrir mig!

mánudagur, febrúar 23, 2009

Ferðalag með foreldrum Lauru

Þá er ég komin heim úr viku ferðalagi með Lauru og foreldrum hennar um mið-vestur Grikkland. Við fórum til Aþenu á föstudeginum og gistum á hóteli þar eina nótt. Daginn eftir fórum við svo (LOKSINS!!!) til Akropólis. :D Og það var frábært!
Ég og Akropólis! :D

Laura og útsýnið frá Akropólishæð yfir Aþenu. :)

Annað hof með styttur í stað súlna.
Við skemmtum okkur konunglega á þessum sögulegu slóðum eins og sjá má. :þ
Seinni partinn keyrðum við svo til Amfissa sem er akkúrat hinu meginn við flóann, á móti Xylokastro. :) Þar fengum við að gista hjá Lóu, íslenskri konu sem býr þar. Það var ótrúlega gaman að tala loksins íslensku aftur! :þ Á sunnudeginum fórum við svo til Delphi. Það er merkilegur staður. Þar eru eins konar hirslur eða hof þar sem allir geymdu fjársjóðina sína í stríði, eins konar banki eða fjárhirsla. :) Einhver staðar las ég líka að forngrikkir trúðu því að miðja jarðarinnar væri í Delphi. :þ
Ég og miðja jarðarinnar (held ég...) eða fjárhirsla Aþenu. :þ
Á mánudeginum héldum við svo norður.

Snjór!! :þ

Á leiðinni komum við svo við í Meteora. Ég elska þessa kletta! :D
Um kvöldið komum við svo til Igomenítsa, sem er á vesturströndinni. En til að komast þangað þurftum við að fara yfir fjallgarð sem var 1700 m hár. :þ Fuuuullt af snjó. Við gistum svo á hóteli í Igomenítsa og fórum til Corfu daginn eftir! :D

Corfu!
Við löbbuðum svo um Corfu allan daginn. :) Mjög gaman. Daginn eftir fórum við svo upp í fjöllin nálægt Albaníu. Foreldrar Lauru eru hrifnir af fjöllum. :þ

Það var búpeningur út um allt á götunum. Frekar fyndið. :þ

Við fórum mjög nálægt Albaníu, svo nálægt að við gátum séð fjöllin þar. :þ
Albanía! :þ

En já, þegar við vorum komin svona nálægt landamærunum mættum við hermanni með hríðskotabyssu... (Eða veiðimanni... ganga þeir um með hríðskotabyssur....?) Þá ákváðum við að snúa við. Seinustu nóttina gistum við svo í litlu fjallaþorpi sem við fundum á leiðinni. Þar enduðum við svo alveg óvart í einhvers konar hátið. :þ Ókeypis matur og frítt vín! Og klukkan var 11 að morgni til. :þ
Laura vel skreytt. :þ Það var lítil stelpa sem henti pappírskrauti yfir alla sem komu inn, eins og má sjá á gólfinu í bakgrunni. :þ

Við fórum í stuttan göngutúr og Laura fann sér tré til að klifra í. :þ

Og á til að vaða í! Og það var svoooo kalt! :þ Crazy Germans! :þ

Þessar trjágeitur fundum við líka á leiðinni... :D

Seinasta daginn keyrðum við svo yfir brúnna hjá Patra og heim til Xylokastro. Vel heppnuð ferð. :)

fimmtudagur, febrúar 12, 2009

Olympia

Um seinustu helgi fór ég til Olympia, þar sem fyrstu Ólympíuleikarnir voru haldnir ca. 700 og eitthvað fyrir Krist. :) Það var mjög áhugavert.
Ég og súlur. Alltaf nóg af súlum á Grikklandi. :þ

Krúttlegir ljónshausar. :)

Marleen í startholunum að taka á sprettinn...

... eftir þessari braut. :)

Hérna gengu svo Ólympíukapparnir inn, væntanlega við mikinn fögnuð áhorfenda. :þ Allir kviknaktir auðvitað. Ég skil ekki af hverju Grikkir kepptu alltaf naktir... Það getur ekki verið þæginlegt að hlaupa með tólið danglandi á milli lappanna... Kannski var það þess vegna sem engar konur voru leyfðar á svæðinu. Ef kona fór inn á svæðið var hún myrt, hvorki meira né minna.

Við fundum svona fótspor í steinunum út um allt þarna. Og við fundum enga skýringu á því af hverju þau voru þarna og hvernig þau voru gerð... Einhverjar tillögur...?

Ég og risavaxin súla. :þ Svona voru súlurnar í Zeus-hofinu. Þessi súla er ný því hofið sjálft hrundi í jarðskjálfa (kemur á óvart... ;-) í kringum árið 521. Það var ótrúlegt að horfa í kringum sig þarna því við sáum súlurnar í pörtun liggjandi allt í kring. Þetta hlýtur að hafa verið stórfenglegt hof.

Næst fórum við á safnið sem tilheyrir svæðinu.

