miðvikudagur, desember 13, 2006

Jólagleði

Í skólanum mínum eru söngdeildir fyrir hvert stig. Þær eru hugsaðar sem æfing í að syngja fyrir framan fólk. Þegar ég var í grunnnámi þá söng ég í grunndeild. Það var erfiðast í fyrsta skiptið en svo söng ég í hvert skipti eftir það. Árið eftir, í miðdeildinni breyttist deildin svolítið. Þá fengum við allskonar hjálpartæki (t.d. bolta, sippibönd og tennisspaða svo eitthvað sé nefnt) til að hjálpa okkur við að túlka og syngja. Þá var líka erfitt að syngja í fyrstu skiptin en það var samt fjótt að koma. Á þessu ári hef ég verið í ljóða- og aríudeild sem er fyrir framhalds- og háskólanemendur. Og hafði aldrei sungið þar (vegna veikinda og kirtlatöku) fyrr en í gær. Og ég var búin að kvíða fyrir því frá því fyrir helgi. En ég lét mig hafa það og söng einfalt jólalag. Og mér fannst það hræðilega illa sungið þar sem ég er að drepast úr kvefi og röddin mín vildi bara ekki hlýða! Þannig að, til að breiða yfir lélega söngtækni og mjög mjóróma söng, reyndi ég bara að brosa sem mest og taka létt á þessu. Garðar Cortes var að hlusta og ég vonaði bara að hann ræki mig ekki út fyrir lélegan söng. En það gerðist sko aldeilis ekki! Hann horfði á mig smá stund og sagði svo: "Mikið ofboðslega var þetta fallegt. Ég fékk alveg svona..." (setti hönd á hjartastað). "Takk fyrir að búa til jól fyrir mig." Svo sagði hann að þetta væri túlkunin sem hann væri alltaf að biðja "stóru krakkana" (þau sem eru komin lengra en ég) um að gera. Og að gleðin hefði skinið af mér. Eins og gefur að skilja var ég algjörlega í skýjunum á eftir! :D Ekki amalegt að fá svona hrós frá föður óperunnar á Íslandi. ;)

Engin ummæli: