Ég keypti mér utanáliggjandi harðan disk hjá BT um daginn. Nema hvað, ég setti hann í samband við tölvuna en ekkert gerðist! Ég skoðaði allar snúrur og las leiðbeiningarnar í þaula en ég gat ekki séð að ég væri að gera neitt vitlaust. Ég hringdi því í BT en ég gat ekki með nokkru móti fengið samband. Ég reyndi að hringja þrisvar sinnum og beið í símanum í 10 mín. í hvert skipti. Á endanum náði ég þá í gegn en einu svörin sem ég fékk var að hringja í annað fyrirtæki sem sér um tölvuviðgerðir! Þá spurði ég hvort ég þyrfti að borga fyrir viðgerð á splunkunýjum hörðum disk en þá varð fátt um svör. Nú var farið að síga verulega í mína en ég ákvað nú samt að prófa að hringja í þetta blessaða fyrirtæki sem símastrákurinn benti mér á. Þar var mér tilkynnt að það þyrfti að stilla diskinn á einhvern sérstakan hátt en að það væri afskaplega flókið og engan veginn hægt að gera í gegnum síma. Ég ætti því bara að koma með diskinn niður eftir og láta þá stilla hann. Þegar hér var komið við sögu fannst mér þetta farið að verða frekar furðulegt. Það bara gat ekki verið svona flókið að kaupa sér utanáliggjandi harðan disk! Ég hringdi því aftur í BT og lenti í þetta skiptið á sæmilega kurteisri símastúlku sem gaf mér samband við viðgerðardeildina. Þar svaraði einhver tölvustrákur sem ég átti afar skemmtilegt samtal við sem hljóðaði einhvern veginn svona:
ÉG: "Ég var að kaupa hjá ykkur utanáliggjandi harðan disk en tölvan mín virðist ekki finna hann."
HANN (frekar áhugalaus): "Er hann í sambandi við rafmagn."
ÉG: "Já, hann er í sambandi."
HANN: "Og er hann í sambandi við tölvuna?"
ÉG: "Já."
HANN:"Og er kveikt á honum?"
ÉG: "Já."
HANN (ennþá áhugalaus): "Ef þetta er allt í lagi á hann bara að poppa upp á skjánum."
ÉG: "Það gerist ekkert."
HANN: "Er örugglega kveikt á honum? Það er svona lítill takki aftan á honum sem stendur I og O og hann á að vera á I."
ÉG: "Já, hann er á I. Og það er blátt ljós framan á honum og ég heyri í honum vinna."
HANN: "Nú! Og hann er örugglega í sambandi við tölvuna?"
ÉG: "Já. Við USB tengið."
Og núna fór drengurinn loksins að sýna áhuga og bað mig að gera fullt af flóknum hlutum til að reyna að finna út úr þessu. Og hann komst að lokum að niðurstöðu!
HANN: “Tölvan virðist ekki finna diskinn.”
Merkilegt! Nákvæmlega sama og ég byrjaði samtalið á! Svo sagði hann mér að koma bara með hann niður í BT og þeir myndu kíkja á hann. Og ég gerði það að sjálfsögðu. En þegar ég mætti þangað tók ekki mikið betra við. Ég labbaði að einum afgreiðslustráknum og sagði honum hvað að ég var með. Og hann leit á mig og glotti! Beint framan í opið geðið á mér! En hann tók samt diskinn (ennþá glottandi!!!) og sagðist ætla að kíkja á þetta. En þegar hann fór að skoða þetta aðeins betur kom í ljós að þetta var framleiðslugalli! Þá þurrkaðist glottið loksins framan úr honum! Piff! Ég fékk að sjálfsögðu annan disk og hann virkar eins og í sögu. Ég er alveg sannfærð um að ef ég væri karlkyns fengi ég ekki svona viðbrögð! Ég er kannski ekkert tölvuséní en ég veit alveg nóg samt sem áður. En ég skil líka alveg að þessir tölvustrákar hljóta að fá fullt af símtölum frá fólki sem veit ekkert um tölvur en að glotta fram í mig án þess einu sinni að líta á diskinn fannst mér nú frekar fúlt! Ef ég hefði verið nördalegur strákur er ég viss um að ég hefði verið tekin alvarlega frá upphafi.
þriðjudagur, maí 15, 2007
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
3 ummæli:
týpískt smípískt!
Ég keypti ódýran dvd spilara hjá bt í fyrra sem reyndist vera gallaður. Ég týndi kassakvittuninni svo ég lagði ekki einu sinni í að reyna að fá þetta bætt þekkjandi þeirra þjónustu.
Þetta er nú alveg dæmalaust fyndið allt saman, en pirrandi samt. Bið að heilsa mömmu sætu góðu.
Kveðja Bryndís og fjölskylda
Skrifa ummæli