Ég fór til ofnæmislæknis í gær til að láta grennslast fyrir um hvort að ég sé með pensilínofnæmi eftir allt pensilínátið seinasta sumar. Og fyrsta skrefið var blóðprufa. Ég settist hin rólegasta í stólinn enda ekkert sérstaklega hrædd við sprautur. Svo var bandið hert um handlegginn og beðið. Og beðið. Og beðið. Og ég sat með lokuð augun og beið eftir stunginni. Svo fór hjúkrunarfræðingurinn að pota og lemja laust í handlegginn á mér. Þá ákvað ég nú að hætta á að opna augun og kíkja á hvað hún var eiginlega að gera. Hún leit afsakandi á mig og sagðist vera að leita að góðri æð. Svo virtist sem að hún finndi eina góða en hún var ekki á venjulega staðnum heldur en á hliðinni á handleggnum á mér! "Þetta verður aðeins sára því þetta er hérna á hliðinni." sagði hún svo hin rólegasta og stakk mig. Og ég fann nú svo sem engan brjálaðan mun. Það er alltaf vont að láta stinga sig með nál! En jæja, svo var byrjað að tappa af mér. Þegar hún var komin á þriðja glas var mér ekki farið að lítast á blikuna. Var ekki nóg að fá eitt?? Eftir fimmta glasið var mig farið að svima ansi mikið og sem betur fer stoppaði hún þá. Fimm glös takk fyrir! Ég veit það ekki, kannski er þetta ekkert mikið enda hef ég svo sem enga svakalega reynslu af blóðprufum en mér fannst þetta bara alveg nóg fyrir stutta manneskju eins og mig. Ég var allavega hálf tuskuleg það sem eftir var dagsins. Fyrst á eftir varð ég svakalega þyrst og lafmóð á þessari stuttu leið út í bíl. Ætli það sé svona lítið blóð í mér að ég megi ekki við blóðprufu? Hjúkrunarfræðingurinn átti allavega í erfiðleikum með að finna sæmilega æð... Piff! Ég ætti kannski að leggjast í grænar baunir...
miðvikudagur, maí 09, 2007
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli