Ég fór til háls-, nef- og eyralæknis í gær þar sem ég er alltaf með einhvern kverkaskít. Ég settist grunlaus í stólinn og hann kíkti í hálsinn og spurði mig svo um einkenni. Ég svaraði að sjálfsögðu samviskusamlega; sárir stingir, þröngur háls, leiðir út í eyru, eins og að kyngja sandpappír. Þá þreyfaði hann sitthvoru megin á hálsinum á mér og tilkynnti mér að ég væri með harðsperrur í tungurótarvöðvunum eftir hálskirtlatökuna. Mér fannst það nú frekar skrítið þar sem ég fór í kirtlatökuna í haust. Geta harðsperrur endst svo lengi? Hann sagði að það gæti alveg verið og væri meira að segja bara frekar líklegt. Svo sagðist hann ætla að deyfa vöðvana og dró fram sprautu. Mér var nú ekki farið að lítast á blikuna. Ætlaði hann virkilega að sprauta í hálsinn á mér?? Það reyndist raunin og ég fékk eina sprautu sitthvoru megin. Þegar hann var búinn andaði ég léttar. Þetta var nú ekkert svo slæmt! En svo fór deyfingin að virka. Allur hálsinn dofnaði og það varð erfitt að kyngja. Svo dofnaði neðri vörun þannig að hún seig niður öðru megin. Mjög gaman. Ég labbaði út frekar þvoglumælt og lítandi út eins og hálfviti... Svo mætti ég í vinnuna og átti að fara að gera skoðanakönnun! Þið getið ímyndað ykkur hvernig það gekk... En það merkilega við þetta allt saman er að ég held bara að þetta hafi virkað! Ég var á kóræfingu frá kl. 17 og söng svo á tónleikum strax á eftir. Vanalega hefði ég verið orðin mjög þreytt í röddinni og frekar rám. En ég var bara í góðu standi! Ekkert rám eða neitt! Það væri æðislegt ef ég gæti loksins losnað við þennan fjandans kverkaskít í eitt skipti fyrir öll! Núna á ég bara eftir að fara í nokkur sprautuskipti í viðbót og vonandi verð ég þá orðin góð! :D JIBBÍ!!!
föstudagur, maí 25, 2007
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
1 ummæli:
Ég er með vöðvabólgu í kjálkunum, ég fæ stundum vont þegar ég glenni upp skoltinn til að bíta í epli, kannski ég ætti bara að fá sprautu:-)
Skrifa ummæli