Ca. 2000 ára gamlar hálsfestar sem myndu sóma sér vel í tískunni í dag. :)

Skjöldur og hjálmur! Þetta lítur út eins og bíómynda-props! :þ Geðveikt kúl. ;)

Ég og hauslaus Grikkverji. ;)

Ég og handalaus Grikkverjakona. :þ

Þetta er þakskreytingin sem var á Zeus-hofinu. Stórfenglegt.

Og svo heitt súkkulaði á eftir. :) Á morgun er ég svo að fara í viku ferðaleg um mið- og vestur Grikklandi með Lauru og foreldrum hennar. Þau ætla að leigja bíl og þau buðu mér með. :) Það verður örugglega fjör. :)

þriðjudagur, febrúar 03, 2009

Nafplíon og Epiðarvos

Jæja, þá fer að styttast í heimkomu. Ég lendi föstudaginn 6. mars kl. 23:59. :) Eftir ca. 4 vikur. Það verður fínt að komast heim. :) Þetta er búið að vera ævintýri en ég sakna allra heima.
Mid-term ráðstefnan mín var um þar seinustu helgi. Það var gaman að hitta alla aftur en það var líka erfitt að kveðja því sum kem ég ekki til með að sjá aftur. :/

Þessa helgi fór ég, Lena (frá Lúxemborg) og Ly (frá Eistlandi) í dagsferð til Epiðavros og Nafplíon. Epiðavros er hringleikahúsið þar sem maður getur staðið í miðjunni og þeir sem eru á efsta bekk geta heyrt í þér.


Þarna er ég í miðjunni að prófa. Og það virkaði! Þetta var alveg eins og tala í míkrafón! :)

Ég og Ly. Bara örlítill stærðarmunur... :þ
Nafplíon er mjög falleg ferðamannaborg. Við skoðuðum kastalann þar. Kastalinn er frekar hátt uppi og við vorum frekar knappar á tíma þannig að við ákváðum að taka leigubíl upp að kastalanum og labba svo niður. Og ég er ótrúlega fegin því niðurleiðin var nógu erfið. Ég vissi ekki það væri svona erfitt að labba niður stiga... :þ Tröppurnar voru 999. (Þær voru víst 1000 en einhver kóngur braut seinustu tröppuna þegar hann kom niður á hesti...)

Fallegt útsýni. :)
Lena
Við fundum þessi neðanjarðargöng inn í kastalanum.
Og Ly ákvað að fara niður! Ég varð myrkfælin bara á að horfa á hana fara niður. :þ Svo fór Lena og ég vildi ekki vera ein eftir uppi þannig að ég elti. Þegar niður var komið fundum við bara pínulitla dýflissu, sjálfsagt notuð í gamla daga til að geyma til að geyma óæskilegt fólk. :þ

En jæja, nóg í bili. :) Ég hlakka til að hitta ykkur öll aftur!

miðvikudagur, janúar 07, 2009

Takk takk takk takk takk!!! :D

Gleðileg jól og farsælt komandi ár og takk æðislega fyrir mig! :D

Vinnan á hótelinu var ekki eins og ég hafði haldið. Þannig að í staðinn fyrir að gista þar yfir bæði jól og áramót eins og ég hélt þá var ég keyrð heim á hverju kvöldi. :) Þannig að ég fékk að eyða bæði aðfangadegi og gamlárskvöldi heima. Og það var alveg ljómandi. :) Á aðfangadag fengum við gefins mat, og þar á meðal fylltan kalkún. :)

Nammi namm!

Þar sem hótelið er, í Trikala, er allt á kafi í snjó þessa dagana. Og það hjálpar til við að koma manni í jólaskap. :)


Um áramótin fengum við líka gefins mat, í þetta skiptið gúllas og vasilopítur. Grikkir halda jólin ekkert sérstaklega hátíðleg en í staðinn halda þeir áramótin þeim mun hátíðlegri. Og á nýjársmorgun kemur Vasilis (nokkurs konar jólasveinn) með pakka handa krökkunum. Og klukkan 12 á gamlársdag borðar fjölskyldan vasilopítu, sem er kaka með mynt inn í. Og sá sem fær myntina á að verða sérstaklega heppinn næsta ár. Og ég fékk myntina í vasilopítunni okkar! :D En þar sem við vorum bara fjögur á gamlárskvöld og við vildum að einhver fyndi myntina þá skárum við þessa risa köku bara í fjóra parta. :þ


Allir að pósa með risasneiðarnar. :þ

En já, klukkan 12 að miðnætti á gamlárskvöld þá drifum við okkur öll upp á þak til að sjá flugeldana. Og þar stóðum við eins og aular og bærinn var algjörlega dauður. :þ Ekki sála á ferli og ekki einn einasti flugeldur. Við komust að því tveimur dögum seinna að vanalega eyða Grikkir áramótunum í faðmi fjölskyldunnar, svona eins og við eyðum jólunum. Þannig að eftir á að hyggja var ekkert skrítið að það skildi ekki vera sála á ferli. :þ En þetta var samt furðuleg upplifun. Standandi á þakinu á gamlárskvöld horfandi yfir bæinn og ekkert gerðist. ;)