laugardagur, febrúar 17, 2007

Hitastig

Ég er búin að vera að kvarta yfir hitastiginu í íbúðinni okkar núna lengi. Og þá aðalega í rúminu mínu. Það er nefninlega alveg ótrúlega kalt í rúminu mínu! Það er kalt inn í öllu svefnherberginu en alveg sérstaklega kalt í rúminu mínu. Mamma er mikið búin að hneykslast á mér, enda sef ég oft kappklædd. Og þá meina ég kappklædd, í buxum, síðerma bol, hlýjum sokkum og með vettlinga og húfu. Og flísteppi og stundum tvær sængur. Og svo sefur Kisi alltaf hjá mér líka, og hann er nú ágætis hitagjafi. En samt vakna ég með ískalt nef! Ég var því orðin forvitin að vita hvort það gæti verið að ég væri virkilega bara svona mikil kuldaskræfa eða hvort það væri einfaldlega svona kalt í rúminu mínu. Ég tók mig því til og mældi hitann víðsvegar um íbúðina. Hitinn reyndist vera í hærra lagi alls staðar, nema náttla í svefnherberginu mínu. Hitinn í stofunni var á milli 22 - 23°C. Í gamla herberginu mínu, sem mér fannst hitinn vera alveg passlegur, reyndist hitinn vera rúmar 24°C, hvorki meira né minna! Í svefnherberginu mínu var aftur á móti 19°C. Og í rúminu mínu ekki nema 17°C!!! Og þetta var þegar hitinn úti var um 4°C. Það er alltaf kaldara í rúminu mínu ef það er kalt úti. Þannig að ég ætla að mæla hitann aftur, næst þegar það kemur 10°C frost. Og ég er viss um að það kemur í ljós við þá mælingu að það er ekki að ástæðulausu sem ég sef kappklædd!

Engin ummæli: