föstudagur, mars 09, 2007

Bíllinn lifnar við

Bíllinn minn er smám saman að lifna við. Þannig er nebbla mál með vexti að hann var látinn standa óhreyfður í eitt ár, greyið. Gleymdur og aleinn í einhverju skoti á einhverri bílasölu, þar sem enginn sá hann. Og ég er viss um að hann féll í þunglyndi. Hann var allavega ekki nema hálfur bíll þegar ég fékk hann, miðað við núna. Ekkert ljós inn í honum og rúðuþurrkan í afturrúðunni virkaði ekki. En svo eftir nokkra daga á vegunum byrjaði drunginn að leka af honum. Fyrst byrjaði ljósið inn í honum að virka aftur. Og núna er það þannig að um leið og ég drep á bílnum kveikir hann ljósið. Ég þarf ekki einu sinni að opna hurðina. Svo hökkti afturrúðuþurrkan í gang allt í einu einn daginn. Núna er hún orðin þannig að hún fer sjálf í gang ef það rignir! Um daginn fór hún alveg sjálf af stað og ég bara gat ekki slökkt á henni aftur, fyrr en rigningin hætti. Greinilegt að bílnum fannst mikilvægt að ég sæi út um afturrúðuna. Og núna upp á síðkastið hefur hann tekið upp á því að pípa á mig við minnsta tilefni. Þetta byrjaði mjög sakleysislega. Pípti þegar ég gleymdi að slökkva ljósin. Mjög gott. Svo pípir hann í hvert skipti sem hurð er opnuð. Og ekki nóg með það, heldur tilkynnir hann á útvarpsskjánum hvaða hurð er opin: "LEFT FRONT DOOR OPEN!" Og svo pípir hann þegar hann er svangur. Og þegar ég gleymi lyklunum í. Og þegar ég gleymi að setja á mig belti. Og þegar farþeginn í sætinu við hliðina á mér gleymir að setja á sig belti... Þannig að það er ekki hægt að segja annað en að bílinn minn sé smám saman að lifna við. Ég er viss um að hann verður farinn að tala eftir tvo mánuði og stýra sjálfur eftir ár. Ég hlakka til! :)

4 ummæli:

�engill sagði...

Ég þoli ekki pípandi bíla. Hef átt einn svoleiðis. Og eitthvað sjálfvirkt dót. Ég vil stjórna sjálfur. ;)

Nafnlaus sagði...

Ég mæli með að þú horfir á myndina Christine, eftir sögu Stephen King >;)

Nafnlaus sagði...

Er hún um bílinn sem lifnaði við? :)

Nafnlaus sagði...

aha :)