föstudagur, mars 23, 2007

MISMUNUN!

Ef það er eitthvað sem ég þoli ekki er það mismunun. Allavega ekki þegar ég verð fyrir henni... Þannig er mál með vexti að ég fór á fund um daginn um söngnám erlendis. Og þar mætti Landsbankinn galvaskur að kynna fyrir okkur lánamöguleika. Og þar tilkynnti hann okkur blákalt að ef við ætluðum að fá lán fyrir skólagjöldum (LÍN dekkar bara framfærslu) þyrftum við veð! Ég spurði af hverju væri ekki nóg að fá uppáskrift fasteignaeiganda þá svaraði hann að AF ÞVÍ AÐ við værum söngnemendur þyrftum við veð. Þannig að ef ég væri að fara í eitthvað annað nám erlendis en söngnám þyrfti ég ekki veð! Mér finnst þetta virkilega ósanngjarnt! Og þar fyrir utan er ekkert grín að fá veð! Það er helst hjá foreldrum sem hægt er að nálgast svoleiðis. Og þá þurfa foreldrar manns að eiga fasteign sem er ekki veðsett í topp. Ég hélt að allir veðsettu húsið sitt í topp við kaupin á húsinu... Þannig að veð er ekki beint auðvelt að fást við. Svo var annað atriði sem ég uppgötvaði um daginn. Ég hringdi í stéttarfélagið mitt til að kanna hvað ég ætti rétt á háum styrk vegna skólans og þar var mér tilkynnt að greiðslur úr fræðslusjóð væru tekjutegndar. Sem er í raun fáránlegt! Segjum t.d. að ég fái 1000 kr. á mánuði í fræðslusjóð miðað við 100.000 kr. í laun. Þannig að eftir ár á ég rétt á 12.000 kr. styrk til mennturnar. En segjum svo að manneskjan sem situr við hliðina á mér skólanum í nákvæmlega eins námi sé t.d. með 1.000.000 kr. í mánaðarlaun og fær þar af leiðandi 10.000 kr. á mánuði í fræðslusjóð og á þá eftir ár rétt á 120.000 kr. styrk til náms! Þannig að þeir sem eru með lægstu launin og þurfta mest á styrknum að halda fá lægsta styrkinn en þeir sem eru með hæstu launin og þurfa minnst á styrknum að halda fá hæsta styrkinn! Ég bara skil ekki réttlætið í þessu!

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Er þetta ekki djók? Ég er orðlaus!