þriðjudagur, maí 22, 2007

Fréttablaðið

Núna erum við mamma búnar að búa á sama stað í 2,5 ár. Og alltaf höfum við fengið fréttablaðið heim að dyrum, í hvaða veðri sem er og þrátt fyrir ómokaða stiga. Alveg þangað til upp á síðkastið. Þegar ég var ekki búin að fá fréttablaðið í meira en viku hringdi ég til þeirra til að minna á mig. Ég byrjaði ósköp kurteislega og bað þá vinsamlegast um að minna blaðberann á að bera blaðið til mín og gaf góða lýsingu á aðgenginu. Símastúlkan spurði þá hvort ég væri með póstkassa eða lúgu. Og ég svaraði því neitandi. Þá sagði hún frekar stutt í spuna að það væri ástæðan fyrir því að ég fengi ekki blaðið.
ÉG: "Nú? Eru það einhverjar nýjar reglur?"
SÍMADAMAN: "Nei. Þetta hefur alltaf verið svona."
ÉG: "En ég hef alltaf fengið fréttablaðið. Blaðberinn setti það bara á húninn."
SÍMADAMAN: "Það gæti fokið burt."
ÉG: "Það er nánast alltaf logn fyrir utan hurðina hjá mér."
SÍMADAMAN frekar pirruð: "Svona eru bara reglurnar!"
ÉG: "Ég var nú að bera út fréttablaðið sjálf og kannast ekkert við þessar reglur."
SÍMADAMAN: "Blaðið verður að fara ofan í eitthvað!"
ÉG: "Má stinga því inn um gluggann sem er við hliðina á hurðinni? Hann er alltaf opinn."
SÍMADAMAN: "Nei."
ÉG: "Hvað get ég þá gert ef ég vil fá blaðið?"
SÍMADAMAN: "Þú getur set poka á húninn."
Þögn.
ÉG: "Ertu ekki að grínast í mér? Má blaðið fara í poka á húninum en ekki á húninn sjálfan?"
SÍMADAMAN: "Þetta má samt ekki vera bónuspoki eða eitthvað svoleiðis. Það verður að vera taupoki."
Eftir þetta athygglisverða samtal setti ég út poka. En ekkert fréttablað kom. Ég hringdi að sjálfsögðu aftur til að kvarta og þá loksins fékk ég skýringu á blaðaleysinu. Skýringin var einfaldlega sú að blaðberinn í mínu hverfi er hættur! Núna fæ ég sem sagt bara fréttablaðið um helgar því þá er annar blaðberi. En ég þori samt ekki annað en að hafa pokann á húninum til öryggis...

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Þú ert svo góður penni elskan, Hvað er að þessu Fréttablaði og hvar er þjónustulundin. Fór hún til Moggans.
Kveðja Bryndís