Ég ætlaði mér aldrei að láta þetta blogg deyja út. Ég hef afskaplega gaman af því að skrifa og mér var alltaf að detta eitthvað skemmtilegt í hug sem hefði verið gaman að blogga um. Vandamálið var bara að mér fannst ekkert af því passa beint á eftir minningunni um Kisa.
Ég fékk Kisa þegar ég var 14 ára og hann var fyrsti kisinn sem ég átti alein og sjálf. Ég man enn hvernig það atvikaðist að ég fékk hann. Ég hafði verið með ömmu Siggu í dýragarðinum í Slakka þar sem við hittum þessa líka yndislegu kettlinga. Alla leiðina heim æfði ég ræðuna sem ég ætlaði að lesa fyrir mömmu. Innihaldið var eitthvað á þá leið að þar sem við vorum bara tvær og hún oft í burtu á kvöldin og næturnar þyrfti ég nauðsynlega á félagskap að halda því það væri svo einmannalegt að vera ein heima. Ég skyldi svo sjá um allt sambandi umhirðu á kettinum, hreinsa sandinn, gefa honum að borða og allt það, ef hún gæti bara aðstoðað mig með fjárhagslegu hliðina þar sem ég, fátækur grunnskólanemi ætti í erfiðleikum með að fjármagna innkaup á kattamat og sand þar sem ég hefði bókstaflega engar tekjur. Eitthvað af þessu virðist hafa virkað því mamma samþykkti kettling til prufu eina helgi. :) Svo rann helginn upp og pabbi kom með 4 mánaða loðinn og ótrúlega krúttlegan kettling í pappakassa. Og það fyrsta sem sá stutti gerði þegar hann kom á framtíðarheimilið sitt var að finna besta staðinn í sófanum og sofna. Þar með bræddi hann mömmu endanlega og hann fékk að vera áfram. Hann fékk það virðulega nafn Þengill Hnoðri SigguRósuson en var aldrei kallaður annað en Kisi. Hann bjó svo hjá mér allt til æviloka. En núna eru liðinn meira en 2 ár frá því að hann dó og því finnst mér tímabært að endurvekja þetta blogg. En hvað passar á eftir dauðsfalli? Hvað annað en nýtt líf? :)
Ég var gjörsamlega niðurbrotinn þegar Kisi dó og ætlaði mér að taka góðan tíma í að syrgja. Raunin varð þó önnur. Ég vissi svo sem að Kisi myndi ekki lifa að eilífu og við mamma voru með plan í kisumálum þegar hann myndi falla frá. Því Kisi var mjög mikill einfari hvað aðra ketti varðaði. Ég reyndi einu sinni að taka að mér kettling en Kisa fannst það alveg afleitt og lagðist bókstaflega í þunglyndi. Eftir tvo mánuði varð ég svo að láta kettlinginn frá mér því ég gat ekki horft upp á Kisa greyið svona niðurbrotinn. Það tók hann langan tíma að jafna sig á þessari reynslu en á endanum steig hann upp úr dvalanum og varði gamli góði Kisi á ný. Eftir það reyndi ég ekki að taka að mér fleiri kisur. Í staðinn gerðum við plan. Okkur hafði alla tíð dreymt um að geta sýnt Kisa því hann var rosalega fallegur köttur en hann var svo hræddur í bíl og hjá dýralækninum að við ákváðum að leggja það ekki á hann. Í planinu fólst sem sagt að fá sér hreinræktaða kisu sem við myndum sýna og svo húskött til að halda þessum hreinræktaða í félagsskap. Við höfðum báðar verið fastagestir á kattasýningum Kynjakatta og þar féllum við fyrir Maine Coon kisum, ljónslegum og stórum. Ætlunin var því að fá sér þannig kisu.
Aðeins mánuði eftir að Kisi dó var ég orðin algjörlega viðþolslaus. Það vantaði eitthvað í líf mitt! Þarna komst ég að því að ég þrífst ekki kisulaus. Ég fór því að leita á netinu að kettlingi í heimilisleit. Ég fann fljótlega einn sem mér fannst alveg rosalega sætur og við mamma fórum að skoða. Og aðeins klukkutíma seinna vorum við komnar heim með rauðan og hvítan loðbolta sem fékk nafnið Askur. :) Hann var bara 8 vikna og var því afskaplega lítill en alveg ótrúlega kelinn! Og ég get alveg viðurkennt það að ég held að hann hafi bjargað geðheilsunni minni, því Kisi var fyrsta gæludýr mitt og þar með fyrsta gæludýrið sem ég missti og það var mér mjög erfitt, en allt varð miklu auðveldara eftir að Askur kom á heimilið. Hann var eins og smyrl á sárin.
Næst á dagskrá var svo að finna hreinræktaða kisu til að kaupa. Ég skellti mér því aftur á netið. Þar rakst ég á eitt það krúttlegasta í heimi, Ragdoll kettlinga! Núna voru góð ráð dýr! Ætlunin var bara að fá sér tvo ketti en ég gat ómögulega gert upp á milli Ragdoll eða Maine Coon! Eftir miklar umræður á heimilinu varð niðurstaðan sú að þrír kettir væru ekkert svo mikið meira en tveir og við lögðum inn pöntun fyrir tveimur kettlingum. :)
Í janúar stækkaði svo fjölskyldan okkar svo um munaði þegar Húmi og Draupnir bættust við með tveggja vikna millibili. Í fyrstu var ég ótrúlega taugaveikluð yfir því að leiða saman kettlinga og Ask sem var sko ekkert 8 vikna kríli lengur. Eftir nokkra daga af endalausum hlaupum um íbúðina til að passa krílin slakaði ég loks á og sá að þetta yrði í góðu lagi. Enda var Askur ótrúlega góður við þá, fannst þeir bara ótrúlega spennandi og vildi þefa mikið af þeim, oft við lítinn fögnuð litlu krílanna. Í dag er Askur ekki lengur stærstur en allir eru sem betur fer góðir vinir og kúra oft saman.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli